Skessuhorn


Skessuhorn - 29.06.2022, Blaðsíða 27

Skessuhorn - 29.06.2022, Blaðsíða 27
MIÐVIKUDAGUR 29. JÚNÍ 2022 27 Vísnahorn Fréttir hafa borist af því að Úkraínumönn- um hafi gengið eitthvað brös- uglega að ná sambandi við stjórnbúnaðinn á þeim næstum spánýja vopnabúnaði sem vesturveldin hafa skenkt þeim af náð sinni og miskunn. Ekki að ég viti eða telji mig vita í smáatriðum um hvað málið snýst en ýmsum hefur reynst svolítið snúið að yfirfæra í kollinum helstu málsetningar milli metrakerf- isins og svo aftur tommu og feta og punda. Helstu málsetningar í timbri eru reyndar enn grunnaðar á tomm- um og fetum þó þær heiti eitthvað í milli- eða sentimetrum. Ef ég man rétt eru ekki svo óskaplega mörg ár síðan Bandaríkjamenn og Evrópu- búar sendu á loft gervihnött sem var samstarfsverkefni þeirra en glat- aðist svo einhversstaðar í háloftun- um. Þegar farið var að rannsaka mál- ið betur kom þá í ljós að þjóðirnar höfðu notað sitt hvort mælikerfið með heldur óþægilegum afleiðing- um. Árið 1912 komu til framkvæmda ný lög um mál og vog og olli það ýmsum vandræðum og gekk mörg- um illa að átta sig á þessari nýbreytni. Ísleifur Gíslason kaupmaður á Sauð- árkróki orti eftirfarandi og nefndi: „Metrakerfið í Praksis 1912“ Nú þarf ég, góði, mikils með, mjög langt er síðan ég gat ekið. Eins og þú getur sjálfur séð, sárlítið út ég hefi tekið. Einn kílólítra eg vil fá af olíu hérna á þennan brúsa. Komist hann sleðann ekki á, eg verð að láta þrælinn dúsa. Hundrað grömm líka af heilbaun- um hefði ég þurft að taka núna, og helmingi meir af hrísgrjónum- ég held ég vorkenni ei þeim brúna. Ögn af steinkolum þarf ég þó, þeim má ég síst af öllu gleyma; átta sentigrömm er nóg, eitthvað svolítið var til heima. Reipin mín gjörast ónýt öll, einnig vantar mig þarfaspotta. Á þessu vilja verða spjöll, en vinnumennirnir að því glotta. Hefurð´ei kaðal handa mér? -hrosshárið þó að reynist betra. Eg þarf að taka út hjá þér eins og - 50 sentimetra. Einn kílómeter alpakka átti eg að taka fyrir Möngu, til þess að bæta treyjuna sem táð er í sundur fyrir löngu. Gefðu mér nú á glasið, sko, gott er að hressa sig við stritið, einn hektólíter, eða tvo, -ekki má drekka frá sér vitið. Sveinn Ásgeirsson hélt um tíma úti vinsælum spurningaþáttum í útvarpi sem nefndust „Já eða Nei“ og hafði þar sér til aðstoðar nokkra snillinga til að botna vísuparta. Er mér til efs að aðrir hafi gert vísna- arfinum meira gagn því enginn krakki gat verið þekktur fyrir ann- að en að vera viðræðuhæfur um nýj- ustu afrek þeirra snillinganna og það sem síast inn í barnssálina loðir þar lengi fast. Eftirfarandi vísa mun hafa orðið til í þessum þáttum og Sveinn kemur með fyrripartinn: „Sigga er eins og fólk er flest en fjörug yfirmáta.“ Ekki man ég nú hver þeirra snill- inga botnaði: „Ef hún nær sér ekki í prest ætti hún að fá sér dáta.“ Rósberg Snædal orti hinsvegar það sem hann kallaði Guðrún Ósvífursdóttir með öfugum for- merkjum: Kort með nesti, krappan skó, klafa og festar bar ég. Lengst og mest mig þreyttu þó þeir sem bestur var ég. Ég er nú orðinn svo gleyminn á nöfn enda skipta þau ekki alltaf höf- uðmáli en einhver ágætur klerkur var að ræða við aldraðan bónda úr sinni sókn um eilífðarmálin. Eitt- hvað voru þeir ekki fullkomlega sammála um smáatriðin allavega sá bóndi ástæðu til að svara: „Það veit nú enginn neitt um það fyrr en hann er dauður séra minn.“ Það var hinsvegar Bjarni frá Gröf sem sagði: Sumir prestum sýna traust sálina að náða. En ég vil milliliðalaust láta Drottin ráða. Raunverulega á mannskepnan ekki nema um tvennt að velja. Að deyja eða halda áfram að lifa. Egg- ert Norðdal á Hólmi orti 94 ára gamall: Öll mín liðin ævistig eru í veður fokin, sá er hingað sendi mig sér um endalokin. Nú fer að styttast í Landsmót hestamanna og rétt að rifja upp nokkrar hestavísur. Sú fyrsta er eftir Eyjólf Jónasson í Sólheimum og til með einhverjum orðalagsmun en ég set hér þá útgáfu sem ég lærði fyrst: Reisir makkann fótafrár. Flengir bakkann vakur. Glaður hlakkar ótöld ár undir hnakknum rakur. Og er þá ekki næst Björn S Blön- dal: Þegar glettin bölsins brek byrgja þétt að vonum fótaléttan fák ég tek og fæ mér sprett á honum. Ýmsir kannast við þessa gömlu vísu eignaða Vigfúsi Runólfssyni lækni í Mávahlíð: Brestur vín og brotnar gler, bregðast vinir kærir, en á Blesa eru mér allir vegir færir. Eyfirðingurinn Benedikt Ingi- marsson orti og væntanlega með tilvísun í þá fyrri: Ekki er mér um útreiðar. Öllu skárra að lesa. Allar leiðir ófærar eru mér á Blesa. Það er víst ljótt að gera upp á milli dýrategunda þó ekki muni ég mikið af kúavísum en Guðmundur Þorsteinsson kvað eftir heimsókn dýralæknis: Oss þó gangi margt í mót mun ég lítið sorgum flíka. Gunnar mætti með sitt dót, málið dautt - og kýrin líka. Stefán Jónsson nefndi líka fleiri dýrategundir til sögu þegar hann orti í orðastað Jóns Pálmasonar: Það kliðar lækur hjá klettinum. Það kúrir lóa rétt hjá honum. Það er töluverð tónlist í kettinum þegar troðið er á rófunni á honum. Með þökk fyrir lesturinn, Dagbjartur Dagbjartsson Hrísum, 320 Reykholt S 435 1189 og 849 2715 dd@simnet.is Gunnar mætti með sitt dót - málið dautt - og kýrin líka! Síðustu misseri hafa hugtökin „fæðuöryggi“ og „matvælaöryggi“ verið mikið notuð í umræðunni enda hafa bæði sterkari skírskotun til stjórnvalda og almennings vegna breyttrar heimsmyndar. Matvæla- ráðuneytið vekur athygli á því að þótt hugtökin séu keimlík hafi þau sitthvora þýðinguna, en eðlilega vill stundum bregða svo við að þeim er ruglað saman. Skilgreiningarnar á hugtökunum eru þessar: Fæðuöryggi: Þegar allt fólk, á öllum tímum, hefur raunverulegan og efnahags- legan aðgang að nægum, heilnæm- um og næringarríkum mat sem fullnægir þörf- um þess til að lifa virku og heilsusamlegu lífi. Matvæla- öryggi: Þegar matvæli eru örugg til neyslu. Matur er meðhöndl- aður, mat- reiddur og geymdur þannig að hætta á matar- sjúkdómum er í lágmarki. Matvæli eru varin fyrir sýkingarvöldum og efnasamböndum sem valdið geta neytendum heilsutjóni. mm Smiðjunni í Snæfellsbæ barst góð gjöf á dögunum frá Lionsklúbbi Ólafsvíkur. Klúbburinn færði smiðjunni geymsluskáp ásamt stóru vinnuborði og pappírstætara. Hef- ur Smiðjan undanfarið unnið mark- visst að því að endurskipuleggja vinnuaðstöðu sína enda skiptir góð vinnuaðstaða miklu máli. Það var Atli Alexandersson sem afhenti gjöfina fyrir hönd Lionsklúbbsins og stillti hann sér upp ásamt starfs- fólki og Þórheiði Elínu Sigurðar- dóttur forstöðukonu Smiðjunnar. Hér eru þau framan við geymslu- skápinn og voru auðvitað allir kátir eins og alltaf enda stutt í sumarfrí. þa Samband íslenskra sveitarfélaga hyggst ráða sérfræðing í málefn- um barna og mun hann starfa með öðrum sérfræðingum sambandsins að verkefnum á sviði fræðslumála og félagsþjónustu. Er starfið aug- lýst án staðsetningar, föst starfsað- staða geti verið utan höfuðborgar- svæðisins, að því gefnu að mögulegt verði að tryggja fullnægjandi starfs- aðstöðu nærri heimili umsækjanda. Einnig er því haldið opnu að starfs- aðastaðan geti verið á skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga í Reykjavík. Um er að ræða fullt starf og að æskilegt sé að umsækj- andi hefji störf í október. Í starfs- lýsingu kemur fram að helstu ver- kefni sérfræðingsins tengist sam- þættingu farsældarþjónustu í þágu barna, sem m.a. snýr að leik- og grunnskólastarfi, frístundaþjónustu og annarri þjónustu við börn. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköp- unarráðuneytið hefur einnig aug- lýst nokkur störf sérfræðinga þar sem tekið er fram að ráðuneytið sé jákvætt fyrir störfum án staðsetn- ingar. Ennfremur auglýsir Vega- gerðin starf sérfræðings á svipuð- um nótum. Í þessu felast tækifæri fyrir landsbyggðina alla, Vesturland þar með talið. gj Lionsmenn gáfu til Smiðjunnar Gætum að matvælaöryggi og tryggjum fæðuöryggi! Ekki þurfa öll störf að vera staðsett í Reykjavík. Opinber sérfræðistörf án staðsetningar

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.