Due to maintenance work, there may be disruptions to the Tímarit.is service from 18:00 onwards.

Morgunblaðið - 02.07.2022, Síða 12

Morgunblaðið - 02.07.2022, Síða 12
12 DAGLEGT LÍF MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. JÚLÍ 2022 Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is V ið Tinni kynntumst fyrst þegar ég var strákur, þegar Tinnabækurnar voru að koma út í gamla daga hjá Fjölva upp úr 1970. Ég drakk þessar sögur í mig og ný Tinnabók var alltaf mest spennandi gjöfin sem ég beið eftir um jólin. Ég las þær af slíkri áfergju og aftur og aftur að bækurnar eyðilögðust. Fyrsta Tinnabókin sem ég eignaðist var Svaðilför í Surtsey, og hún er enn í mestu uppáhaldi hjá mér af öllum Tinnabókunum,“ segir Óskar Guðmundsson rithöfundur og myndlistarmaður, en sýning hans, Tinni á Íslandi, stendur nú yfir í Epal gallerí í miðbæ Reykjavíkur. Þar sýnir Óskar myndir þar sem hann hefur komið Tinna og félögum fyrir í íslensku umhverfi, ýmist úti í náttúrunni eða í höfuðborginni. Þar baða þessar persónur sig í Stuðla- gili, eru í útilegu við gjósandi Heklurætur, fljúga yfir Gullfoss og Gróttu, eru í fjallgöngu í Kerling- arfjöllum, í geimbúningum við Hall- grímskirkju, í loftfari ofan við Lækjarbrekku í Bankastræti og á hlaðinu á Gljúfrasteini. „Tinni stendur hjarta mínu nær, enda heillaðist ég forðum gjör- samlega af þessum bókum og per- sónunum sem þær geyma, hinum vaska blaðamanni og uppljóstrara Tinna, og skrautlegu vinum hans Kolbeini kafteini krossbölvandi, Skapta og Skafta leynilöggum, Vandráði viðutan prófessor og öll- um hinum. Ekki má gleyma hund- inum trygga, Tobba, sem hjálpar Tinna í mörgum raunum.“ Þá geri ég það bara sjálfur Óskar segir að hann hafi alltaf verið að bíða eftir að hinn belgíski höfundur Tinna, Hergé, sendi frá sér Tinnabók sem gerðist alfarið á Íslandi. „Reyndar koma þeir Tinni og Kolbeinn við á Akureyri í bókinni Dularfulla stjarnan, sem mér fannst æðislegt en þessir fáu rammar dugðu skammt og ég hafði orð á því við móður mína þegar ég var á fermingaraldri að ef Hergé ætlaði ekki að láta Tinna koma almenni- lega til Íslands, þá ætlaði ég að gera það sjálfur einn góðan veður- dag,“ segir Óskar og bætir við að covid hafi í raun orðið til þess að hann lét loks verða af því að ráðast í verkefnið. „Ég skrifaði glæpasögurnar fjórar sem ég hef sent frá mér allar á kaffihúsum, en í fyrstu bylgju covid var kaffihúsum lokað og líka skólum, svo drengirnir mínir voru meira og minna heima og líka kon- an mín. Fyrir vikið gafst lítið næði til skrifta og ég lagði söguna sem ég var að skrifa í salt en fór að sinna myndverkum með Tinna. Þetta var frábær tími, ég tók ljós- myndir í bænum af því umhverfi sem ég ætlaði að setja Tinna í, af Hallgrímskirkju og fleiri stöðum og þá kom sér vel að vegna heimsfar- aldurs og lokana var ég nánast aleinn í bænum og ekkert fólk að skyggja á það sem ég tók myndir af. Myndirnar vann ég svo í tölvu, en Tinnamyndir mínar eru allar upphaflega grafískar myndir, ég teiknaði þetta allt í tölvu, en auk þess hef ég málað þrjár stórar myndir og sú fjórða er í vinnslu.“ Þegar Óskar er spurður að því hvort hann hafi ekki óttast mála- ferli frá Tinnaveldinu, rétthöfum verka Hergé, því það hefur jú sótt hart að verja höfundarrétt á mynd- unum, segist hann hafi kynnt sér málið í þaula áður en hann lagði af stað. „Fjölskylda Hergé hefur vissu- lega farið í margt málaferlið við fólk sem notar Tinna eða persónur úr bókunum með einum eða öðrum hætti, en danski myndlistarmað- urinn Ole Ahlberg sem hefur málað Tinnamyndir í meira en þrjátíu ár, hann hafði betur í málinu gegn hon- um. Þau málaferli stóðu í ellefu ár og enduðu fyrir Evrópudómstól þar sem Ole Ahlberg vann málið. Fyrir vikið tel ég niðurstöðu þess dóms tryggja að mér sé óhætt að skapa verk með persónum úr Tinnabók- unum. Í verkum Ole Ahlberg eru Tinni og félagar í mjög ögrandi erótískum aðstæðum, sem sumir aðdáendur Tinna hafa ekki verið par hrifnir af, en mig langar aftur á móti til að heiðra Hergé með mín- um Tinnamyndum. Þar eru Tinni og vinir hans í fallegu íslensku um- hverfi. Ég stúderaði mjög vel ein- kenni og aðferðir sem Hergé notaði í sínum teikningum en ég passa líka að birtingarmynd hverrar einustu persónu sem er í mínum myndum sé hvergi annars staðar til, ég tek ekki myndir úr Tinnabókum og kó- pera, heldur teikna ég þær alveg upp á nýtt og í nýjum stellingum. Synir mínir hafa setið fyrir, þeir hafa farið í alls konar stöður svo ég geti teiknað trúverðugar persónur.“ Engar talblöðrur í spjalli Tinna við Nóbelskáldið Óskar segist í myndum sínum taka sér skáldaleyfi og hann lætur persónurnar gera ýmislegt sem þær hafa aldrei gert í Tinnabókunum. „Skáldaleyfið er líka í tíma og rúmi, til dæmis er Tinni á einni myndinni í loftfarinu sem sveif yfir Reykjavík 1930, en ég læt hann vera yfir Bankastræti eins og það lítur út í dag. Tinni hitti heldur aldrei Halldór Laxness líkt og Gljúfrasteinsmyndin vitnar um. Ég ákvað að hafa engar talblöðrur þar því ég vil leyfa gestum að gera sér í hugarlund hvað þeir gætu verið að spjalla um. Fólk getur líka farið á flug með sitt ímyndunarafl um hvað gerðist í römmunum á undan og eftir þessum stöku myndum mínum af Tinna á Íslandi,“ segir Óskar og bætir við að Gljúfrasteinsmyndin stóra sé sú fyrsta sem hann málaði í seríunni og að þau fjölskyldan ætli að eiga hana. „Ég hef fengið mörg tilboð í hana, en ég ætla ekki að láta hana frá mér.“ Lendir í háska og átökum Óskar segir ekki ólíklegt að lestur hans á Tinnabókum í bernsku hafi orðið til þess að hann fullorðinn maður fór að skrifa glæpasögur. „Tinni er alltaf að leysa ráðgát- ur þar sem lög eru brotin, hann er í raun leynilögga þótt hann sé titl- aður rannsóknarblaðamaður. Bæk- urnar eru því mjög spennandi og framvindan oft mjög óvænt, leikar berast um víða veröld og Tinni er sérlega hugrakkur, hann lætur ekk- ert stoppa sig svo réttlætið nái fram að ganga og hið sanna komi í ljós. Hann lendir oft í glæpsamlegum háska og miklum átökum,“ segir Óskar sem hefur ásamt glæpa- sagnahöfundunum Yrsu Sigurðar, Ragnari Jónassyni og Evu Björg Ægisdóttur veg og vanda af glæpa- sagnahátíðinni Iceland Noir sem verður hér á landi í nóvember. „Þá mun koma hingað til lands fjöldi erlendra rithöfunda og áhuga- fólks um glæpasögur og þar ætla ég að skella Tinnasýningunni aftur upp, á vinnustofu Kjarvals, og fá Gísla Martein til að vera með fyr- irlestur um leynilögguna Tinna.“ Pílagrímsferð til Belgíu Óskar segist hafa lesið Tinna- bækurnar fyrir syni sína þegar þeir voru litlir og þeim finnst Tinni æðislegur. „Við fjölskyldan ætlum að fara í í pílagrímsför í haust á Tinnasafn- ið í Belgíu. Sífellt fleiri vinir og vandamenn hafa bæst í hópinn svo þetta verður fjölmenn ferð, sem er gaman. Mér finnst líka gaman að á sýninguna mína kom þrettán ára aðdáandi Tinna, hann mætti í Tinnafrakka og með Tobba í fang- inu. Þeir eru ekki margir af yngstu kynslóðinni sem dýrka Tinna,“ seg- ir Óskar sem á hund sem auðvitað heitir Tobbi, og líkist nafna sínum í bókunum mjög mikið, þótt hann sé ekki hvítur. En hvaða persóna í Tinnabókunum ætli sé honum hjart- fólgnust? „Mér hefur alltaf fundist pró- fessor Vandráður ofboðslega skemmtileg týpa, svona klaufskur en klár sem hann er, en vissulega kemur Kolbeinn fast á hæla honum í uppáhaldi hjá mér, ekki síst fyrir meistaralega íslenska þýðinguna á krossbölvi hans, sem er heimfært upp á íslenskt samfélag. Til dæmis hundrað milljón hreinlífar hámerar frá Hvammstanga, þúsund úldnir þorskar frá Þorskafirði, eða annað í þeim dúr.“ Sýningin Tinni á Íslandi í Epal gallerí Laugavegi 7 stendur til 31.júlí. Hægt er að skoða verkin og kaupa á vefsíðunni tinnamyndir.is. Hekla Skapti og Skafti grilla og spila á nikku við gjósandi Heklu en Tinni og Kolbeinn koma askvaðandi frá Ferguson. Módel Annar sonur Óskars, Sigurður Nonni, situr hér fyrir í stellingum Skapta við Stuðlagil. Tinni er alltaf að leysa ráðgátur Óskar Guðmundsson seg- ir ekki ólíklegt að lestur hans á Tinnabókum í bernsku hafi orðið til þess að hann fullorðinn mað- ur fór að skrifa glæpasög- ur. Nú hefur hann tekið sér skáldaleyfi í myndlist- inni og sett Tinna í ýms- ar aðstæður á Íslandi, t.d. spjallar Tinni við Halldór Laxness á hlaðinu á Gljúfrasteini. Morgunblaðið/Árni Sæberg Óskar Framan við myndirnar þrjár sem hann málaði, Tinni og Kolbeinn í flugvél ofan við Gróttuvita, Tinni á spjalli við Halldór Laxness á hlaðinu á Gljúfrasteini og Tinni og Kolbeinn í fjallgöngu í Kerlingarfjöllum. Stjórnarráð Íslands Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið auglýsir eftir tilnefningum til Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti sem afhent verður í tilefni af Degi íslenskrar náttúru þann 16. september nk. Viðurkenningin verður veitt einstaklingi sem hefur unnið markvert starf á sviði náttúruverndar. Tilnefningar með rökstuðningi sendist umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu á netfangið urn@urn.is í síðasta lagi 19. ágúst 2022.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.