Morgunblaðið - 02.07.2022, Síða 25
25
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. JÚLÍ 2022
Málað Vel hefur viðrað til útiverka að undanförnu. Húsamálarar hafa a.m.k. getað fagnað blíðunni, og sumir farið úr að ofan í sólinni, eins og Andri Freyr Jónsson gerði við hús á Kárastíg.
Eggert Jóhannesson
Talsverð óvissa ríkir
um efnahagshorfur á
heimsvísu um þessar
mundir og hagstjórn
því vandasamari en um
langt árabil. Vandinn
af margþættum toga.
Nauðsynlegar efna-
hagsaðgerðir stjórn-
valda um heim allan á
Covid-19-tímanum er
lutu að auknum ríkis-
umsvifum og rýmri
peningastefnu hafa ýtt undir hækk-
un á vöru og þjónustu. Þessu til við-
bótar hefur árás Rússlands inn í
Úkraínu haft mikil áhrif á verðbólgu
á heimsvísu, þar sem einn stærsti
framleiðandi orku ræðst á ríki sem
framleiðir mikið magn af hveiti til
útflutnings. Verð á þessum nauð-
synjavörum hefur hækkað verulega
og eru afleiðingarnar afar neikvæð-
ar fyrir heimsbúskapinn og sérstak-
lega fátækri ríkin. Á sama tíma eru
mjög ríki enn að fást við farsóttina
og hefur það lamandi áhrif fram-
leiðslukeðju heimsins. Ofan á þetta
bætist að skortur á vinnuafli í mörg-
um helstu hagkerfum heimsins.
Íslenska hagkerfið stendur
traustum fótum
Efnahagskerfið hefur tekið vel við
sér eftir farsóttina. Drifkraftur hag-
kerfisins er góður og spár gera ráð
fyrir miklum hagvexti í ár eða ríf-
lega 5% og rétt um 3% árið 2023.
Lausafjárstaða þjóðarbúsins er
sterk og verulega hefur dregið úr at-
vinnuleysi. Eftir mikinn samdrátt í
upphafi faraldursins er það ferða-
þjónustan enn á ný sem drífur hag-
vöxtinn áfram en spár gera ráð fyrir
að um 1,6 milljón ferðamanna muni
heimsækja Ísland á þessu ári. Aðrar
útflutningsgreinar hafa einnig dafn-
að vel eins og sjávarútvegur og stór-
iðja vegna mikilla verðhækkana á af-
urðum þessara atvinnugreina. Að
sama skapi er einnig ánægjulegt að
sjá að útflutningstekjur af hug-
verkaiðnaðnum hafa aukist verulega
eða farið úr því að
nema tæpum 8% af
gjaldeyristekjum í rúm
16% á síðustu árum.
Þessi þróun er mik-
ilvæg í þeirri viðleitni
að fjölga stoðunum
undir utanríkis-
viðskiptum landsins.
Kaupmáttur launa
allra á Íslandi hækkaði
á árinu 2021 og þær
skattalegu aðgerðir
sem hefur verið hrint í
framkvæmd miðast all-
ar að því að draga úr
skattbyrði hjá þeim sem lægstar
tekjur hafa. Á covid-tímanum jókst
kaupmáttur um 4,4% að raunvirði og
var það í samræmi við fyrirætlanir
stjórnvalda að verja efnahag heimila
og fyrirtækja við upphaf farsótt-
arinnar. Í stuttu máli má segja að
vel hafi tekist til. Atvinnuleysi
mælist nú um 3,8%, skuldir heim-
ilanna hafa lækkað, hrein skulda-
staða ríkissjóðs nemur 28,5% af
landsframleiðslu og gjaldeyrisforð-
inn nemur um 25,5% af landsfram-
leiðslu. Þannig að segja má að stað-
an sé góð þrátt fyrir mikla ágjöf
síðustu misseri en blikur eru á lofti
því verðbólguhorfur hafa versnað til
skamms tíma.
Aukin verðbólga víðast
hvar í heiminum
Allir helstu seðlabankar heims
hafa nú hækkað stýrivexti sína með
það að markmiði að því að draga úr
verðbólguvæntingum. Verðbólga í
Bandaríkjunum í maí mældist 8,6%
á ársgrundvelli og er sú mesta í yfir
40 ár. Verðbólgan á evrusvæðinu er
8,1% og í Bretlandi 7,8%. Matark-
arfan á heimsvísu hefur hækkað um
tæpan fjórðung. Verð á hveiti á
heimsvísu hefur hækkað um 56% og
mjólkurafurðir um 17%.
Ísland hefur ekki farið varhluta af
þessari þróun, verðbólgan mælist
8,8% en án húsnæðisliðarins er hún
6,5%%. Verðbólguvæntingar hafa
einnig aukist. Gert er ráð fyrir að
verðbólga verði um 4,9% árið 2023
og 3,3% árið 2024. Skortur hefur
verið á vinnumarkaði og mikil eftir-
spurn eftir vinnuafli. Hækkun hús-
næðisliðar vísitölu neysluverðs hef-
ur haft mest áhrif á þróun verðlags
undanfarin misseri. Framboðsvand-
inn hefur aukist á ný vegna stríðsins
í Úkraínu og olíu- og hrávöruverð
hefur hækkað enn frekar.
Meginverkefni allra leiðandi hag-
kerfa verður að ná utan um verð-
bólguvæntingar og ráðleggur Al-
þjóðagreiðslubankinn (e. BIS)
seðlabönkum að vera ófeimnir að
bregðast hratt við til skamms tíma
með það að leiðarljósi að til lengri
tíma, þá verði búið að snúa verðbólg-
unni niður. Agustín Carstens,
bankastjóri BIS, sagði: „Það er
lykilatriði fyrir seðlabanka er bregð-
ast skjótt og af festu við áður en
verðbólga nær fótfestu.“
Ríkisstjórnin leggst á árarnar
með Seðlabankanum
Stærsta verkefni hagstjórnar-
innar verður að koma böndum á
verðbólguna. Stjórnvöld hafa þegar
farið í mótvægisaðgerðir sem felast í
því að bætur almannatrygginga hafa
verið hækkaðar, ráðist var í sér-
stakan barnabótaauka til þeirra sem
eiga rétt á tekjutengdum barnabót-
um og húsnæðisbætur voru hækk-
aðar. Aukinheldur hafa ríkisstjórn
og Seðlabanki lagst sameiginlega á
árarnar til þess að takast á við
hækkandi verðbólgu. Kynnti rík-
isstjórnin í því samhengi 27 millj-
arða aðhaldsaðgerðir í rekstri hins
opinbera til að draga úr þenslu og
verðbólguþrýstingi. Stjórnvöld telja
afar mikilvægt að gera allt sem í
þeirra valdi stendur til að sporna við
verðbólgu. Samkeppniseftirlitið hef-
ur meðal annars hafið upplýsinga-
öflun um þróun verðlags á helstu
mörkuðum, til að meta hvort verð-
lagshækkanir kunni að stafa af
ónægu samkeppnislegu aðhaldi eða
óeðlilegum hvötum. Sérstök áhersla
er lögð á dagvörumarkað, eldsneyt-
ismarkað og byggingarvörumarkað.
Það gerir Samkeppniseftirlitinu
auðveldara um vik að greina óhag-
stæð ytri áhrif á verðþróun eða
greina hvort verðhækkanir kunni að
stafa af mögulegum samkeppnis-
bresti á viðkomandi mörkuðum. Að
auki hefur verið skipaður vinnuhóp-
ur til að greina gjaldtöku og arðsemi
bankanna. Stór hluti af útgjöldum
heimilanna rennur til bankanna, í
formi afborgana af húsnæðis-, bíla-
og neyslulánum auk vaxta og þjón-
ustugjalda. Samsetning þessara
gjalda er oft flókin, sem gerir sam-
anburð erfiðan fyrir neytendur. Því
tel ég brýnt að hlutur þessara þátta
verði skoðaður ofan í kjölinn, með
vísan til samkeppnisþátta og hags-
muna neytenda. Markmiðið er að
kanna hvort íslensk heimili greiði
meira fyrir almenna viðskipta-
bankaþjónustu en heimili í hinum
norrænu ríkjunum. Það er verk að
vinna til að ná tökum á verðbólgu,
því að tekjulægstu heimilin og þjóð-
irnar fara iðulega verst út úr mikilli
verðbólgu.
Bjart handan
sjóndeildarhringsins
Þrátt fyrir að blikur séu á lofti í
hagkerfinu er full ástæða til bjart-
sýni. Efnahagsumsvif hafa tekið vel
við sér eftir farsóttina. Hagvöxtur er
um 5%, útflutningsgreinar sterkar
sem styðja við gjaldmiðilinn og
gjaldeyrisforði sem nemur um 25%
af landsframleiðslu. Að auki er gert
ráð fyrir að aðhaldssamri peninga-
stefna og ríkisfjármál muni leiða til
þess að á næsta ári lækki verðbólg-
an. Í nágrannalöndunum er mikill
ótti við að fram undan sé tímabil
samspils stöðnunar og verðbólgu (e.
stagflation), en engin merki eru uppi
um slíka stöðnun í okkar hagkerfi.
Nokkrir veigamiklir þættir ættu
einnig að vinna með efnahagskerf-
inu.
Í fyrsta lagi eru heildarskuldir
ríkissjóðs rúmlega 40% af lands-
framleiðslu, en til samanburðar eru
skuldir Þýskalands um 60% og Ítalíu
um 140%. Áætlað er að skuldahlut-
fall ríkissjóðs verði komið í 33,4% í
árslok 2023. Erlendar skuldir rík-
issjóðs eru mjög lágar og auk þess
er hrein erlend staða þjóðarbúsins
með allra besta móti í ljósi mikilla
eigna hagkerfisins í útlöndum. Í
öðru lagi er Ísland með sjálfstæða
peningastefnu sem þýðir að við get-
um hreyft stýrivexti hraðar en mörg
önnur ríki og sér í lagi í samanburði
við þau sem eru aðilar að mynt-
bandalagi Evrópu. Þess má geta að
verðbólga innan einstakra ríkja
bandalagsins nemur allt að 20% .
Ítalía greiðir 1,9 prósentustigum
meira en Þýskaland í vöxtum af láni
til tíu ára, nærri tvöfalt meira en
sem nemur álaginu í ársbyrjun 2021!
Ljóst er að sama vaxtastefnan á ekki
við öll ríki Evrópusambandsins og
munu þau skuldsettustu geta lent í
verulegum erfiðleikum. Í þriðja lagi,
vegna góðs gengis útflutningsgrein-
anna hefur gjaldmiðillinn okkar
staðist ágjöfina sem felst í óvissunni.
Í fjórða lagi er Ísland stórframleið-
andi á þeim vörum sem vöntun er á;
annars vegar matvælum og hins
vegar orku. Sökum þessa er verð-
bólgan minni en ella væri. Að lokum,
þá hefur hagstjórnin verið sveigj-
anleg undanfarið og verið í aðstöðu
til að nýta ríkisfjármálin til að styðja
við hagkerfið á farsóttartímum en
draga nú úr þátttöku þess í út-
gjöldum og fjárfestingum til að
halda aftur af verðbólgunni.
Efnahagsstjórninni næstu misseri
má líkja við stýra skipi í ölduróti.
Þrátt fyrir að skyggnið geti verið
slæmt, þá skipir mestu máli í hags-
tjórninni að huga vel að grunn-
innviðum og gera það sem þarf. Rík-
isstjórnin hefur sýnt það í verki í
gegnum þann ólgusjó sem farsóttin
var að hún gat farsællega siglt á
milli skers og báru. Næstu aðgerðir í
efnahagsstjórninni munu allar miða
að því að ná utan um verðbólgu-
væntingar og ef allir ákveða að taka
þátt í þeirri vegferð, þá mun okkur
farnast vel.
Eftir Lilju Dögg
Alfreðsdóttur » Stærsta verkefni
hagstjórnarinnar
verður að koma böndum
á verðbólguna.
Lilja Dögg
Alfreðsdóttir
Höfundur er viðskiptaráðherra og
varaformaður Framsóknar.
Vandasöm sigling