Neytendablaðið - 01.05.2021, Blaðsíða 2
2 Neytendablaðið // Maí 2021
Prentgripur
1234 5678
SVANSMERKIÐ
Fasteignakaup eru allajafna stærstu viðskipti sem fólk
gerir á lífsleiðinni og eflaust einnig þau flóknustu.
Miklir fjármunir eru í húfi og því mikilvægt að þessi
viðskipti gangi snuðrulaust fyrir sig. Því miður er ekki
alltaf svo. Neytendasamtökin fá margar fyrirspurnir
sem snúa að fasteignaviðskiptum og þótt þær séu
fjölbreyttar varða þær flestar galla á fasteign eða hin
umdeildu umsýslugjöld.
Það er ávallt tilhlökkun að flytja í nýtt húsnæði, að búa sér öruggt og gott
heimili. Fæstir hafa nokkurn áhuga á að standa í ágreiningi eftir að kaup
eru gerð, hvorki kaupendur né seljendur. Hins vegar fara mörg fasteignamál
fyrir dómstóla og þau geta verið afar snúin. Ef lagst er yfir fasteignadóma
virðist sem dómstólar hafi í gegnum tíðina dæmt svolítið út og suður og
ekki er óalgengt að hæstiréttur snúi við niðurstöðu héraðsdóms.
Mörg mál varða galla sem koma í ljós eftir kaup. Reynir þá á hvort kaup-
andi hafi sinnt aðgæsluskyldu sinni nægilega vel og hvort seljandi hafi látið
hjá liggja að upplýsa kaupanda um mikilvæg atriði sem hann vissi um.
Jafnvel getur verið deilt um svo kallaða leynda galla sem seljandi vissi ekki
um en rýra verðmæti eignar það mikið að kaupandi getur átt rétt á afslætti.
Þá geta fasteignasalar blandast inn í málið þar sem deilt er um ábyrgð
seljenda en þeir hafa það vandasama hlutverk að gæta hvorutveggja í senn;
hagsmuna seljanda og kaupenda.
Dómsniðurstöður sýna að þessi mál geta farið allavega og jafnvel þótt mál
vinnist er kostnaður sem tengist málarekstri það hár að vandséð er að það
svari kostnaði að fara fyrir dóm nema upphæðir sem deilt er um séu þeim
mun hærri. Áhættan er líka mikil og þeim sem tapar málinu getur verið
gert að greiða málskostnað mótaðilans, sem bætist þá ofan á allt annað.
Í ljósi þess hversu miklir hagsmunir eru í húfi og hversu mörg mál fara fyrir
dómstóla er í raun stórfurðulegt að ekki sé búið að setja reglur um ástands-
skýrslur húsnæðis. Við látum ástandsskoða gamla bíla fyrir kaup jafnvel
þótt fjárhagslegur skaði í slíkum viðskiptum sé margfalt minni en við
fasteignakaup. Aðgæsluskylda kaupenda er mjög rík og samkvæmt sumum
dómum ríkari en eðlilegt getur talist. Kaupendur eiga því mikið undir því
að hafa sem bestar upplýsingar í höndum fyrir kaup.
Í fimmgang hefur verið lögð fram þingsályktun á Alþingi um ástandsskýr-
slur fasteigna. Ekki er að sjá að neinn leggist gegn málinu enda augljóst
framfaraskref sem getur sparað fólki ómældan kostnað. Í tillögunni kemur
fram að gróflega megi áætla að rúmlega 100 fasteignamál sem varða galla
hafi farið fyrir héraðsdóm á sjö ára tímabili. Þessum málarekstri fylgir gíf-
urlegur kostnaður fyrir þá sem í hlut eiga að ógleymdu álagi á dómskerfið.
Það er því til mikils að vinna að fækka þessum málum eins og kostur er og
áhrifarík leið til þess er að festa ástandsskýrslur í sessi. Neytendasamtökin
og Félag fasteignasala hafa bæði sent inn jákvæða umsögn um tillöguna
enda er hún mikilvægt og löngu tímabært skref í áttina að aukinni fag-
mennsku á fasteignamarkaði.
Brynhildur Pétursdóttir
1. tbl. 67 árgangur 2021
Útgefandi: Neytendasamtökin, Hverfisgötu 105, 101 Rvk.
Sími: 545 1200
Veffang: www.ns.is
Netfang: ns@ns.is
Ritstjóri: Brynhildur Pétursdóttir
Ritstjórn: Brynhildur Pétursdóttir, Breki Karlsson,
Ívar Halldórsson
Ábyrgðarmaður: Breki Karlsson
Umbrot og hönnun: Arnar Tr.
Prentun: Ísafoldarprentsmiðja
Forsíðumynd: Istockphoto
Upplag: 8.200 eintök
Óheimilt er að nota upplýsingar úr Neytendablaðinu í
auglýsingar og við sölu nema skriflegt leyfi liggi fyrir.
Frá NS 3
Vaxtamálið 4
Fasteignakaup 6
Kemíst efni í snyrtivörum 10
Frá formanni 13
Hlustar síminn? 14
Gæðakönnun á snjallsímum 16
Aukefni í matvöru 20
Skaðræðisplastpoki 21
Áskriftasamningar 22
Umsagnir til sölu 26
Aðgerðir gegn TikTok 28
Fyrirspurnir frá félögum 29
Gæðakönnun á klósetthreinsi 30
Neytendablaðið
Efni Leiðarinn
Bætt ástand með ástandsskoðun