Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.05.2021, Blaðsíða 7

Neytendablaðið - 01.05.2021, Blaðsíða 7
Neytendablaðið // Maí 2021 7 Aðgæsluskylda kaupanda Þrátt fyrir að miklar kröfur séu gerðar til seljenda um að upplýsa um atriði er skipta máli hvílir einnig rík aðgæsluskylda á kaupendum. Kaupanda ber að skoða ástand eignar vel og geri hann það ekki getur réttarstaða hans verið veikari komi til ágreinings, svo sem vegna galla sem kaupandi hefði mátt sjá við almenna skoðun. Líkt og með upplýsingaskyldu seljanda geta ákveðin atriði haft áhrif á hversu ríkar kröfur eru gerðar til kaupanda, svo sem starfsreynsla, menntun og aldur. Menntaður húsasmiðameistari væri að jafnaði betur til þess fallinn að verða var við annmarka en óreyndur kaupandi. Eins getur verið meira tilefni til þess að skoða fasteign vel sem komin er til ára sinna eða ef upplýsingar í söluyfirliti gefa tilefni til nánari skoðunar. Upplýsingaskylda seljanda og aðgæsluskylda kaupenda skarast gjarnan og hafa ófá mál farið fyrir dómstóla þar sem skera þarf úr um það hvar ábyrgðin liggur. Í máli sem fór fyrir Hæstarétt árið 2008 og varðaði ónýtt þak var það niðurstaða Hæstaréttar að aldur hússins og upplýsingar í söluyfirliti, þar sem fram kom að þak þarfnaðist lagfæringa, hefðu gefið ríkt tilefni til sérstakrar skoðunar á þakinu og var gallakröfu kaupanda þar með hafnað. Héraðsdómur hafði aftur á móti komist að öndverðri niðurstöðu og taldi að upplýsinga- skyldu seljanda hefði ekki verið sinnt með nægilega góðum hætti þar sem ástand þaksins var mun verra en söluyfirlit gaf til kynna. Í öðru máli, sem fór fyrir Hæstarétt árið 2007, var deilt um gólfhalla. Seljendur mátu það svo að hallinn væri augljós og tilgreindu hann þar með ekki í söluyfirliti. Kaupendur sem skoðuðu eignina fulla af húsgögnum á opnu húsi urðu hans aftur á móti ekki varir. Í héraði var komist að þeirri niðurstöðu að seljendur hefðu vanrækt upplýsingaskyldu sína. Hæstiréttur sneri niðurstöðunni aftur á móti við og taldi að kaupendur hefðu mátt sjá hallann við almenna skoðun. Athyglisvert er að þrátt fyrir að í núgildandi fasteignakaupalög- um, sem tóku gildi árið 2002, sé sérstaklega áréttað að upplýs- ingaskylda seljanda gangi framar aðgæsluskyldu kaupanda hefur Hæstiréttur ítrekað snúið við dómum héraðsdóms og virðist gera mjög ríkar kröfur til aðgæsluskyldu kaupanda. Nýlegir dómar benda þó til þess að þetta sé hugsanlega að breytast. Betra að sleppa sérfræðingnum? Algengt er að fólk sem fundið hefur fasteign við hæfi taki kunnáttumann með sér til að skoða og meta ástand eignarinnar. Oft er um að ræða iðnaðarmann sem jafnvel tengist fjölskyldu- eða vinaböndum. Mætti ætla að þessi forsjálni sé af hinu góða enda rík krafa um skoðunarskyldu af hálfu kaupanda. Svo þarf þó ekki að vera og í raun eru dæmi um að það komi fólki í koll að hafa tekið með sér „sérfræðing“. Slík tilhögun hefur nefnilega leitt til þess í dómaframkvæmd að ríkari skylda er lögð á kaupendur en ella og í raun litið svo á að taki kaupandi með sér sérfróðan aðili sé það ígildi þess að kaupandi sjálfur væri sérfróður. Í máli sem fór fyrir Hæstarétt árið 2007 og varðaði verulegan halla fasteignar er til að mynda sérstaklega kveðið á um að kaupendur hefðu skoðað eignina í tvígang og í seinna skiptið mætt með föður annars kaupandans sem var húsasmíða- meistari. Sú staðreynd að kaupendur höfðu skoðað eignina með byggingarfróðum aðila og með vísan til álits dómkvadds matsmanns sem var á þá leið að umtalsverður halli á öllum gólfum hefði blasað við varð niðurstaðan sú að fasteignasalinn bæri ekki ábyrgð. Tómlæti kaupanda, en þeir kvörtuðu mörguð- um mánuðum eftir kaupin, leiddi jafnframt til þess að seljandi var einnig sýknaður af bótakröfu. Kaupandi getur þannig verið verr settur taki hann með sér vin, kunningja eða fjölskyldumeðlim sem seinna er af dómstólum metinn sem „sérfróður aðili“. Í raun gæti reynst betra fyrir kaupanda að biðja hinn sérfróða aðila að skoða eignina einn

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.