Neytendablaðið - 01.05.2021, Qupperneq 5
Neytendablaðið // Maí 2021 5
Mikilvægt að fá niðurstöðu
Neytendasamtökin telja mjög mikilvægt að fá afgerandi niður-
stöðu í málið. Ekki er ólíklegt að vextir hækki á næstunni og
því er nauðsynlegt að fá úr því skorið hvað ræður breytingum á
vöxtum lána og að hægt verði að sannreyna þær vaxtabreytingar
sem kunna að verða.
Hver greiðir málsókn?
VR hefur lagt samtökunum til veglega fjárhæð til mála-
rekstursins. Þá hafa Neytendasamtökin fengið styrk frá
Samtökum fjármálafyrirtækja þar sem fjármálafyrirtæki hafa
augljósa hagsmuni af því að fá úr ágreiningsefninu skorið fljótt og
örugglega. Neytendasamtökin hafa um hríð átt í samskiptum við
fjármálafyrirtækin og niðurstaðan er sú að aðilar eru ósammála.
Því er brýnt að leggja málið fyrir dóm.
Mikilvægt að slíta fyrningu
Fyrningu er slitið til að koma í veg fyrir að krafan falli niður.
Mál eins og það sem Neytendasamtökin ætla sér að höfða getur
tekið mörg ár fyrir dómstólum og afar líklegt að það fari alla leið
fyrir Hæstarétt, og hætta er á að fyrningarfrestur hafi liðið þegar
málinu er lokið. Það er mikilvægt að slíta fyrningu til þess að
möguleg krafa sem þú átt vegna ofgreiddra vaxta dagi ekki uppi.
Slit á fyrningu er einnig mikilvægt til að eiga rétt á dráttarvöxt-
um, en þeir reiknast frá þeim degi sem gerð er endurgreiðslukrafa
á hendur lánveitanda.
Hvaða lán er um að ræða?
Í raun varðar þetta öll lán með breytilegum vöxtum til neytenda,
bæði verðtryggð og óverðtryggð, hjá öllum lánastofnunum, bæði
húsnæðislán og önnur lán. Lán sem bera „fasta vexti“ hluta
lánstímans, til dæmis 3-5 ár, en geta tekið breytingum, eru í
raun lán með breytilegum vöxtum. Lánin einskorðast ekki við
bankana, heldur einnig aðrar lánastofnanir, svo sem lífeyrissjóði
og sparisjóði. Þetta á þó bara við um lán sem veitt hafa verið
einstaklingum, þ.e. ekki lán sem veitt hafa verið fyrirtækjum.
Samstaðan skiptir máli
Það er mikilvægt að neytendur standi saman og sýni með afger-
andi hætti að þeir séu reiðubúnir að sækja rétt sinn. Í þessu máli
þarf að fá afgerandi niðurstöðu. Ekki er ólíklegt að vextir muni
hækka á næstunni og því mjög mikilvægt að fá skýrleika um hvað
ræður breytingum á vöxtum lána og að hægt verði að sannreyna
þær vaxtabreytingar sem kunna að verða.
Allar frekari upplýsingar og leiðbeiningar um hvernig taka má
þátt er að finna á www.vaxtamalid.is.
Taktu þátt og jöfnum
leikinn!
• Hefur þú verið með eða ertu með lán með
breytilegum vöxtum? Skilur þú ekki hvað ræður
vöxtunum á láninu þínu? Þú ert ekki ein/n um
það!
• Neytendasamtökin aðstoða neytendur við að leita
réttar síns og fá endurgreidda þá fjármuni sem þeir
kunna að eiga inni. Það fylgir því enginn kostn-
aður að taka þátt, einungis mögulegur ávinningur
sem getur numið umtalsverðum upphæðum.
• Neytendasamtökin munu fara með a.m.k. þrjú
mál fyrir dóm, til að fá niðurstöðu og fordæmi
fyrir önnur lán með breytilegum vöxtum. Bönk-
unum verður stefnt til ógildingar skilmálanna og
endurgreiðslu ofgreiddra vaxta. Ef málin vinnast
gæti endurgreiðsla hlaupið á mörg hundruð
þúsundum króna fyrir hvert lán, jafnvel milljónum.
Með þátttöku tryggir þú eins og frekast er unnt að
þú glatir ekki rétti þínum. En bara ef þú bregst við
og gerir kröfu á lánastofnun þína.
• Hvernig tek ég þátt?
Skráðu þig til leiks á www.vaxtamalid.is. Þú þarft
ekki að hafa neinar upplýsingar um lánið til að
taka þátt. Þú veitir okkur umboð með rafrænum
skilríkjum og við sjáum um málið fyrir þína hönd.