Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 7

Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 7
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/21 7 ÞÓKNUN TIL VERJENDA OG RÉTTARGÆSLUMANNA: VÍSITALA MÁLSVARNARLAUNA Fyrr á þessu ári krafðist stjórn Lögmannafélagsins þess að dómstólasýslan endurskoðaði viðmiðunarreglur nr. 2/2021; „Reglur um málsvarnarlaun eða þóknun verjenda og þóknun til réttargæslumanna“. Einnig krafðist stjórnin þess að dómstólasýslan gerði grein fyrir þeim forsendum sem legið hafa að baki útreikningum viðmiðunarfjárhæða og hækkana á þeim frá því reglurnar voru fyrst settar. Í kjölfar upplýsinga um að hækkun viðmiðunarfjárhæða tæki mið af breytingum á vísitölu neysluverðs fékk félagið dr. Hersi Sigurgeirsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, til að vinna álitsgerð um við hvaða forsendur rétt væri að miða í tengslum við ákvörðun fjárhæða samkvæmt reglunum og hækkun þeirra. Í álitsgerð dr. Hersis, sem send var félagsmönnum sl. vor, kom fram að hann teldi eðlilegt að breytingar í umræddum viðmiðunarreglum tækju mið af sérstakri vísitölu sem hann nefnir „vísitölu málsvarnarlauna“ og samanstendur annars vegar af vísitölu launa (75%) og hins vegar af vísitölu neysluverðs (25%). Samkvæmt þessari vísitölu hefði tímagjald fyrir verjenda- og réttargæslustörf lögmanna í janúar 2021, átt að standa í kr. 24.415,- eða kr. 25.754,- allt eftir því hvort miðað væri við fyrstu reglur dómstólaráðs frá árinu 2000 eða upphaflegt tímagjald samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðuneytisins árið 1994. Dómstólasýslan hefur nú fallist á að hækkun tímagjalds fyrir verjenda- og réttargæslustörf lögmanna verði framvegis miðuð við „vísitölu málsvarnarlauna“. Á samráðsfundi sem fulltrúar Lögmannafélagsins áttu með fulltrúum dómstólasýslunnar 27. október sl. var kröfum félagsins um leiðréttingu tímagjalds, miðað við réttar vísitöluforsendur, áréttaðar og kröfunni jafnframt fylgt eftir með bréfi til stjórnar dómstólasýslunnar 9. nóvember sl. þar sem segir m.a. að núverandi viðmiðunartímagjald, kr. 19.500,- hafi ekki náð að halda í við vísitölubreytingar frá árinu 2015 sem: „... haft hefur í för með sér umtalsverða og langvarandi kjararýrnun fyrir þá lögmenn sem sinna verjenda- og réttargæslustörfum. Leyfir stjórn félagsins sér að benda á að hækkun tímagjalds til samræmis við útreikninga dr. Hersis Sigurgeirssonar felur ekki í sér raunhækkun gjaldsins, heldur einungis sanngjarna leiðréttingu miðað við áhrif vísitölubreytinga á rekstur lögmannsstofa. Slík leiðrétting á fjárhæð tímagjaldsins hefur áður verið gerð sbr. reglur dómstólaráðs nr. 1/2015, þar sem tímagjald var hækkað úr kr. 10.000 í kr. 16.500.” Vonast stjórn félagsins að horft verði til þessara forsenda þegar stjórn dómstólasýslunnar tekur ákvörðun um nýtt tímagjald nú í lok árs. II Óskum Lögmannafélagi Íslands til hamingju með 110 ára afmælið

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.