Lögmannablaðið - 2021, Page 26
26 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/21
var síðan fylgt eftir með endurskoðun mannréttindakafla
stjórnarskrárinnar með setningu stjórnarskipunarlaga
nr. 97/1995. Í athugasemdum frumvarps þess sem varð
að þeim lögum lýsti stjórnarskrárgjafinn þeirri afstöðu
að lögfestingu mannréttindasáttmálans hafi verið ætlað
að hafa þau „óbeinu áhrif“ að „ríkari tilhneiging“ yrði
en áður til að beita rúmri skýringu á stjórnarskránni til
samræmis við sáttmálann. Sú lögfesting hafi hins vegar ekki
verið „framtíðarlausn.“ Hafi því verið ákveðið að ráðast í
endurskoðun mannréttindakaflans m.a. í því skyni að hann
tæki mið af mannréttindasáttmálanum.
Markmið og setning stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 mælir
því enn frekar en lög nr. 62/1994 með því að innlendir
dómstólar veiti úrlausnum mannréttindadómstólsins
fordæmisgildi og hafi þær til leiðsagnar. Þessu til viðbótar
má síðan nefna að með setningu nýlegra laga nr. 47/2020
var Endurupptökudómi heimilað að fallast á beiðni um
endurupptöku máls ef fram eru komnar nýjar „upplýsingar“
m.a. um annað en málsatvik sem ætla má að hefðu verulega
miklu skipt fyrir úrlausn máls, sbr. a. lið 1. mgr. 228. gr.
laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eða sterkar líkur
eru leiddar að því að leitt hefðu til breyttrar niðurstöðu
í mikilvægum atriðum, sbr. b. lið 1. mgr. 191. gr. laga nr.
91/1991 um meðferð einkamála. Í athugasemdum með
frumvarpi sem varð að þessum lögum kemur fram að með
nýjum „upplýsingum“ í þessum skilningi sé m.a. átt við
úrlausnir alþjóðlegra dómstóla og m.a. vísað til úrlausna
Mannréttindadómstóls Evrópu.
Með þessu er gefið skýrt til kynna að við tilteknar aðstæður
geti reynst nauðsynlegt að endurupptaka dóma í kjölfar
þess að dómar falla hjá mannréttindadómstólnum. Að
vissu leyti felur þetta aðeins í sér áréttingu þess sem felst
í 46. gr. mannréttindasáttmálans, en litið hefur verið svo
á að af því ákvæði leiði að þegar endurupptaka dóms sé
eina leiðin til að bæta fyrir brot á sáttmálanum þá sé ríkjum
skylt að tryggja rétt til hennar. Að vissu leyti gengur þetta
þó lengra því hin nýsettu endurupptökuákvæði takmarka
ekki rétt til endurupptöku við þá sem áttu aðild að þeim
nýju úrlausnum mannréttindadómstólsins sem um ræðir.
Þess í stað virðast hin nýsettu ákvæði miða við að allir þeir
sem álíta má brotið á með hliðsjón af nýju fordæmi geti
krafist endurupptöku.
Af þessu má ráða að sá fyrirvari sem er orðaður í 2. gr. laga
nr. 62/1994 hefur næsta litla þýðingu eins og löggjöfin og
stjórnarskráin hefur þróast í kjölfar setningar ákvæðisins.
Mætti jafnvel halda því fram að dómur innlendra dómstóla
sem mannréttindadómstóllinn hefur dæmt andstæðan
réttlátri málsmeðferð, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmálans,
hefur orðið næsta lítið gildi. Í slíkum tilvikum virðist
nefnilega réttur til endurupptöku samkvæmt gildandi
lögum nánast sjálfvirkur.
Með hliðsjón af þessu þarf e.t.v. ekki að koma á óvart að
t.d. í dómi Hæstaréttar 18. mars 2021, mál nr. 34/2020, er
fast kveðið að orði þegar rétturinn lýsir í 18. mgr. viðhorfi
sínu til fordæmisgildi úrlausna mannréttindadómstólsins:
„Hæstiréttur hefur ítrekað slegið því föstu að líta beri til
dóma Mannréttindadómstóls Evrópu við skýringu ákvæða
mannréttindasáttmálans þegar reynir á hann sem hluta af
landsrétti. Jafnframt ber að skýra önnur lög til samræmis
við sáttmálann og úrlausnir mannréttindadómstólsins enda
verður að gera ráð fyrir að þau samrýmist skuldbindingum
Íslands að þjóðarétti í samræmi við þá venjuhelguðu reglu
í norrænum rétti að lög verði túlkuð til samræmis við
þjóðréttarsamninga eftir því sem frekast er kostur.“
Af þessu verður ekki annað ráðið en að Hæstiréttur telji sér
skylt að fylgja fordæmum mannréttindadómstólsins sé þess
nokkur kostur. Þetta er sjálfstæð afstaða réttarins byggð á
fordæmum réttarins, innlendri löggjöf og stjórnskipun.
Engin fortakslaus eða endanleg svör um þýðingu úrlausna
mannréttindadómstólsins að landsrétti er því að finna í 2.
gr. laga nr. 62/1994.