Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.2017, Qupperneq 58
58 – Sjómannablaðið Víkingur
Það var fyrir alllöngu síðan í sveit einni á Norðurlandi, bú-
sældarlegri og grösugri, að á jörð einni bjuggu feðgar tveir.
Ráku þeir bú saman af miklum dugnaði, voru sannkallaðir
þrifabændur og nutu af því virðingar. Innanhúss var allt annar
bragur, þrifnaður og matseld í lakasta lagi. Nú verður að ráði,
að með hjálp Bændasamtakanna fyrir sunnan, fengju þeir sér
ráðskonu. Var hún á góðum aldri og heldur heppin með andlit
og kropp. Brá fljótt til betri vegar innanstokks.
Brátt fór sá orðrómur um sveitina, að ráðskonan byggði ekki
rúm sitt ein á nóttum.
Skal nú þess getið, að siðferði í sveitinni var með miklum
ágætum og börn utan hjónabands nokkru fátíðari en svartir
svanir og sannir kratar.
Konur höfðu með sér félagsskap, sem saumaklúbbur nefnd-
ist. Hittust þær einu sinni í mánuði, fjórða hvern sunnudag
eftir messu, á heimili prestsins. Tíðindalaust er af hannyrðum,
en þær gæddu sér á heitu súkkulaði með ágætum rjóma, þeytt-
um. Héldu þær litlafingri beinum, eins og gert er í útlöndum;
en það höfðu þær séð í kvennaritinu, „Alt for damerne“, sem
prestsmaddaman keypti, enda kunni hún dönsku. Ræddu þær
einkum siðgæði þeirra feðganna, sem ráðskonuna höfðu fengið.
Töldu þær, að þar væri sonurinn að verki, enda lítt ábyrgur og
hneigður fyrir glaumgosalegt líferni.
Karlarnir höfðu með sér kór. Æfingar voru annan hvern
fimmtudag og sungu þeir ættjarðarlög af elju. Hina fimmtudag-
ana riðu þeir út og höfðu þá þorstavara í hnakktöskunni.
Ræddu þeir einnig þetta mál og töldu, að þar væri sá gamli
að verki, enda útsmoginn til flestra hluta, þótt hægt færi.
Nú gerist það, að ráðskonan verður barni aukin. Ber hún
þunga sinn með prýði og elur í fyllingu tímans dáfallegan son.
Var hann allur í föðurættina. Nefndur var hann eftir afa sínum,
fékk nafnið Jón, en til styttingar kallaður Nonni.
Hið annað ævivor Nonna litla var efnt til skemmtunar í
félagsheimili sveitarinnar. Fóru þangað allir, sem heimangengt
áttu, einnig sonurinn og Nonni litli. Kjáðu konur mjög í Nonna
litla og dásömuðu sakir fríðleiks. Í kurteisi sinni spurðu þær
soninn, hvaða barn þetta væri, en hann svaraði af bragði: „
„Þetta er hann Nonni litli, sonur okkar pabba.“
(Sögn frá síðustu öld.)
„SONUR OKKAR PABBA“
Frá Norðurlandi, nánar tiltekið Eyjafirði. Að öðru leyti tengist ljósmyndin títt-
nefndum feðgum ekki hið minnsta.