Fréttablaðið - 25.08.2022, Blaðsíða 14
Viðreisn hefur á síðustu mánuðum
sett vaxandi þunga í umræður um
frjálslyndar umbætur í sjávar útvegi.
Markmiðið er annars vegar að
tryggja réttlátari skipan mála með
eðlilegu endurgjaldi fyrir einkarétt
til veiða og hins vegar að eyða óvissu
um gildistíma hans.
Þannig verði þjóðareignin virkari
en um leið er réttarstaða útgerðanna
gerð skýrari og öruggari.
Brestir í vörninni um kyrrstöðu
Skoðanakannanir sýna aukinn
þunga í kröfum almennings um
breytingar. Umræðan hefur áhrif.
Kröfunni um gæslu heildarhags-
muna, almennings og sjávarútvegs,
vex einfaldlega fiskur um hrygg.
Matvælaráðherra, sem staðið
hefur gegn öllum umbótum í fimm
ár, notar nú sterku orðin og segist
brenna fyrir auknu réttlæti. Ráð-
herrar Framsóknar tala svo ítrekað
um nauðsyn þess að hækka veiði-
gjaldið.
Þetta eru skýr dæmi um að brestir
eru að koma í varðstöðuna um
áframhaldandi kyrrstöðu.
Veikleikinn í vörninni fyrir
óbreytt ástand birtast líka í vaxandi
þversögnum talsmanna SFS.
Pólitískt en ekki lagalegt öryggi
Varanleiki og fyrirsjáanleiki eru
lykilhugtök í þessari umræðu. Tals-
menn SFS segja breytingar af hinu
illa af því að þær myndu eyða varan-
leika veiðiréttarins og fyrirsjáan-
leika í rekstri. En er þetta svo?
Fiskveiðistjórnunarlögin kveða
afdráttarlaust á um að af lahlut-
deildina megi afturkalla hvenær sem
er. Þau gera ekki einu sinni kröfu um
að það sé gert með fyrirvara.
Þetta er ástæðan fyrir því að hlut-
ur smábáta er nú miklu stærri en í
byrjun. Þessi réttur hefur ekki verið
mikið nýttur umfram þetta.
Varanleikinn og fyrirsjáanleikinn
byggja því ekki á lagalegum rétti. Að
þessu leyti eiga útgerðirnar allt undir
pólitískri afstöðu Alþingis á hverjum
tíma. Þetta er pólitískt öryggi en ekki
réttaröryggi.
Hvers virði er lagalegt öryggi?
Tillögur Viðreisnar gera aftur á móti
ráð fyrir að gerðir verði einkarétt-
arlegir samningar um aflahlutdeild
til 20 ára. Tíminn er afmarkaður en
rétturinn er á móti lagalega varinn.
Fyrirsjáanleikinn er miklu meiri og
ekki háður pólitískum geðþótta.
En hádegisverðurinn er ekki
ókeypis. Útgerðirnar þurfa að kaupa
bætta lagalega réttarstöðu. Þann-
ig yrðu einkaréttarlegir samningar
um 5 prósent af aflahlutdeildum til
sölu á frjálsum markaði árlega. Þar
fæst það verð sem útgerðirnar sjálfar
telja eðlilegt.
En af hverju vilja útgerðirnar frek-
ar lagalega óvissu? Ástæðan er ein-
föld. Í gegnum pólitísk ítök geta þær
treyst því að þingmenn núverandi
stjórnarflokka muni ákveða lægra
endurgjald en þær sjálfar myndu
telja eðlilegt í samkeppni á frjálsum
markaði.
Réttaröryggi um fyrirsjáanleika er
ekki meira virði í þeirra huga.
Meiri afleiðingar
Talsmenn SFS hafa fram til þessa
réttilega lagt höfuðáherslu á að
frjálst framsal aflahlutdeildar sé lyk-
illinn að þjóðhagslegri hagkvæmni
sjávarútvegsins. Margar sjávar-
byggðir hafa styrkst meðan að aðrar
hafa látið undan síga.
Útgerðirnar hafa einnig sagt að
þjóðhagsleg hagkvæmni réttlæti
þessa þróun. Það er nú almennt
viðurkennt.
Þegar Viðreisn leggur til að frjálst
framsal verði aukið um 5% með
árlegum uppboðum, snúa talsmenn
útgerðanna við blaðinu. Nú stað-
hæfa þeir að af því frjálsa framsali
muni hljótast algjör héraðsbrestur
vítt og breitt um byggðir landsins.
Og þingmenn stjórnarf lokkanna
vatna músum með þeim.
Margir þingmenn vinstri f lokk-
anna spiluðu þessa sömu plötu fyrir
þrjátíu árum þegar frjálsa framsalið
var fyrst lögfest. Það hafði lítil áhrif.
En þegar talskona útgerðanna leik-
ur nú á fyrstu fiðlu á sameiginlegum
hræðslutónleikum gegn auknu
frjálsu framsali, kann það að hafa
meiri afleiðingar.
Ágiskun um niðurstöðu
Líklegt er að niðurstaðan úr 46
manna nefndaflækju matvælaráð-
herra verði það pólitíska mat henn-
ar að færa væna sneið, að minnsta
kosti 10%, frá stærri útgerðum til
smábáta. Hugsanlega verður einn-
ig skerpt á því ákvæði sem tekur til
tengdra aðila. En ekkert afgerandi.
Þó að öll stóru málin verði látin
óleyst mun þetta duga til að full-
nægja brennandi réttlætiskennd
matvælaráðherra.
Þegar síðan kemur að þessu á
síðasta þingvetri fyrir kosningar
mun ekkert heyrast í fyrstu fiðlu
útgerðanna. Því það verður ekki
bæði hægt að tala um þjóðhags-
lega hagkvæmni og héraðsbrestinn
sem af henni hlýst. Og án eðlilegs
endurgjalds fyrir þennan einka-
rétt útgerðar á þjóðarauðlindinni
verður heldur ekki unnt að gera
kröfu um lagalegt öryggi. Hvað þá
samfélagslega sátt.
Gegnsæ byggðastefna
Það er eitt af grundvallaratriðunum
í stefnu Viðreisnar að samfélagið,
sem hefur hagnast á frjálsa mark-
aðskerfinu, þurfi að styðja við þær
byggðir, sem hafa veikst af þeim
sökum.
Viðreisn vill hins vegar ekki
gera það með ógegnsæjum hætti.
Það á ekki að gera með allt of lágu
gjaldi og ekki með takmörkunum
á frjálsum viðskiptum. Það er pils-
faldakapítalismi.
Útgerðin á að greiða fullt gjald,
sem verður til á markaði. Samfélagið
á að nota verulegan hluta þess til að
byggja upp innviða- og nýsköpunar-
sjóð fyrir landsbyggðirnar, einkum
þær byggðir sem hafa veikst vegna
hagræðingar í sjávarútvegi.
Fyrir meira en 20 árum var þetta
ein af ábendingum auðlindanefnd-
ar og hefði betur verið komin til
framkvæmda fyrir löngu.
Þetta er frjálslynd markaðsstefna
með félagslegri ábyrgð. Hún mun
reynast farsælli en pilsfaldakapí-
talisminn, sem útgerðirnar tala nú
orðið fyrir og stjórnarf lokkarnir
fylgja. n
Pilsfaldakapítalismi sjávarútvegsins
Þorgerður Katrín
Gunnarsdóttir
formaður Við-
reisnar
Lestrarkennsla og lestrarfærni hefur
verið mikið í umræðunni að undan-
förnu og það ekki að ástæðulausu.
Ef lestrarfærni er skoðuð má sjá
að 34% drengja og 19% stúlkna 15
ára, eiga í erfiðleikum með að skilja
þann texta sem þau lesa. Þetta veld-
ur áhyggjum. Það sem veldur ekki
síður áhyggjum er að kannanir sýna
fjölgun barna sem glíma við vanlíð-
an af ýmsu tagi s.s. kvíða og streitu.
Við vitum að frammistaða og eigið
mat á færni er nátengd líðan og upp-
lifun um eigið ágæti. Sé vandamál
með lestur og lesskilning má leiða
sterkar líkur að því að það hafi áhrif
á andlega líðan barna.
Kjarninn í Kveikjum neistann
Kveikjum neistann er verkefni sem
ætlað er að efla skólastarf og bæta
námsárangur. Verkefnið er 10 ára
þróunar- og rannsóknarverkefni
með heildstæða nálgun á skóla-
starfið. Kveikjum neistann tekur
mið af vísindum og samstarfi við
erlenda fræðimenn. Áherslur verk-
efnisins snúa að læsi, stærðfræði,
náttúrufræði, hreyfingu og hugar-
fari nemenda. Áherslur tengjast
jafnframt þróun á kennsluháttum,
kennsluefni og starfsþróun og ráð-
gjöf til kennara og skólastjórnenda.
Verkefnið hefur verið innleitt í Vest-
mannaeyjum með góðum árangri.
Kjarninn í verkefninu er að lagt er
upp með í 1. bekk að leggja áherslu
á bókstafi og hljóð. Kennt er eftir
hljóðaaðferðinni. Inn á milli er
staldrað við til að fullvissast um að
helst allir nemendur séu búnir að
ná öllum bókstöfum og hljóðum.
Í upphafi vetrar er lögð fyrir bók-
stafa- og hljóðakönnun til að sjá
hvaða bókstafi og hljóð nemendur
kunna við upphaf skólagöngu. Aftur
er gerð könnun í janúar og loks í
maí á fyrsta skólaárinu. Árangur er
teiknaður upp með myndrænum
hætti þar sem litir eru notaðir til
að merkja þá bókstafi og hljóð sem
börnin þekkja. Mörg börn eru farin
að lesa orð á þessum tíma og stuttar
setningar.
Nota það sem virkar
Flokkur fólksins í borgarstjórn
hefur fylgst með þessu verkefni.
Í ljósi þess að það hefur sýnt ein-
staklega góðan árangur á stuttum
tíma ætti að skoða að innleiða það í
grunnskólum Reykjavíkur í samráði
við skólasamfélagið. Tillaga Flokks
fólksins þess efnis hefur verið lögð
fram í borgarráði. Miðja máls og
læsis er að gera góða hluti, en vel er
hægt að gera betur. Einnig þarf að
huga sérstaklega að þeim börnum
sem ekki geta nýtt sér hefðbundnar
kennsluaðferðir. Þau börn þurfa
strax í byrjun að fá sérstaka aðstoð.
Þau þurfa lengri tíma og meira næði
en gengur og gerist í almennum
bekk. Gera má ráð fyrir að það séu
um það bil 2-4% barna sem glíma
við lesvanda af lífeðlisfræðilegum
orsökum sem t.d. tengjast sjón-
skyni. Sum þurfa sem dæmi að fá
stærra letur og læra bókstafi með
hljóði og myndum.
Fyrstu rauðu f lögginn við mál-
þroska sjást í 18 mánaða skoðun.
Þá er mikilvægt að bregðast strax
við með t. d. fræðslu til foreldra
þessara barna. Leikskólinn er mikil-
vægur og málþroskinn áríðandi
fyrir lesskilninginn. Vísbendingar
um vanda má einnig oft sjá í niður-
stöðum fjögurra ára skoðunar hjá
heilsugæslunni. Þess vegna er mikil-
vægt að heilsugæslan og skólinn séu
í góðu samstarfi. „Hljóm“ sem lagt
er fyrir 5 ára nemendur hefur einnig
forspárgildi fyrir lestrarnám.
Lestur og lesskilningur er fjárfest-
ing til framtíðar. Barn sem á í vanda
á þessu sviði tapar oft sjálfstrausti
sínu og sjálfsöryggi. Þá aukast líkur
þess að birtingarmyndir þess sýni
sig í hegðun og atferli. Börnum sem
útskrifast úr grunnskóla með slakan
lesskilning hefur farið fjölgandi
með hverju ári. Ef verkefni eins og
Kveikjum neistann er að virka svo
vel sem raun ber vitni, er ábyrgðar-
hluti að líta fram hjá því. Við hljót-
um að vilja gera allt sem við getum,
láta einskis ófreistað til að börn nái
sem bestum tökum á lestri og les-
skilningi. n
Kveikjum neistann í Reykjavík
Kolbrún
Baldursdóttir
sálfræðingur og
oddviti Flokks
fólksins í borgar-
stjórn Reykjavíkur
14 Skoðun 25. ágúst 2022 FIMMTUDAGURFRÉTTABLAÐIÐ