Fréttablaðið - 31.12.2022, Blaðsíða 6
Framboð eigna á
höfuðborgarsvæðinu
hefur rúmlega þrefald-
ast frá því í febrúar.
Halldór Kári
Sigurðarson,
hagfræðingur
hjá fasteignasöl-
unni Húsaskjóli
Þrátt fyrir að árshækkun
húsnæðisverðs á Íslandi sé
sú mesta í hinum vestræna
heimi hefur verðið lækkað að
raunvirði síðan í júlí. Kaup-
endur bjóða nú oft undir
ásettu verði og seljendur
sætta sig ekki við það.
kristinnhaukur@frettabladid.is
húsnæðismál Húsnæðisverð hefur
hækkað um 20,3 prósent á árinu
2022. Dregið hefur úr hækkuninni
á seinni hluta ársins en í júlí var hún
25,5 prósent miðað við 12 mánuði
þar á undan. Þetta kemur fram í
tölum Húsnæðis- og mann virkja-
stofn unar.
Hækkanir eru mestar í nýbygg-
ingum. En þegar þær eru teknar út
úr jöfnunni er hækkun 13 prósent
á árinu. Þá hefur leiguverð hækkað
um 9,4 prósent, sem er næstum það
sama og verðbólga, sem þýðir að
það hefur staðið í stað að raunvirði.
„Framboð eigna á höfuðborgar-
svæðinu hefur rúmlega þrefaldast
frá því í febrúar,“ segir Halldór Kári
Sigurðarson, hagfræðingur hjá fast-
eignasölunni Húsaskjóli.
„Í því samhengi er þó mikilvægt
að hafa í huga að í febrúar var mark-
aðurinn svo gott sem uppseldur og
núverandi framboð er ekki óeðli-
lega mikið í sögulegu samhengi. Þá
hefur hlutfall nýbygginga í fram-
boðinu vaxið og skýr merki eru
um að nýbyggingar seljist hægar en
aðrar eignir.“
Halldór segir að sölutregða sé nú á
markaðnum. Það er að þegar samn-
ingsstaða kaupanda og seljanda
snýst hratt bjóði kaupendur undir
ásettu verði en seljendur sætti sig
ekki við tilboðin.
„Velta á höfuðborgarsvæðinu
hefur verið um fjórðungi minni
undanfarna mánuði en á sama tíma
í fyrra,“ segir Halldór. „Samhliða
hefur framboð aukist hratt sem
bendir til að kaupendur hafi ekki
getu og eða vilja til að kaupa íbúðir
á meðan þær eru verðlagðar eins og
þær eru í dag og vaxtastigið er jafn
hátt og raun ber vitni.“ Stýrivextir
eru í dag 6,0 prósent.
Samkvæmt Halldóri er meðal-
sölutími húsnæðis að lengjast nokk-
uð hratt. Markaður með fjölbýli sé
þó dýpri en sérbýlismarkaðurinn
og almennt megi gera ráð fyrir að
sölutími smærri eigna sé skemmri
en stærri. Miðað við veltutölur taki
það tæplega fjóra mánuði að selja
allt það framboð sem til er á höfuð-
borgarsvæðinu í dag. Meðalsölutími
sé í kringum tveir mánuði en ýmis-
legt verði að taka með í reikninginn,
svo sem verðvæntingar seljanda og
ástand eignar.
Þrátt fyrir að árshækkun á Íslandi
hafi dalað er hún enn með því hæsta
á OECD-svæðinu, og sú hæsta í vest-
urhluta Evrópu. Aðeins í Tyrklandi
og nokkrum ríkjum Austur-Evrópu
eru hækkanirnar meiri.
„Að mínu mati er markaðurinn
hátt verðlagður miðað við laun og
vaxtastig,“ segir Halldór. Húsnæðis-
verð hafi aðeins hækkað um 0,7 pró-
sent að nafnvirði síðan í júlí og því
lækkað að raunvirði. „Ég tel að það
séu enn þá allar forsendur til staðar
fyrir verðlækkunum, að minnsta
kosti að raunvirði.“
Aðspurður hvort það muni sjást
eitthvað jafnvægi á íslenska hús-
næðismarkaðinum í fyrirsjáanlegri
framtíð segir Halldór að slíkar spár
hafi hingað til gengið misvel eftir.
„Jafnvægi á markaðnum ræðst af
aðgerðum leikenda, má þar nefna
byggingargeirann, kaupendur og
seljendur, Seðlabankann og stjórn-
völd,“ segir hann. „Markaðurinn var
í miklu ójafnvægi þegar vextir voru
hvað lægstir og núna hefur hann
sveif last hratt yfir í meiri kaup-
endamarkað. Það er í hið minnsta of
snemmt að tala um jafnvægi finnst
mér.“ n
Sölutregða vegna breyttrar
samningsstöðu á markaði
Húsnæði hefur aðeins hækkað um 0,7 prósent að nafnvirði síðan í júlí. Fréttablaðið/Ernir
bth@frettabladid.is
Ferðaþjónusta Helga Árnadóttir,
framkvæmdastjóri Bláa lónsins,
segir að saga ísraelsku fjölskyld-
unnar sem kom til Íslands í þeim
tilgangi að heimsækja Bláa lónið
hafi fengið farsælan endi.
Fréttablaðið sagði sögu Lior Oes-
teireich, sonar og eiginkonu, sem
komust ekki í lónið þegar Grinda-
víkurvegi var lokað vegna snjóa.
Fjölskyldan var harmi slegin þar
sem þeim hafði verið tjáð að yfir-
bókanir í lónið kæmu í veg fyrir að
hægt væri að finna annan tíma áður
en fjölskyldan heldur aftur heim
eftir skamma viðdvöl.
Lior sagðist undrast hve innviðir
Íslands væru laklegir þegar hann
ráfaði um götur Reykjavíkur milli
jóla og nýárs. Takmörkuð þjónusta
í boði og allt kolófært.
„Við höfum ekki að öðru að
hverfa en að skoða Typpasafnið,“
sagði hann.
En Lior tók aftur gleði sína því
Helga segir að við svona aðstæður
reyni starfsmenn Bláa lónsins eins
og kostur er að f lytja til bókanir
og koma til móts við gesti sem hafi
verið búnir að bóka tíma. Það hafi
tekist í tilviki Liors og fjölskyldu.
Sagan fær því farsælan endi og
Typpasafnið var ágætur bónus.
„Samkvæmt okkar bókum tékk-
aði Lior sig inn og dvaldi seinnipart-
inn hjá okkur,“ segir Helga. n
Farsæll endir eftir baðlónsvonbrigði
Lior Oesteireich og fjölskylda.
Fréttablaðið/björn
benediktboas@frettabladid.is
lögreglumál Alls voru rétt yfir
4.300 einstaklingar handteknir
árið 2022. Þar af um 66 prósent á
höfuðborgarsvæðinu. Þá voru um
2.200 einstaklingar vistaðir í fanga-
geymslu. Þetta er meðal þess sem
kemur fram í bráðabirgðatölum lög-
reglu sem gefnar voru út í gær. Lög-
reglan fékk á sitt borð að jafnaði 396
mál á sólarhring.
Þegar litið er til grunaðra í hegn-
ingarlagabrotum má sjá að 78 pró-
sent grunaðra voru karlar og 22
prósent konur. Þá urðu nokkrir
kynsegin einstaklingar uppvísir að
brotum, eins og segir í skýrslunni.
Helstu hegningarlagabrot, þjófn-
aðir og kynferðisbrot voru færri
miðað við meðaltal síðustu þriggja
ára á undan. Innbrot, rán, eigna-
spjöll og brot gegn friðhelgi einka-
lífs voru svipuð að fjölda. Ofbeldis-
brotum fjölgaði miðað við meðaltal
áranna 2019 til 2021.
Fækkun var á kynferðisbrotum
gegn börnum, sem fór niður um 47
prósent og þá voru vændismál einn-
ig færri. Hins vegar voru nauðganir
f leiri og kynferðisleg áreitni einn-
ig tíðari. Brot gegn kynferðislegri
friðhelgi varð að lögum í byrjun árs
2021, en lögin snúa að dreifingu eða
öflun á kynferðislegu myndefni eða
hótun um slíkt. Brotin voru 60 árið
2022, en 37 árið 2021.
Heimilisofbeldistilvik sem komu
á borð lögreglu voru svipuð að
fjölda miðað við meðaltal þriggja
ára þar á undan, en þau voru yfir
1.000 talsins. n
Ofbeldismálum fór fjölgandi á árinu
Lögreglan hafði í nógu að snúast í ár.
kristinnhaukur@frettabladid.is
sjávarútvegur Samkvæmt nýjum
reglugerðardrögum Sigurðar Inga
Jóhannssonar innviðaráðherra
verða fiskarar á fiskipum sem eru
24 metrar eða lengri eða á sjó í að
minnsta kosti þrjá daga standast
vissar heilbrigðiskröfur. Verður vott-
orð gefið út eftir læknisskoðun sem
fiskari þarf að fá á tveggja ára fresti
og ef hann verður fyrir slysi.
Munu fiskarar meðal annars
þurfa að gangast undir sjónpróf og
heyrnarpróf, en má nota gleraugu,
linsu og heyrnartæki. „Fiskari skal
heyra mælt mál í 5 til 6 metra fjar-
lægð,“ stendur í drögunum.
Þá má fiskari ekki vera haldinn
neinum sjúkdómi sem getur ógnað
öryggi skips eða áhafnar eða skert
verulega hæfni hans í starfi. Þetta
geta til dæmis verið taugasjúkdómar,
geðsjúkdómar eða hjartasjúkdómar.
Þetta sé mat læknis.
Vilji fiskari ekki una mati læknis er
hægt að fara fram á að skipuð verði
nefnd til að meta hæfi hans. Sam-
göngustofa mun einnig geta veitt
undanþágur í vissum tilvikum. n
Fiskarar standist læknisskoðun
Fiskarar þurfa að undirgangast
læknisskoðun. Fréttablaðið/Ernir
6 Fréttir 31. desember 2022 LAUGARDAGURFréttablaðið