Morgunblaðið - 21.12.2022, Page 28
MENNING28
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 21. DESEMBER 2022
Hátíðleg jólatvenna
á tilboði
2.210 kr.
1.690 kr.
Sögufélag Skagfirðinga
hefur gefið út bókina
Skagfirskar æviskrár, ní-
unda bindi fyrir tímabil-
ið 1910-1950. Bókin inni-
heldur 90 æviskrárþætti
um 173 einstaklinga sem
bjuggu eða héldu heimili
í Skagafirði á fyrri hluta
20. aldar.
Ritstjórn bókarinnar
var í höndumHjalta
Pálssonar og Ingimars Jóhanns-
sonar. Alls hefur Sögufélag
Skagfirðinga gefið út 20 bækur af
Skagfirskumæviskrám. Fyrstu
fjórar bækurnar, frá tímabilinu
1890-1910, komu út á árunum
1964-1972 en á árunum 1981-1999
komu út sjö bindi í flokknum
1850-1890. Árið 1994 hófst svo
útgáfa á æviskrám frá tímabil-
inu 1910-1950 en hún hefur legið
niðri frá 2013, eða þar til að þetta
níunda bindi tímabilsins er komið
út.
Í formála Hjalta Pálssonar
kemur m.a. fram að með þessu 20.
bindi Skagfirskra æviskráa séu
komnir á prent 3.200 æviskrár-
þættir meira en 6.000 einstak-
linga sem einhvern tímann hafa
haldið heimili í Skagafirði
á árunum 1850 til 1950.
Þá upplýsir Hjalti að nú
þegar sé tilbúið efni í 2-3
bækur í viðbót. „Er hér
saman kominn gríðar-
legur fróðleikur um fólk
fyrri tíðar sem verður
verðmætari eftir því sem
tímar líða, og í mörgum
tilfellum alþýðufólks,
kannski einu aðgengilegu
upplýsingarnar,“ ritar Hjalti
ennfremur.
Höfundar þáttanna 90 í þessari
nýju bók eru 15 talsins. Flesta
þættina ritaði Egill Bjarnason,
ráðunautur á Sauðárkróki,
eða 40, auk þess sem hann er
meðhöfundur að fjórum þátt-
um. Að starfi loknu sem ráðu-
nautur vann Egill við skráningu
þáttanna fyrir Sögufélagið um
nokkurra ára skeið. Egill féll frá
2015 en hafði gengið frá allmörg-
um þáttum til birtingar.
Ingimar Jóhannsson er höfund-
ur nokkurra æviskrárþátta, auk
þess sem hann gekk frá öðrum
fyrir prentun. Hjalti Pálsson er
einnig meðal höfunda, svo nokkr-
ir séu nefndir. bjb@mbl.is
lSkagfirskaræviskrár í 20 bókum
3.200 æviskrár
um 6.000 manns
„Aðalpersóna verksins kom til mín í draumi
og sat í mér þegar ég vaknaði. Ég átti því ekki
annarra kosta völ en að gera henni einhver
skil. Mig dreymdi geimfar sem algjörlega
splundraði í mér hjartanu,“ segir Guðrún Eva
Mínervudóttir þegar hún er spurð um tilurð
nýjustu skáldsögu hennar, Útsýni. Aðal-
persóna verksins, Sigurlilja, er gædd óvenju-
legri gáfu sem einfaldar ekki líf hennar.
„Hæfileiki hennar að geta séð út um augu
annarra snart mig svo djúpt að mér þótti
sem höfundur spennandi að gera því skil. Á
sama tíma fannst mér áhugavert að skrifa
um umbreytingu á manneskju í kjölfar atviks
án þess að það tengdist ofbeldi. Í ákveðnum
skilningi er þetta upphafið atvik, en á sama
tíma er hversdagsleikinn allt um kring. Þótt
umgjörðin sé að mörgu leyti ævintýraleg er
bókin sjálf fyrst og fremst um örlög fólks og
hvernig við lifum af í hörðum heimi.“
Snýr upp á formið
Spurð hvort líta megi á Útsýni sem nokkurs
konar sambræðing smásagnaformsins og
skáldsögunnar svarar Guðrún Eva því ját-
andi. „Mér finnst smásögur, þegar vel tekst
til, algjörlega stórkostlegt form,“ segir Guð-
rún Eva og tekur fram að það sem heilli hana
ekki síst við smásagnaformið sé það sem hún
nefnir „and-Disney-lega“ þáttinn.
„Bestu smásögurnar eru skrifaðar með
innsæinu og láta ekki þvinga sig inn í mót þar
sem ganga þarf frá öllum lausum endum. Þess
vegna minna þessar ferðir Sigurlilju þegar
hún sér með augum annarra á smásögur, því
það er súmmað inn og súmmað út úr bút úr
ævi manneskju,“ segir Guðrún Eva og leggur
áherslu á að það sé auðvitað ekki tilviljunum
háð hvar súmmað sé inn og aftur út.
„Ég var að reyna að snúa upp á formið og
finna upp hjólið án þess að það væri á kostnað
aðgengileika. Ég vildi skrifa skáldsögu sem
togar fólk áfram þannig að það vill helst ekki
leggja bókina frá sér, því það er eitthvað sem
bindur þetta allt saman. Á sama tíma langaði
mig bara að skrifa smásögur án þess að láta
beygja mig undir hið aristótelíska form.“
Lestur er svo skapandi athöfn
Innt eftir því hvort sjá megi ákveðin líkindi
milli Sigurlilju, í ljósi hæfileika hennar til
að sjá með augum annarra, og rithöfunda,
sem setja sig í spor annarra í skrifum sínum
hugsar Guðrún Eva sig um og svarar svo:
„Í ákveðnum skilningi finnst mér mjög lítill
munur á því að lesa og skrifa, því lestur er svo
skapandi athöfn. Í mínum huga býr Sigurlilja
yfir ýktum hæfileika sem við höfum öll, því við
höfum öll þennan hæfileika til að setja okkur
í spor annarra,“ segir Guðrún Eva og bendir
á að vissulega þurfi höfundar auðvitað að
brýna þennan hæfileika mikið til að nota sem
atvinnutæki.
„Við nýtum þennan hæfileika ekki aðeins
þegar við lesum heldur líka þegar við hlustum
af hluttekningu á fólk segja frá sér og erum
forvitin um hagi annarra til að skilja hlutina
betur,“ segir Guðrún Eva og bendir á að
rannsóknir sýni að fólk sem les mikið brýni
samkennd sína og styrki hæfileikann til að
setja sig í spor annarra.
„Sigurlilja býr auðvitað við þau forréttindi
að fá að þroskast í gegnum lífsreynslu
annarra án þess að þurfa að sitja uppi með
afleiðingarnar sem við annars gerum. Hún
veit því hvernig er að verða fyrir ofbeldi og
beita ofbeldi án þess að þurfa að sitja uppi
með sektarkenndina og afleiðingarnar sjálf.
Hún öðlast skilning sem við sem horfum í
gegnum eitt par af augum höfum ekki.“
Fólk er gjöfult á reynslu sína
Aðspurð hvort það hafi kallað á mikla rann-
sóknarvinnu að skrifa um reynslu þeirra ólíku
einstaklinga sem í Útsýni birtast svarar Guð-
rún Eva því játandi. „Ég þurfti virkilega að
finna fólk sem hafði reynt hluti sem ég hafði
ekki reynt sjálf,“ segir Guðrún Eva og nefnir
í því samhengi reynsluna af því að vinna á
sambýli fyrir mikið fatlaða einstaklinga. „Þar
þurfti ég að taka viðtöl og biðja fólk um að
vera pennavinir mínir,“ segir Guðrún Eva og
tekur fram að hún hafi átt marga pennavini,
allt frá skurðlæknum til smábátaeigenda,
þegar hún skrifaði Útsýni.
„Bókin er margþætt verk samsett úr mörg-
um ólíkum hugmyndum. Sumt af því minnir
á eitthvað sem ég hef sjálf upplifað, en er
auðvitað breytt og mótað. Annað er eitthvað
sem ég hef heyrt frá öðrum og stolið mis-
kunnarlaust,“ segir Guðrún Eva og nefnir í
því samhengi frásögn kunningja af því að hafa
upplifað það að vera hengdur fram af svölum
í Breiðholti. „Þar notaði ég rithöfundar-
vöðvann til að ímynda mér hvernig upplifun
það hafi verið,“ segir Guðrún Eva og segist
afar þakklát öllum þeim sem hafi leyft sér að
fá vitneskju þeirra og upplifun lánaða.
„Ég veit ekki hvort það er einkenni á
Íslendingum eða hvort fólk er almennt bara
svona gjöfult á reynslu sína. Ég hef aldrei lent
í því að einhver manneskja sé ósátt við að ég
hafi stolið frá henni lífsreynslu til að búa til úr
henni bókmenntir. Ég hef bara lent í vandræð-
um gagnvart fólki sem hefur ekki fengið að
vera með í skáldverkum sem ég var að vinna.“
Löngu hætt að streitast á móti
Ekki er hægt að sleppa Guðrúnu Evu án
þess að forvitnast um hvort hún sé farin að
leiða hugann að næsta skáldverki. „Stundum
þarf ég andrými milli bóka, en í þetta sinn
er ég komin á braut og bíð spennt eftir að fá
tíma til að geta skrifað bókina sem þegar er
byrjuð að mótast í höfði mér,“ segir Guðrún
Eva og tekur fram að hún sé svo undirgefin
skáldagyðjunni að hún hlýði ávallt kallinu
þegar það kemur. „Þótt ég sé hrædd við
viðtökurnar þá er ég löngu hætt að streitast
á móti,“ segir Guðrún Eva og rifjar upp að
hún hafi t.d. haft ákveðnar efasemdir um það
að síðustu tvær bækurnar sem hún skrif-
aði á undan Útsýni væru of jarðbundnar og
raunsæjar, en þess má geta að Guðrún Eva
var af hálfu Íslands tilnefnd til Bókmennta-
verðlauna Norðurlandaráðs fyrir seinustu
bókina, Aðferðir til að lifa af.
„Þegar ég var að skrifa um geimfarið í
Útsýni varð ég rjóð í kinnum því ég var svo
hrædd um að einhverjum þætti ég furðufugl.
Þegar ég skrifaði Englaryk var ég skíthrædd
um að einhverjum þætti ég nöttari af því að
Jesús er persóna í bókinni. En reynslan hefur
kennt mér að það margborgar sig að hlýða
skáldagyðjunni, því hún veit alltaf hvað hún
er að gera,“ segir Guðrún Eva og áréttar að
boðskapur kvikmyndarinnar um Öskubusku
um mikilvægi þess að sýna hugrekki og
gæsku eigi alltaf vel við.
lÚtsýni nefnist nýjasta skáldsagaGuðrúnarEvuMínervudótturlAðalpersóna verksins kom
til höfundar í draumilGuðrúnEva segir það ávalltmargborga sig að hlýða skáldagyðjunni
Hugrekki og gæska á alltaf vel við
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
Morgunblaðið/Eggert
Örlög „Þótt umgjörðin sé að mörgu leyti ævintýraleg er bókin sjálf fyrst og fremst um örlög
fólks og hvernig við lifum af í hörðum heimi,“ segir Guðrún EvaMínervudóttir umÚtsýni.