Morgunblaðið - 10.12.2022, Blaðsíða 12
12 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 10. DESEMBER 2022
ELTAK sérhæfir sig
í sölu og þjónustu
á vogum
Bjóðum MESTA úrval
á Íslandi af smáum
og stórum vogum
Skortur á innviðumbýr til flöskuhálsa
Ó
hætt er að segja að aukin
umsvif fiskeldisfyrir-
tækja hafi reynst mikil
vítamínsprauta fyrir samfé-
lagið á Vestfjörðum. Sigríður Ólöf
Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri
Vestfjarðastofu, segir nú svo komið
að vöntun á innviðum sé farin að
standa frekari vexti fiskeldisins, og
atvinnulífsins á svæðinu almennt,
fyrir þrifum. Bendir hún á að víða
á Vestfjörðum
sé mikill skortur
á íbúðarhús-
næði, bæta
þurfi vegasam-
göngur innan
atvinnusvæða,
leikskóla- og
skólapláss skorti
og framboð af
raforku nægi
ekki til að ráða
við væntanleg orkuskipti.
Stjórnvöld hafa, að hluta til,
svarað kalli Vestfirðinga um betri
samgöngur, en betur má ef duga
skal og segir Sigríður augljóst að
tíðar lokanir vega að vetri til þýði
að erfiðara er bæði að koma vöru
á markað og fyrir starfsfólk að
komast til vinnu sinnar. „Á árunum
2018 til 2020 voru skráð 990 tilvik
þar sem aðalvegur á Vestfjörðum
lokaðist vegna slæmrar færðar.
Það gerir að jafnaði 330 tilvik, sem
dreifast yfir fimm mánaða tímabil
ár hvert og jafngildir því að yfir
vetrarmánuðina megi vænta þess
dag hvern að tveir aðalvegir séu
ekki opnir,“ segir Sigríður.
Möguleikar
Vestfjarðaleiðarinnar
Hún bendir á að unnið sé að því
að laga sumar af þeim leiðum þar
sem ástandið er verst en ljóst sé
að víða sé nauðsynlegt að gera
jarðgöng eða stækka þau göng sem
fyrir eru svo að þau ráði við meiri
umferð.
„Það merkilega er að fyrirtækin á
svæðinu skuli ekki kvarta hástöfum
yfir þessu ástandi, en það gefur
auga leið hve slæmt það er fyrir
atvinnulífið ef óvissa ríkir um hvort
koma má vörum til kaupenda á
tilsettum tíma, og eins hvort að
koma má nauðsynlegum aðföng-
um til svæðsins,“ segir Sigríður
og bætir við að það sé ekki bara á
Vestfjörðum heldur um landið allt
sem fólk og fyrirtæki kalli eftir að
vegakerfið sé betur þjónustað yfir
vetrarmánuðina: „Er nema von að
víða sé komið í óefni þegar útlát til
vetrarþjónustunnar hafa lítið sem
ekkert hækkað á meðan vegakerfið
hefur farið stækkandi?“
Með bættu vegakerfi styrkist ekki
aðeins rekstrargrunnur fiskeldis-
og útgerðarfélaga á svæðinu heldur
má reikna með að atvinnulífið allt
njóti góðs af. Sigríður bendir á að
margir bindi t.d. vonir við vöxt í
ferðaþjónustunni þegar þægilegra
verður fyrir ferðamenn að aka
Vestfjarðaleiðina svokölluðu. „Þessi
950 km leið um Vestfirði og Dali
er góður valkostur í huga margra
ferðamanna, og verið viðbót við eða
komið í stað þess að aka þjóðveg
númer 1. Þetta myndi styrkja
ferðaþjónustuna á svæðinu sem og
íslenska ferðaþjónustu og stuðla
að því að vestfirskt atvinnulíf væri
ekki með öll eggin í einni körfu.“
Steypan mun dýrari
Sigríður segir Vestfirði líka
glíma við húsnæðisvanda: „Svæð-
ið er núna að rísa upp aftur eftir
niðursveiflu sem varað hefur í
þrjá áratugi. Bæði vantar húsnæði
og eins hefur safnast upp mikil
viðhaldsskuld. Fjöldi húsa þarfnast
mikilla viðgerða. Þó svo að mikil
vöntun sé á íbúðarhúsnæði þá er
byggingarkostnaður enn hár og
ekki í samræmi við markaðsverð
íbúða, og skýrist m.a. af því að
vegna hás flutningskostnaðar er
steypuverð á Vestfjörðum nærri
helmingi hærra en á höfuðborgar-
svæðinu. Vissulega má byggja úr
öðru hráefni og er t.d. núna unnið
að því að reisa nýja nemendagarða
við Háskólasetur Vestfjarða þar
sem timbur er helsta byggingar-
efnið en engu að síður þarf steypu
til að gera sökkla og plötu.“
Telur Sigríður rétt að skoða
hvort hið opinbera geti ekki með
einhverju móti liðkað betur fyrir
þeim framkvæmdum sem ráðast
þarf í, svo hár byggingarkostnaður
hægi ekki á vextinum enda megi
líta svo á að dýr aðföng vegna hús-
byggingarverkefna stangist á við
stefnu stjórnvalda um jafnan rétt
til búsetu.
Orkan senn á þrotum
Með fólksfjölgun, uppgangi
og orkuskiptum er líka ljóst að
Vestfirðir þurfa á meiri raforku að
halda. Segir Sigríður að umhverfis-
ráðuneytið hafi skipað starfshóp
til að fara í saumana á orkumálum
svæðisins en að hægt gangi að taka
ákvarðanir og ráðast í nauðsyn-
legar framkvæmdir. Bæði vanti
betri tengingar við landsdreifi-
kerfið og eins bíði góðir virkjana-
kostir þess að vera nýttir: „Hefur
verið litið til Austurgils í botni
Ísafjarðardjúps í því sambandi,
og Efri-Vatnsdals,“ segir Sigríður
og áréttar að ekki megi draga það
mikið lengur að auka orkufram-
boðið. „Það á bæði við um Vestfirði
og landið sem heild að orkumálin
virðast standa mjög tæpt og ekki
hægt að drolla mikið lengur.“
Þá væri vel þess virði að skoða
hvort ekki megi nýta heitt vatn á
svæðinu en hús á Vestfjörðum þarf
í dag að kynda með rafmagni. „Vest-
firðir eru kalt svæði en áhugaverð-
ar rannsóknir hafa verið gerðar á
nýtingu svokallaðra lághitasvæða
sem gætu hentað til húshitunar og
leikið mikilvægt hlutverk í heildar-
mynd orkumála á Vestfjörðum.“
Þurfa ekki líknandi
meðferð heldur vítamín
Sýnist Sigríði að það þurfi að eiga
sér stað ákveðin viðhorfsbreyting
hjá stjórnvöldum, og eins og margir
átti sig ekki á hvers konar viðsnún-
ingur hefur orðið á Vestfjörðum að
undanförnu. Hafa sumir líkt stefnu
undanfarinna áratuga við líknandi
meðferð, sem hefur aðallega snúist
um að milda þá verki og vandamál
sem fylgja fólksfækkun og stöðnun,
en nú þurfi annars konar úrræði.
„Stjórnvöld ættu líka að hafa það
hugfast að aðgerðaleysi er líka
ákvörðun í sjálfu sér. Það að gera
lítið eða ekki neitt fyrir þennan
landsfjórðung og láta hann danka
mun kosta fjármuni rétt eins og
að gera hlutina vel,“ segir Sigríð-
ur og bætir við að uppsveiflan á
Vestfjörðum sé hvergi nærri búin.
„Gríðarleg tækifæri eru enn til
staðar í fiskeldinu og hefur þessi
nýja atvinnugrein um leið skapað
viðspyrnu fyrir svæðið allt svo að
við erum núna að ná vopnum okkar
að nýju í fleiri atvinnugreinum.“
Ljósmynd/Vestfjarðastofa
Uppbygging fiskeldis á Vestfjörðum á undanförnum árum hefur leitt til mikillar fjölgunar starfa. Til að halda áfram á sömu braut þarf m.a. að tryggja framboð af húsnæði og þjónustu og bæta vegakerfið.
Sigríður segir að yfir vetrarmánuðina gerist það að jafnaði tvisvar á dag að aðalvegur á Vestfjörðum lokast.
Sigríður Ólöf
Kristjánsdóttir
Bæta þarf vegakerfið, byggja íbúðir, gera við
húsnæði, fjölga leikskólaplássum og tryggja betra
framboð af raforku til að halda í við þann mikla
vöxt sem er að eiga sér stað á Vestfjörðum.
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is