Veiðimaðurinn - 01.09.1953, Qupperneq 7
aðeins í veiðiferðir til þess að drepa lax,
án þess að það skipti þá nokkru máli,
hvar þeir gera það — og jafnvel hvernig
þeir gera það. Við þá er tilgangslítið að
taia um fagurt landslag, fuglasöng og
skógarilm. Þeirra veiðiheimur er aðeins
línulengdin út til fisksins og þeirra veiði-
gleði fer eftir því, hvort þeir hafa haft
viðunanlegt tímakaup yfir daginn þegar
andvirði aflans er reiknað út að kvöldi.
Að vísu er ekki við því að búast, að
þeir, sem hafa aðeins fáeina veiðidaga ár
hvert, geti farið að eins og Negley Farson.
Flestir reyna auðvitað að nota sína fáu
daga til þess að fá fisk. En það er hægt að
gera hvorttveggja — njóta umhverfisins
og veiða; og eins og að framan var sagt,
mun fara svo hjá flestum, að umhverfið
verður þeirn æ meira atriði eftir því sem
veiðiárunum fjölgar, og óskadraumurinn
er vitanlega góð veiðiá í fögru umhverfi.
★
Það er ekki ofmælt, að fáar ár á land-
inu uppfylli báðar þessar óskir eins vel
og Norðurá í Borgarfirði. F.g á bágt með
að ímynda mér að til sé nokkur maður,
svo óskyggn á fegurð og náttúrutöfra, að
liann geti dvalið þar nokkra daga í góðu
veðri án þess að verða fyrir áhrfium,
sem hann á erfitt með að gleyma. Það
mætti segja mér að Negley Farson þyrfti
að leggja frá sér stöngina og horfa í kring-
um sig, ef hann kæmi þangað til að veiða
þegar útsýn er þar fegurst.
Ég tel mig ekki í hópi þeirra, sem til
nokkurrar hlítar hafa „numið náttúrunn-
ar mál og tungur fjalla“, en ég á þó frá
dvöl minni við Norðurá, og raunar
nokkrum fleiri stöðum, endurminningar,
sem nægja til þess, að mér finnst ég geta
skilið þá menn, sem segja svipað og liaft
var eftir Negley Farson hér að framan.
Og um það verður tæplega deilt, að þeir,
sem stunda veiðarnar með því hugarfari,
fá fjölbreyttari ánægju af ferðinni en
hinir, sem ekkert sjá nema laxinn.
Skoðanir manna eru eflaust skiptar um
það, hvar náttúrufegurð sé mest í Norð-
urárdal. Mörgum þykir fallegast við Lax-
foss, þar sem veiðimannahúsið stendur.
Þeir, sem ekki stunda veiðar, vilja sjálf-
sagt helzt vera á Hreðavatni, eða þar í
nágrenninu. Allur er dalurinn fagur, en
að mínum dómi er skemmtilegra og hlý-
legra \ ið sjálfa ána þegar kemur niður
undir Glanna. Á efra svæðinu er gróður
lítill á bökkunum, einkanlega vestan
megin, víða malar- eða sandeyrar og
landslagið ekki eins rismikið og þegar
neðar dregur. Hamrastallarnir austan
megin árinnar, sem eru svo l’allegir og
aðdáanlega reglulegir, njóta sín ekki jafn
vel svona nærri, eins og t. d. frá veginum
eða vestar úr dalnum. Mjög er þó fagurt
að horfa eftir dalnum, hvar sem staðið er,
hvort heldur er inn til Baulu eða niður
og suðvestur til Grábrókar. Litafegurð er
þarna stundum ótrúlega heillandi. Mið-
sumarkvöldin ógleymanleg.
Það er auðvelt að gleyma sér við
Glanna. Fossinn býr yfir kynlegu seið-
magni, sem nær meiri og meiri tökum á
áhorfandanum eftir því sem hann situr
lengur við hann. Ég hef gleymt stund og
stað við Glanna oftar en einu sinni, þeg-
ar ég hef setið á klettinum austan við
laxastigann og hlustað á þrumurödd
vatnsins þar sem það brýzt um bergstall-
ana niður í freyðandi hringiðuna í kletta-
gljúfrinu fyrir neðan fossinn. Ég hef horft
á tugi laxa, sem lágu á stallinum sínum,
grafkyrrir hlið við hlið og hver aftur af
Veiðimaourinn
5