Skessuhorn - 29.03.2023, Qupperneq 4

Skessuhorn - 29.03.2023, Qupperneq 4
MIÐVIKUDAGUR 29. MARS 20234 Garðabraut 2a - Akranesi - Sími: 433 5500 - www.skessuhorn.is Skessuhorn kemur út alla miðvikudaga. Skilafrestur auglýsinga er kl. 14.00 á þriðjudögum. Auglýsendum er bent á að panta auglýsingapláss tímanlega. Skráningarfrestur smá- auglýsinga er til kl. 12.00 á þriðjudögum. Blaðið er gefið út í 3.700 eintökum og selt til áskrifenda og í lausasölu. Áskriftarverð er 4.357 krónur með vsk. á mánuði. Elli- og örorkulífeyrisþegar greiða kr. 3.763. Rafræn áskrift kostar 3.413 kr. Rafræn áskrift til elli- og örorkulífeyrisþega er 3.146 kr. Áskrifendur blaðs fá 50% afslátt af verði rafrænnar áskriftar. Verð í lausasölu er 950 kr. SKRIFSTOFA BLAÐSINS ER OPIN KL. 9-16 VIRKA DAGA Útgefandi: Skessuhorn ehf. skessuhorn@skessuhorn.is Ritstjórn: Magnús Magnússon, ritstjóri s. 894 8998 magnus@skessuhorn.is Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir gb@skessuhorn.is Valdimar K. Sigurðsson vaks@skessuhorn.is Guðrún Jónsdóttir gj@skessuhorn.is Steinunn Þorvaldsdóttir sth@skessuhorn.is Auglýsingar og dreifing: Díana Ósk Heiðarsdóttir auglysingar@skessuhorn.is Umbrot og hönnun: Siggi Sigbjörnsson umbrot@skessuhorn.is Bókhald og innheimta: Guðbjörg Ólafsdóttir bokhald@skessuhorn.is Prentun: Landsprent ehf. Leiðari Er kominn tími á minni skjátíma? Við lifum á tímum ótrúlegra breytinga á öllum sviðum. Það sem þótti sjálfsagt í gær þykir í besta falli hallærislegt á morgun. Ég, sem þyki almennt óvenjulega þrjóskur og þver, tek nýjungum með hæfilegri gleði. Fell því fljótt í áliti hjá þeim sem eru hvað ginkeyptastir fyrir nýjungum. Ég er til dæmis ekki ennþá kominn á þann stað að vilja aka um á rafmagnsbíl enda vil ég bara alls ekki bæta drægnikvíða við vöðvabólgusafnið. Ég læt líka einn samfélagsmiðil duga. Tók þá ákvörðun fyrir ríflega áratug að eiga mér eitthvað líf utan tölvu eða síma. Reyndar er ég ekki alveg frá því að það hafi verið rétt ákvörðun. Getur verið að þeir sem opnastir eru fyrir nýjungum séu búnir að tapa úr lífi sínu mestu gæðastundunum? Jafnvel algjörlega ómeðvitað? Skoðum það aðeins. Mér sýnist að smám saman hafi mjög margir sogast inn í einhvers konar veröld þar sem Mammon er sá sem mestu ræður. Heim þar sem fyrirtæki stýra markaðsherferðum sínum leynt og ljóst, gjarnan í gegnum svokallaða áhrifavalda sem lauma sér inn í heilann á fólki. Venjuleg auglýsing um vöru eða þjónustu á prenti, eða þess vegna á sjónvarpsskjá, þykir ekki lengur vera það sem virkar enda er þessi kynslóð hvorki að lesa blöð né horfa á sjónvarp. Nei, skilaboðunum er laumað út í gegnum áhrifavalda og samfélagsmiðlar eru þar beittasta vopnið. Oft tala þessir áhrifavaldar svona hæfilega hreina íslensku, eru vel til hafðir en oft með þykkari varir og stærri rass en guð gaf þeim við fæðingu. Gjarnan eru þeir staddir í nútíma grámáluðu eldhúsi þar sem búið er að henda út efri skápunum en undir borðplötunni leynast tvær eða jafnvel þrjár uppþvottavélar þar sem leirtauið úr efri skápunum er, til skiptis hreint eða óhreint. Reyndar þarf ekki mikið af eldunargræjum á þessi heimili þar sem nútíma fólk má alls ekki vera að því að elda mat frá grunni. Það gerir jú skjátíminn. Þessir áhrifavaldar hafa fyrir margt löngu tekið yfir hugann og ríflega allan frítíma þeirra sem sitja límdir yfir boðskap þeirra, það er jú vinna þeirra að ná fólki á öngulinn. Kannanir sýna að meðaltali er ungt fólk og einnig margir á miðjum aldri um átta tíma á sólarhring í símanum. Já, þið lásuð rétt, átta tíma. Allar þessar 960 mínútur á hverjum sólarhring er heilinn að reyna að vinna úr þessum rafskilaboðum (til samanburðar má geta þess að það tekur ekki nema þrjár mínútur að afþýða frosið kjöt í örbylgjuofni). Í ljósi þessa er líka fljótlegt að reikna út að þá eru einungis aðrir átta tímar eftir aflögu af venjulegum vökutíma fólks. Stytting vinnuvikunnar er því eðlilega það sem fólk í dag telur mikilvægustu kjarabótina. Skal engan undra að á hverjum einasta degi sér maður fólk akandi um á bílum sínum og horfandi um leið í gaupnir sér, á símann. Það má jú ekki undir nokkrum kringumstæðum missa af neinu, jafnvel á meðan barninu er skutlað í leikskólann eða makanum í vinnuna. Þegar svo í vinnuna er komið er það talið gróft brot á mannréttindum viðkomandi og jafnvel ógn við þjóðaröryggi að þurfa að leggja símann frá sér utan seilingar fjarlægðar meðan fólk er að selja starfskrafta sínum einhverjum vinnuveitanda. Afleiðingarnar af þessari þróun eru margvíslegar. Alvarlegast er að of mikil skjánotkun veldur því að svefntíminn verður ekki nægur. Án svefns í að minnsta kosti átta tíma á sólarhring, kannski svo mánuðum og árum skiptir, getur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér. Hægt er að nefna nokkur atriði af handahófi; svo sem þunglyndi, skert einbeiting, aukakíló vegna þess að líkaminn þráir sífellt ruslfæði, kaffidrykkja verður vandamál, húðvandamál ágerast og skapsveiflur aukast. Því miður er það svo að stærstu áhrifavaldar í lífi nútíma fólks eru ekki endilega foreldrarnir, jafnaldrar úti að leik eða kennarinn í skólastofunni. Nei, áhrifavaldarnir eru Mark Zuckerberg, Elon Musk og starfsfólk þeirra. Þessi þróun undanfarin tíu eða fimmtán ár er beinlínis stórhættuleg og teygir anga sína um allt þjóðfélagið. Við þurfum að sporna við. Það skyldi þó aldrei verða að afvötnunarsetur framtíðarinnar muni snúast um skjátíma? Magnús Magnússon Lokið er sögu Lionsklúbbs Borgarness en klúbburinn var stofnaður 2. apríl 1957 og náði því nokkurn veginn hefðbundnum starfslokaaldri. Starfsemin hefur að vísu legið niðri síðustu tvö árin, en síðasta verk klúbbfélaga var að koma við hjá Björgunarsveitinni Brák. Var sveitinni afhent það sem til var í sparibaukum og á bankabók Lionsklúbbsins, alls um hálf milljón króna. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Elín Matthildur Kristinsdóttir formaður Brákar tók við peningagjöfinni. Það skal tekið fram að Lions­ klúbburinn Agla er enn í fullu fjöri í Borgarnesi en nýverið sögðum við einmitt frá rausnarlegri gjöf sem Öglukonur færðu Brákarhlíð og heilsugæslustöð HVE. mm/ Ljósm. Brák Hafrannsóknastofnun ráðleggur að veiðar á grásleppu á fiskveiðiár­ inu sem nú er að hefjast verði ekki meiri en 4.411 tonn. Það er um 37% lækkun milli ára. „Ráðgjöfin byggir að mestu á stofnvísitölu úr stofnmælingu botnfiska í mars 2023, en hún var undir langtíma meðaltali og lægri en sést hefur undanfarin ár,“ segir í tilkynningu. „Stofnvísitölur hrognkelsa sveifl­ ast milli ára sem endurspegla að hluta til óvissu í mælingunum. Vegna þessa vegur stofnvísitala sama árs 70% á móti 30% vægi vísitölu fyrra árs við útreikning ráð­ lagðs hámarksafla, en vísitala síð­ asta árs var nálægt langtíma með­ altali. Hafrannsóknastofnun leggur jafnframt til að upphafsaflamark fiskveiðiárið 2023/2024 verði 1193 tonn.“ mm Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti síðastliðinn mið­ vikudag um hækkun stýrivaxta um eitt prósentustig. Megin­ vextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, hækka því úr 6,5% í 7,5%. Þetta er tólfta stýrivaxtahækkun Seðlabankans í röð. „Verðbólguþrýstingur heldur áfram að aukast og verðhækkan­ ir ná til æ fleiri þátta. Verð­ bólga mælist nú 10,2% og undir­ liggjandi verðbólga er 7,2%. Verð­ bólguvæntingar til lengri tíma eru enn vel yfir markmiði og raun­ vextir bankans hafa lækkað frá síð­ asta fundi nefndarinnar. Útlit er fyrir að verðbólga verði meiri á næstunni en spáð var í febrúar þótt hægt hafi á húsnæðismarkaði,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni. „Hagvöxtur var mikill í fyrra og vel umfram það sem þjóðar­ búskapurinn getur staðið undir til lengdar. Innlend eftirspurn jókst meira en gert var ráð fyrir í febr­ úar og vísbendingar eru um að hún hafi verið kröftugri í ársbyrjun en talið var. Spenna á vinnumarkaði er jafnframt töluverð. Við þessar aðstæður er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags, sérstaklega þegar litið er til mikillar spennu í þjóðarbúinu og komandi kjarasamninga. Pen­ ingastefnunefnd mun beita tækjum sínum til að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verð­ bólgu í markmið,“ segir í tilkynn­ ingunni. mm Ráðleggja mun minni grásleppuveiðar Tólfta stýrivaxtahækkunin í röð Gáfu Brák það sem eftir var í félagssjóðnum Það gæti orðið snúið að renna fyrir fisk í Leirá „Við stefnum á að opna fyrir sjó­ birtingsveiði í Leirá í Hval­ fjarðarsveit 1. apríl næstkomandi, ef það verður hægt. Til þess þarf þó fyrst að hlýna verulega,“ segir Stefán Sigurðsson leigutaki Leirár í samtali við Skessuhorn. Eins og sést á meðfylgjandi mynd var varla auða vök að sjá á ánni síðastliðinn fimmtudag. Miðað við veðurspá er ólíklegt að áin verði búin að ryðja sig. Á ferð tíðindamanns um bakk­ ana var það eina sem sást á ísnum spor eftir tófu sem örugglega hefur verið að freista þess að veiða sér til matar. „Opnun á ánni var frábær í fyrra og fyrsta daginn fengum við yfir 60 fiska. Því krossum við fingur og vonum að hlýni í tæka tíð fyrir laugardaginn,“ segir Stefán. gb Staðan við Leirá síðastliðinn fimmtudag, enga vök að sjá.

x

Skessuhorn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.