Skessuhorn - 29.03.2023, Page 17

Skessuhorn - 29.03.2023, Page 17
MIÐVIKUDAGUR 29. MARS 2023 17 þegar Vignir öskraði. Ég hugs­ aði með mér að það yrði engin rjúpnaveiði hér í þessum fjöllum fyrir þessi jólin, slík voru lætin,“ segir Páley. Þar kemur húmorinn inn, sem fleytt hefur fjölskyldunni langt og hjálpað þeim í gegnum þessa lífsreynslu. 45 mínútur Vigni var þá komið fyrir á börum og settur inn í sjúkrabíl sem keyrði með hann upp á flugvöllinn í Húsafelli. Vignir segist muna alveg þar til hann kom inn í sjúkrabíl­ inn, þá detti hann út að mestu. Uppi á flugvelli tók 45 mínútur að gera Vigni stöðugan og koma honum í slíkt ástand að hægt væri að fljúga með hann. Hann var mjög óstöðugur enda hafði hann misst töluvert blóð og var um tíma tvísýnt hvort hann myndi lifa af. „Þá virð­ ist sem rofi eitthvað til, eða kannski dreymdi mig það bara. En ég man að ég er tekinn út úr sjúkrabílnum á flugvellinum og verð var við að það er fullt af fólki í kringum mig en ég sé þó engan beinlínis. Ég sé ljósið á þyrlunni, heyri hátíðnihljóðið í henni og finn þegar hún tekur á loft. Það síðasta sem ég hugsa áður en ég lognast út af er að mér sé borgið. „Ég er safe. Þeir taka ekki með sér hræ!“. Ég man að ég hugs­ aði þessa setningu. En svo man ég ekki meira fyrr en seinnipartinn á föstudegi, um 20 klukkutímum síðar,“ segir Vignir sem fluttur var ásamt Páley með þyrlunni á bráða­ móttöku Landspítalans í Fossvogi, þar sem Elísabet var einmitt á vakt. „Pabbi lenti í slysi, þetta er ekki gott, þú verður að vera sterk“ Elísabet fékk símtal frá Aðalgeir bróður sínum, eftir að hann hafði rætt við föður þeirra í síma. Aðalgeir áttaði sig strax á alvarlegri stöðunni og ók af stað frá Grundarfirði, hvar hann býr, til Reykjavíkur. Elísabet, sem er hjúkrunarfræðinemi á öðru ári, var þetta kvöld á vakt á Land­ spítalanum í Fossvogi. Á sekúndu­ broti urðu þar hlutverkaskipti, þar sem hún var allt í einu ekki í vinnunni lengur, heldur aðstandandi „Aðal­ geir hringdi og sagði: „Pabbi lenti í slysi, þetta er ekki gott, þú verður að vera sterk. Ég er á leiðinni og er að reyna að drífa mig.“ Og ég var þarna allan tímann undirbúin undir það að pabbi væri að koma dauður inn á spítalann. Þetta hljómaði bara þannig. Slagæðin farin í sundur, búið að svæfa hann og þyrlan send eftir honum. Það bara meikaði ekki sens að hann væri að fara að lifa þetta af þannig ég var undirbúin öllu. Þegar hann kom svo lifandi inn á spítalann og fór inn í aðgerð þá tókum við bara eina mínútu í einu.“ Elísabet tók á móti mömmu sinni á bráðamóttökunni og sá pabba sinn stuttlega áður en honum var rúllað inn í lokað herbergi. Þær mæðgur settust inn í aðstandendaherbergi og við tók bið. Aðalgeir bættist svo fljótlega við og sátu þau þar þrjú og biðu fregna. Elísabet og Páley lýsa því báðar að þau hafi verið vel upp­ lýst um kvöldið og nóttina. Reglu­ lega komu inn læknar eða aðrir heilbrigðisstarfsmenn sem sögðu frá stöðu mála. „Mjög fljótlega kom til okkar læknir sem upplýsti okkur um að höndin yrði tekin af, það var tekin ákvörðun um það eiginlega strax. Ég var búin að sjá höndina og gerði mér alveg grein fyrir því hvað var að gerast,“ segir Páley. Þrjár aðgerðir Um miðnætti var Vignir búinn í aðgerðinni og færður inn á gjör­ gæslu þar sem fylgst var vel með honum, teknar myndir af höfði og mænu og aðstandendur upp­ lýstir reglulega um hvernig þær myndir komu út. „Í þessari aðgerð var hendin tekin og svo var í raun bara lokað fyrir. Læknarnir treystu mér ekki í meira og því var ákveðið að loka fyrir og ganga betur frá í annarri aðgerð síðar,“ segir Vignir sem var mjög óstabíll í aðgerðinni og eftir hana var í heildina búið að dæla í hann 4,5 lítrum af blóði. Hann fór í næstu aðgerð á sunnu­ deginum þar sem klárað var að ganga frá sárinu og þar með áttu aðgerðirnar að vera upptaldar. Svo fór þó að hann fékk ígerð í sárið og beinið og þurfti í þriðju aðgerðina að nokkrum vikum liðnum. Þar var hendin, eða stubburinn eins og Vignir segir, styttur enn frekar og nær nú einungis sjö sentimetra niður frá handakrika. „Þetta var svolítið bakslag, að fá þessa sýk­ ingu, að þurfa að fara aftur í aðgerð og stytta stubbinn enn frekar. Það gerir það að verkum að það er erfið­ ara að halda á honum gervihand­ legg og ég þarf líklega í framtíðinni alltaf að vera með einhverja brynju utan um brjóstkassann til þess að geta haldið svona gervihendi á stubbnum.“ Aftur að húmornum Vignir var vakinn á gjörgæslu um klukkan 16 á föstudeginum. „Það fyrsta sem hann sagði þegar hann vaknaði var: Andskotinn ég átti að mæta á fund í dag,“ segir Elísabet og horfir hlæjandi á pabba sinn. „Þá vissum við að það var í lagi með hann. Að hann kæmist lífs af. Hann var eins og hann átti að sér að vera,“ segir Elísabet og Páley stingur inn í. „Já, við höfum komist ótrúlega langt á jákvæðu hugarfari og húm­ orinn hefur í gegnum tíðina verið okkar verkfæri í erfiðum aðstæðum og er það svo sannarlega í þessu verkefni líka.“ Tók 57 daga að komast út Hrannar, miðjubarn Vignis og Páleyjar, sem búsettur er í Noregi flaug heim til Íslands á laugar­ deginum og stoppaði í rúma viku. Næstu daga dvaldi Páley með börnum sínum þremur í íbúð Verkalýðsfélagsins í Kópavogi en flestum stundum vörðu þau á spítal anum með Vigni. „Það var bara strax á laugardeginum eftir slysið sem ég tamdi mér það hugar­ far að það væri ekkert annað í boði en „upp og út,“ og ég var mjög fljótlega kominn upp svo næsta mál var að komast út. Og það tók 57 daga,“ segir Vignir sem útskrif­ aðist af Landspítalanum 20. des­ ember, eftir nokkrar tafir vegna ígerðarinnar. Svo þegar hann átti að útskrifast af spítalanum 15. des­ ember greindist hann með Covid og var lokaður af í fimm daga. „Það voru sólarlausir dagar og erfiðir,“ segir Vignir sem var svo gott sem á leið út af spítalanum þegar honum var snúið við og hann einangraður. Hann minnist eins starfsmannsins með einstakri hlýju. „Ég fór mjög langt niður þegar ég var lokaður þarna inni. Það mátti enginn koma í heimsókn og eina fólkið sem ég sá voru heilbrigðisstarfsmenn í geim­ verubúningum. Þá kom einn starfs­ maðurinn inn í herbergi til mín í öllum gallanum, settist í stól og fór að tala við mig,“ segir Vignir. „Hann spurði að engu, bara talaði og það er sko þvílíka snilldin. Hann sat í klukkutíma og kjaftaði og ég var sestur upp fyrir rest til að tala við hann. Hann vissi nákvæmlega hvað hann var að gera.“ Leatherman og perlur Í Noregi eiga Vignir og Páley þrjú barnabörn, þar af eitt sem fæddist nú í byrjun árs. Þegar Hrannar kom frá Noregi á laugardeginum kom hann færandi hendi með mynd og perluskraut frá sonum sínum tveimur. „Þeir voru búnir að græja þetta strákarnir. Sá eldri var búinn að teikna mynd þar sem ég var með leathermann hníf í staðinn fyrir vinstri hendina. Og sá yngri var búinn að perla á mig hanska, svo ég gæti farið á tónleika og verið með hendur upp í loft.“ Hægri höndin þarf að vinna fyrir tvær Jólunum vörðu Vignir og Páley í Reykjavík með Elísabetu sem gekk á vaktir á Landspítalanum yfir hátíðirnar. 28. desember fóru þau svo heim í Grundarfjörð þar sem þau voru yfir áramót en strax á nýju ári hófst stíf endurhæfing hjá Vigni á Grensás. Frá tólfta janúar hefur hann verið þrjá daga í viku í endurhæfingu þar, þar sem hann vinnur með sjúkraþjálfara að því að ná upp styrk. Hægri höndin þarf nú að vinna fyrir tvær og því eins gott að hún sé hraust. Þá er einnig verið að þjálfa stubbinn vinstra megin og koma honum í slíkt form að hann þoli að halda á gervihendi. „Það er komið það langt að líklega verður hægt að raða saman hendi á mig eftir páska. Svo er verið að leita að rafleiðni í þessum stuttu vöðvum, tví­ og þríhöfðanum sem eftir eru. Ég er búinn að horfa á gervihendi opnast og lokast fyrir framan mig þannig það er einhver rafleiðni í þeim sem hægt er að nota. Svo það eru spennandi tímar framundan.“ Draugaverkir Aðspurður um líkamlega líðan í dag segir Vignir að vel gangi að ná upp þreki. Fyrst þegar hann byrj­ aði á Grensás hafi hann þurft að leggja sig um miðjan dag en þurfi það ekki lengur. Hvað verki varðar segir Vignir þá ekki vera líkam­ lega. „Ég er með draugaverki. Ég er mjög slæmur í vinstri lófanum annað slagið. En það vantar bara lófann. Þar er það hausinn sem er að plata mig,“ segir Vignir sem þarf þá að sannfæra sjálfan sig um að hann sé ekki með vinstri hendi og geti þar af leiðandi ekki verkjað í hana. „Svo er algjör snilld að nota spegil, þannig get ég sjálfur platað hugann. Maður situr með spegil við hliðina á sér og leikur sér með eitthvað í hægri hendinni og ef þú horfir í spegilinn þá er eins og þú sért að horfa á vinstri hendina. Ver­ kirnir steinþagna.“ Liggur alltaf óskaplega á Páley hefur verið sjúkraskrifuð frá sinni vinnu á leikskólanum í Grundarfirði allt frá því slysið varð, hún er aðstoðarmaður Vignis sem enn má ekki keyra sjálfur og þarf ýmsa aðstoð. Hvað Vigni varðar er hann byrjaður að mæta til vinnu. „Ég mæti alltaf í vinnuna á mánu­ dögum áður en við þurfum að fara suður á Grensás,“ segir Vignir og hlær. Hann viti þó ekki hvenær hann komi til með að geta aftur farið til starfa að fullu, því það taki upp allan hans tíma að ná sér eftir slysið. „Mér liggur náttúrulega alltaf alveg óskaplega á,“ segir Vignir og lýsir fyrsta fundi sínum með Össuri stoðþjónustu. „Það kom þarna maður til mín sem lýsti ferlinu fyrir mér. Fyrst fengi ég mjúkan hólk utan um stubbinn og svo harðan hólk utan um hann. Svo einhverja lengingu og þyngingu og því næst olnboga og kannski framhandlegg. Það er allt gott og blessað með það en þegar ég spurði hann hvenær það yrði ljóst hvort ég gæti notað það sem smíðað yrði á mig þurfti ég að anda rólega inn og rólega út,“ segir Vignir og hlær að sjálfum sér. „Það tekur tvö ár að komast að því hvort ég geti notað það sem ég fæ. Það eru fimm mánuðir frá slysinu og ég hef bara þurft að taka einn dag í einu.“ Með sterkt lið á bakvið sig „Ég held að andlega áfallið hjá fjöl­ skyldu minni sé miklu stærra en það áfall sem ég varð fyrir,“ segir Vignir sem um tíma lá milli heims og helju. Elísabet segist sjálf enn finna fyrir áfallinu og að hún eigi eftir að vinna úr því að fullu, þótt dagarnir frá slysinu líði einn af öðrum. Þau öll finna fyrir miklu þakklæti í garð fólksins í kringum sig og ekki síst þeirra sem komu að björguninni. „Það sem kemur okkur í gegnum þetta áfall er sam­ staða fjölskyldunnar, sem er sterk. Ég veit ekki hvar ég væri ef ég hefði ekki börnin okkar. Þau voru stóri styrkurinn í þessari raun,“ segir Páley og lítur á Elísabetu. Elísabet lét húðflúra pabba sinn á annan fótlegginn en á sama legg er hún með tattoo af Bleiku slaufunni fyrir mömmu sína sem greindist með brjóstakrabbamein árið 2013 og sigraðist á því. Svona voru fyrstu dagarnir. Á fundi með Össuri stoðþjónustu.

x

Skessuhorn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.