Harmonikublaðið - 15.09.2021, Qupperneq 10
Mi
Garðar Einarsson
f. 11. nóvember 1928 - d. 15. ágúst 2021
Góður félagi, Garðar Einarsson, hefur kvatt þessa jarðvist. Garðar
gekk í Félag harmonikuunnenda í Reykjavík á fyrstu árum þess
og hefur líklega fylgt Steina svila sínum og Gústu mágkonu.
Hann gekk til liðs við hljómsveit FHUR í kringum 1990. Hann
hafði afskaplega þægilega nærveru og fallegt bros. Hann lærði á
harmoniku hjá Karli Adolfssyni og Reyni Jónassyni. Báðir voru
meðal þeirra sem stjórnuðu hljómsveitum sem hann lék með.
Það var aðdáunarvert hve hann var duglegur að mæta þrátt fyrir
mikla vinnu við fiskbúðina og veikindin síðar. FHUR var í
upphafi með tvær hljómsveitir sem spiluðu ýmist saman eða
hvor fyrir sig. Hljómsveit Karls Adólfssonar fékk æfingaaðstöðu
hjá Kleppsspítala og þangað mætti Garðar og þar voru okkur
kynnt swing lögin og Django og fleiri fínir höfundar. Karl útsetti
fyrir alla hljómsveitarmeðlimi og gerði oft flóknar útsetningar
fyrir Gretti Björnsson, Reyni Jónasson og Sigurð Aifonsson en
við hin fengum þægilegri nótur. Meðan þau Garðar og Gugga
áttu húsbílinn komu þau í
harmonikuútilegur með okkur. Garðar
starfaði árum saman í fiskbúðum, en
hjá Slippfélaginu síðastliðin 16 árin og
naut hann sín vel þar með góðum
félögum. Hann hugsaði vel um Guggu
sína. Eftir að hún lést var hann opnari
um sín mál og var staðráðinn í að taka á næsta stóra verkefni
sem hann fékk úthlutað. Þegar hann varð sjötugur fór hann til
Berlínar ásamt góðum ferðafélaga. Hann tjáði formanni að hann
yrði undir Brandenborgarhliðinu kl. 11:11 þann 11. nóvember.
Formaðurinn var þá úti í Berlín líka og við maki minn mættum
á tilsettum tíma við hliðið en sáum hvergi Garðar. Seinna sagði
hann mér, kíminn á svip, að hann hefði verið á íslenskum tíma.
Við félagarnir og aðrir, eigum góðar minningar um alls konar
spjall og góða samveru. Nú er hann kominn í eilífa sumarlandið
með Guggu sinni og við þökkum innilega samfylgdina og vottum
nánustu aðstandendum innilega samúð okkar. Minning hans
mun lifa.
Fyrir hönd Félags harmonikuunnenda,
Elísabet Halldóra Einarsdóttir formaður FHUR
Ásvaldur Ingi
Guðmundsson
frá Astuni á Ingjaldssandi
f. 20. september 1930 - d. 13. ágúst 2021
Látinn er heiðursmaðurinn Ásvaldur Ingi Guðmundsson,
vinnuvélagarpur með meiru og sem flest var til Iista lagt,
staðarhaldari á Núpi í fjölda ára. Hann lést 13. ágúst sl. en þann
20. september nk. hefði hann náð 91. aldursári. Ásvaldur gekk
til liðs við Harmonikufélag Vestfjarða við stofnun þess 16.
nóvember 1986, ásamt öllum æfingarfélögum sínum sem kölluðu
sig Harmonikukarlarnir og Lóa, sem saman stendur af
harmonikuunnendum í Dýrafirði. Ásvaldur skrifaði góða grein
í Harmonikublaðið í desember 2018 um tilurð þess félagsskapar
sem enn lætur að sér kveða og nú síðast þegar Harmonikudagurinn
var haldinn hátíðlegur í félagsheimilinu á Þingeyri 12. júní sl.
Þar var Ásvaldur fremstur í flokki Harmonikukarlanna ásamt
Lóu, sem spiluðu stanslaust í klukkutíma fyrir fullu húsi. Nú
tveimur mánuðum síðar er Ásvaldur allur, skjótr skipast veður
í lofti. Ásvaldur sagði að Harmonikukarlarnir teldu sig vera deild
innan Harmonikufélags Vestfjarða og þegar Samband íslenskra
harmonikuunnenda (S.I.H.U.) ákvað að halda hátíðlegan
Harmonikudaginn í maí ár hvert, varð að samkomulagi við
Harmonikufélag Vestfjarða að Dýrfirðingar sæju um framkvæmd
þessarar samkomu, sem þeir hafa gert frá 2007 í félagsheimilinu
á Þingeyri, með spilamennsku,
dansi og veitingum, að
undanskildum forföllum vegna
covid. Eg hafði kynnst Ásvaldi
þegar hann var staðarhaldari á
Núpi og enn nánari kynni hafði
ég af honum eftir að ég tók við
formennsku í félaginu. Ég
leitaði iðulega til hans ef mig
vantaði leiðarvísa í starfinu og
fékk alltaf hlýjar og góðar
viðtökur hjá þessum góða
dreng, með alla sína reynslu af
alls konar félagsmálum.
Ásvaldur var styrk stoð í starfi
sínu fyrir Harmonikufélag Vestfjarða. Hann var kosinn ritari í
stjórn 1996 og sinnti því starfi fram til ársins 2015, samtals í
18 ár, handbragð hans á fundagerðarbókum félagsins er sem
skólabókardæmi, um hvernig á að gera hlutina og hafa allt í röð
og reglu. Ásvaldur var mikil félagsvera og alltaf til í að spila þar
sem fólk kom saman. Hann var mikill áhugamaður um öll
harmonikumót og samkomur. Að lokum vil ég vitna aftur í grein
Ásvalds í Harmonikublaðinu í des 2019. Þar segir Ásvaldur: Hér
lýkur hugleiðingum mínum um liðna tíð, með von um að enn muni
harmonikan hljóma í Dýrafirði og um allt Land. (Tilv.lýkur.) Við
vonumst til að óskir hans rætist.
Vertu sæll kæri vinur, þín verður sárt saknað, en minning þín
lifir. Við í Harmonikufélagi Vestfjarða sendum Gerðu og
fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Fyrir hönd Harmonikufélags Vestfarða
Hafsteinn Vilhjálmsson, formaður
10