Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 10.10.2022, Side 16

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 10.10.2022, Side 16
16 Framkvæmdafréttir nr. 721 6. tbl. 30. árg. Framkvæmdafréttir nr. 721 6. tbl. 30. árg. 17 Einhverjar heimildir um hvaða vegir voru markaðir með kílómetrasteinum eru dönsku herforingjaráðskortin og atlaskortin. Þar má sjá kílómetratölur á stöðum þar sem þessir steinar stóðu en þau eru þó ekki áreiðanleg hvað þetta varðar. Frá Reykjavík eru á korti merktir steinar við Suðurlandsveg langleiðina austur að Ytri- Rangá við Hellu, 90 km en ekki lengra. Þó eru til steinar sem stóðu austar og eru þrír þeirra nú á Skógasafni. Á kortunum má sjá kílómetrasteina allt að Eyrarbakka 70 km. Vegurinn um Mosfellsheiði til Þingvalla var merktur 50 km en ekki áfram austur á kortinu þótt frásögn Sigurðar vitni um annað. Vegurinn frá Akureyri um Hörgárdal var merktur fyrstu 20 km skv. korti. Austur frá Akureyri eru engar merkingar að sjá á korti. Frá Húsavík eru merkingar 35 km suður Reykjadal. Vitað er um kílómetrasteina víðar um land. Til er texti eftir Adolf J.E. Petersen vegaverkstjóra þar sem hann lýsir gerð kílómetrasteina: „Eitt er svo ótalið sem gert var úr höggnu grjóti, en það voru merkjasteinarnir. Með 5 km millibili voru settir steinar við vegbrúnina, eins áberandi og kostur var hverju sinni. Það voru kílómetrasteinar sem svo voru nefndir. Þeir voru tilhöggnir mjög vel, gerð þeirra var sú, að þeir voru í ferkant, höfðu talsverðan setflöt, en grenntust eftir því sem ofar dró. Efst voru þeir ýmist bogadregnir yfir framhlið eða sperrulaga á framhlið, þ.e. sú hlið sem að veginum snéri. Á þá hlið voru höggnir stafirnir km og svo talan sem við átti og sýndi kílómetratöluna frá einum stað til annars. Venjulega var svo málning sett í stafina til að gera þá auðveldari til aflestrar. Steinar þessir eru enn víða meðfram vegum og eru til prýði, ef vel er um þá hirt.“ Frávik frá þessu er steinn úr Reykjadal sem nú er varðveittur á Samgönguminjasafninu Ystafelli en hann hefur verið steyptur á staðnum. Á hann er ritað: 30 KÍLÓM FRÁ HÚSAV. Samkvæmt atlaskorti hefur steinninn verið við Vestmannsvatn, norðan við Hólkot. En hvernig var ákveðið hvaða vegir skyldu vera mældir í lengd? Árið 1897 var lagt fram á Alþingi frumvarp þess efnis „að mæla skuli á þremur næstu árum alla vegi, sem ákveðnir eru samkvæmt lögum um vegi 13. apríl 1894. Mark skal setja á kílómetramótum, og setja tölur á markið, er sýni vegalengd og vegastefnu. Hreppsnefndir hlutast til um mælingu hreppavega, sýslunefndir um mælingu sýsluvega, og landstjórnin um mælingu þeirra vega, er landssjóður kostar.“ (Stafsetning er færð til nútíma hér og héreftir í tilvitnunum). Þetta hefur væntanlega þótt fullmikil merking og frumvarpið náði ekki fram að ganga. En það var engu að síður byrjað að mæla og merkja og hefur líklega þótt vera hluti af vegabótum þegar þær voru gerðar á helstu leiðum. Í Lögbergi, blaði Vestur-Íslendinga í Kanada 7. október 1897 birtist þessi texti í frétt frá Íslandi: „Nú geta menn riðið eftir sléttri braut alla leið austur að Bitru í Flóa. Þangað austur var brautin komin um fyrri mánaðamót, og hefur henni vel skilað áfram í sumar. Meðfram veginum eru reistir steinar sem sýna vegalengdina, með fimm kílómetra millibili. Næsta merkissteininum hér við Reykjavík kvað nú vera rutt um koll. Hefur kvenmaður, sem fór um veginn í sumar, sagt svo frá, að hún sá 3 karlmenn, sem þar voru líka á ferð, leggjast á eitt til að fella steininn. Rælni eins og þetta er mjög svo vítaverð og þarf bæði mikla heimsku og ónáttúru til þess að geta leikið sér að þess konar spillvirkjum“. Þetta er elsta prentaða heimildin um uppsetta steina sem ég fann og er það nokkuð dæmigert að henni fylgir frásögn af skemmdum því slíkar frásagnir eru fleiri í heimildum um þessa steina. ↑ Adolf J.E. Petersen (f.1906 d.1985) vegaverkstjóri hjá Vegagerðinni

x

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar
https://timarit.is/publication/1142

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.