Heilbrigt líf - 01.06.1942, Blaðsíða 84
efni þetta um skeið allmikið notað til berklalækninga.
Árið 1907 framkvæmdi austurríski barnalæknirinn Cle-
mens von Pirquet fyrstur manna berklapróf með efni
þessu, í því skyni að greina á milli berklaveiki og annarra
sjúkdóma í börnum. Áður höfðu bæði læknar og dýra-
læknar veitt því athygli, að túberkúlínið orsakaði bólgu
og roða, ef því var dælt í húð berklasmitaðra dýra (naut-
gripa, naggrísa, kanína o. s. frv.). Árið 1891 tóku dýra-
læknar að notfæra sér þessa eiginleika túberkúlínsins til
að greina á milli berklasmitaðra og ósmitaðra nautgripa.
Er von Pirquet hafði gert sömu athuganir á mönnum.
ákvað hann að nota túberkúlínið á svipaðan hátt við þá.
Er hann því réttur höfundur berklaprófsins hjá mönn-
um, og ein berklaprófsaðferðin (húðrispan, þ. e. cutan-
prófið) ávallt kennd við hann og nefnd Pirquets -próf.
í túberkúlíni eru efnasambönd, sem myndast, þar sem
berklasýklar lifa og tímgast. Er það unnið á þann hátt, að
6—8 vikna gömul blanda berklasýkla, glýseríns og kjöt-
seyðis er hituð og síðan síuð gegnum mjög smágert sáld.
í túberkúlíni eru því engir berklasýklar, heldur ýmis efna-
sambönd, sem sýklarnir hafa gefið frá sér.
Berklaprófið er einrætt(„specifikt“), en það ber að skilja
svo, að einkenni jákvæðs berklaprófs (sérkennileg bólga
og roði) koma því aðeins í ljós, að túberkúlín verki á
berklasmitaðan lifandi líkama. Einkennum þessum valda
ekki nein önnur efni, né heldur verður þeirra vart, þótt
túberkúlín verki á líkama ósmitaðan af berklum.
%
Sá eiginleiki að svara jákvætt við túberkúlínpróf nefn-
ist túberkúlín-næmi. Líður ávallt nokkur tími, frá því að
menn smitast af berklaveiki, unz þeir eru orðnir túber-
kúlín-næmir. Biðtími þessi („anteallergiski“ tíminn) er
talinn 6—8 vikur, þegar um er að ræða fólk, sem smitazt
hefir um öndunarfærin. Er þetta meðgöngutími sjúk-
82
Heilbrigt líf