Fréttir - Eyjafréttir


Fréttir - Eyjafréttir - 01.06.2023, Blaðsíða 8

Fréttir - Eyjafréttir - 01.06.2023, Blaðsíða 8
8 | | 1. júní 2023 Afmælisdagur á Eskifirði Þegar ég hætti með Kristján Valgeir GK tók ég við Ásgeiri RE 60, 350 tonna nóta- og netabáti árið 1972 og var með hann í Norðursjónum það sumar. Þessar minningar koma upp í hugann þegar líður að 50 ára goslokahátíð í Eyjum. Við fórum á loðnu eftir áramótin 1973 og byrjuðum veið- ar norður af Kolbeinsey í byrjun árs. Þar var helst von á loðnu, á leið hennar fyrir Austfirði og vestur með Suðurlandi og endaði oftast undan vesturströnd landsins eftir hrygningu. Mánudaginn 22. janúar erum við á miðunum fyrir austan land þegar gerir alveg kolvitlaust veður. Nótaveiðiskip sigla í var og við á Ásgeiri RE siglum til Eskifjarðar. Þetta var afmælisdagurinn minn og ekki mikið gert til hátíðar- brigða annað en að spila bridge í borðsalnum. Við spiluðum mikið bridge og afmæliskvöldinu var vel varið með skipshöfninni. Ég fer í koju um miðnættið og sofna út frá útvarpinu. Öll skip og bátar til Eyja Ég vakna við það að ég heyri raddir koma úr viðtækinu og heyri í svefnrofunum að það er verið að tilkynna að það sé hafið gos í Vestmannaeyjum. Mér brá alveg svakalega þegar kom í útvarpinu ósk um að öll skip og bátar á nálægum slóðum sigldu til Eyja til að bjarga fólki úr hildarleikn- um. Margir töldu að eyjan myndi springa í loft upp eða þaðan af verra og allir íbúarnir væru í mik- illi lífshættu. Ég fer strax fram í borðsal, klæði mig síðan og geng í land. Fór beint heim til Kristins Jónssonar, bróður Alla ríka, en þeir áttu Hraðfrystihús Eskifjarð- ar á þessum árum. Ég banka á útihurðina á heimili Kristins og hann bregst undrandi við komu minni, hvað ég sé að gera svona snemma á fótum? Ég sagði hon- um fréttirnar að hafið væri gos í Vestmannaeyjum og honum brá mjög. Hann býður mér í bæinn og eiginkona hans Oddný Gísladóttir kemur í eldhúsið og hellir upp á kaffi. Við ræddum hvað hægt væri að gera í stöðunni. Það var auðvit- að vonlaust að ætla sér að sigla til Eyja í þessu veðri og það tæki að minnsta kosti sólahring að sigla alla þá leið í þessu veðri. Eftir stutt spjall við Kristin fór ég aftur niður á bryggju. Fór um borð í nokkra báta og ræsti skipstjór- ana. Við ræddum málin og tókum þá sameiginlegu ákvörðun að sigla út fjörðinn og vera til taks þegar nánari fréttir bærust frá Eyjum. Við létum reka í fjarðar- mynninu og þegar leið á þriðju- daginn 23. janúar lagaðist veðrið og við héldum á veiðar. Eyjabátar, skip og bátar við Eyjar sáu um björgun íbúanna og sigldu þeim til Þorlákshafnar. Lönduðum loðnu í gosinu Undir lok vertíðarinnar þegar við vorum á loðnuveiðum vestur af Eyjum lönduðum við fullfermi af loðnu hjá fiskimjölsverksmiðju í Eyjum. Það var einkennilegt að mæta þeim andstæðum sem voru annarsvegar gosmökkurinn úr Eldfelli og hins vegar gúa- nóreykurinn sem táknaði vilja mannskapsins til að halda áfram að vinna verðmæti úr sjó og þá staðreynd að Eyjamenn gæfust aldrei upp. Þetta var í raun alveg kostuleg stund og dagur að fá að upplifa á ferlinum sem skipstjóri. Hitinn rauk úr sjónum eins og siglt væri um heita laug og um- hverfið allt hið magnaðasta og lík- ara sviðsmynd en veruleikanum. Eftir loðnuvertíðina förum við til netaveiða. Við lögðum netin á Selvogsbanka og víða austur með landinu og lönduðum í Grindavík og Þorlákshöfn. Við fórum austur fyrir Eyjar og lögðum netin í Háfadýpi en aðallega grynnra. Ég man vel eftir því þegar við lögðum stutt frá gosstöðvunum og sáum rjúkandi hraunið renna austur Heimaey og til sjávar með hvítum gufumekki sem steig upp af sjónum. Það var tilkomumikil sjón. Með hraunkælingunni tókst að halda innsiglingunni opinni og segja Eyjamenn að hún sé jafnvel betri eftir gosið en áður. Eftir að gosinu lauk fór fólk að flytja aftur til Eyja og lífið hélt áfram. Margir höfðu misst hús sín en það er margt sem togar í sanna Eyjamenn og þeir vilja hvergi annarstaðar vera. Óskar Matt og Vitinn Ég hef kynnst mörgum Eyja- mönnum um dagana. Sá fyrsti var Óskar Matthíasson skipstjóri og útgerðarmaður. Óskar á Leó, eins og hann var alltaf kallaður, var mikill vinur föður míns Guðna Jónssonar skipstjóra á Munin frá Sandgerði. Óskar kom oft á heimili fjölskyldunnar í Sandgerði þegar hann var á reknetaveiðum í Faxaflóa. Þá var ég á fermingar- aldri og það var gaman að hlusta á spjall pabba og Óskars í eldhúsinu í Breiðabliki. Seinna var ég skipstjóri á Krist- jáni Valgeir eldri og við pabbi höfðum hlutverkaskipti og hann var orðinn kokkur hjá mér. Við fórum þá nokkrum sinnum til Eyja og þá var stundum litið í heimsókn á Illugagötuna til Þóru og Óskars. Óskar kom niður á bryggju og sótti okkur feðga um borð. Við höfðum þurft að koma inn til Eyja á leið okkar austur í Bugt vegna brælu á leiðinni. Okkur er boðið til stofu og þar var forkunnarfagur viti. Vitinn var þannig gerður að það var hægt að opna á honum ljóshúsið og hella þar í vitann einni flösku af sé- never. Eftir það var vitanum lokað en krani á vitanum sá til þess að veigarnar runnu í glösin okkar. Á meðan nóg var á vitanum þá log- aði ljósið skært. Þegar minnkaði séneverinn í vitanum þá slokknaði ljósið. Þá kallaði Óskar á Þóru og sagði. „Þóra mín, það er dautt á vitanum.“ Það var merki um að Þóra ætti að mæta með sénever og bæta á vitann. Guðjón Hjörleifsson fyrrverandi bæjarstjóri og Rósa Guðjónsdóttir eiginkona hans eru gestrisin. Við Eydís eiginkona mín komum á Þjóðhátíð eitt árið og gistum hjá þeim góðu hjónum. Það var mikið fjör og mikil gleði í kringum Gauja og Rósu og vinátta okkar var skemmtilegur tími þar sem við áttum góðar stundir saman sem gleymast seint. Vestmannaeyingar eru höfðingjar heim að sækja og þó að Gaui bæjó ætti ekki vita urðu kynni okkar góð og skemmtileg. Hafsteinn Guðnason fyrrverandi skipstjóri: Minningar úr Eyjagosi fyrir 50 árum Hafsteinn Guðnason fyrrverandi skipstjóri. Ásgeir RE.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.