Fréttir - Eyjafréttir


Fréttir - Eyjafréttir - 21.12.2023, Blaðsíða 15

Fréttir - Eyjafréttir - 21.12.2023, Blaðsíða 15
sótti talsvert hingað, þó minna en undanfarin ár. Og eins og áður voru það tjaldarnir sem skipuðu sér þar í fylkingarbrjóst og óðu alls óhræddir í vargfuglinn, dyggilega studdir af stelkinum sem sá um brottrekstur- inn til sjávar. Þarna virtust fuglarnir sameinast þó að ekki væru þeir alltaf sammála um allt. Um þjóðhátíðina fórum við upp á land eins og yfirleitt hin síðustu ár og leyfðum þjóðhátíðarþyrstum afkomendum okkar að nýta hús- næðið. Minntum þau raunar á að gefa fuglunum. En þegar við snerum til baka, var enga tjalda að sjá við Gvendarhús. Reyndar var tjaldurinn í Suðurgarði enn á staðnum og þáði góðfúslega það sem gefið var til matar, ótruflaður. En okkar fuglar létu ekki sjá sig, hafa líkast til haldið í fjöruna að kynna ungunum það lostæti sem þar er að finna. Yfirleitt hafa þeir komið við og kvatt okkur áður en þeir halda yfir hafið til hlýrri stranda en slepptu því að þessu sinni. Við erum bara þeim mun spenntari yfir komu þeirra á næsta vori. Eftirmáli Ég byrjaði þessi skrif um tjaldana í Gvendarhússlandinu árið 2007, fyrir réttum 17 árum, þá tiltölulega ný- fluttur upp í Gvendarhús og grunaði þá ekki að þetta ætti eftir að verða lesefni í öðrum eins fjölda jólablaða Eyjafrétta og raunin hefur orðið. Þetta hefur verið hin ánægjulegasta iðja, að rifja upp hin ótrúlegustu uppátæki þessara svarthvítu nágranna okkar og reyndar annarra fugla líka. Þetta er búið að vera hið besta yrk- isefni og ég er greinilega ekki einn um þá skoðun, þar sem stór hópur lesenda þakkar mér ævinlega á ári hverju fyrir skrifin. En nú er mál að linni. Þegar menn eru komnir á þann aldur sem skrifari er nú kominn á, eru ýmsir hlutir erfiðari en þeir voru fyrir nokkrum árum. Og því er einmitt þannig farið um þessa iðju. Þetta tekur orðið lengri tíma og er ekki (að mér finnst) eins vel og skemmtilega unnið og áður var. Þess vegna hef ég ákveðið að þessi pistill um tjaldana vini mína verði sá síðasti af minni hálfu. Við hjónin munum að sjálfsögðu fylgjast áfram með þeirra háttalagi sem og annarra nábúa þeirra (auk þess að sjá þeim fyrir hluta af þeirra fæði) en afraksturinn af því verður ekki rakinn meira í jólablaði Eyjafrétta. Ég vil að endingu þakka góðar við- tökur við þessum pistlum mínum um samlíf fugla og fólks og þakka þeim sem lagt hafa mér lið, ekki síst afa- dætrum mínum þremur, þeim Lovísu, Sögu og Birtu sem séð hafa um myndskreytingar fyrir afa sinn hin síðustu ár. Með kveðju og ósk um gleðileg jól og farsæld á nýju ári. Sigurgeir Jónsson

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.