Stuðlaberg - 01.11.2021, Side 7
STUÐLABERG 2/2021 7
Þegar farið er inn á bragur.is opnast
kennslugátt sem Skólavefurinn lét setja upp
fyrir nokkrum árum en þar er veitt tilsögn í
bragfræði. Með því að fara þar inn er hægt að
verða sér úti um upplýsingar um allar helstu
grunnreglur bragfræðinnar.
Þegar komið er inn á síðuna blasa við
kaflaheiti:
» Um bragreglur
» Hrynjandi
» Rím
» Ljóðstafir
» Erindi
» Bragarhættir
» Bókin til útprentunar
» Verkefni
» Verkefnahefti til útprentunar
» Svarhefti til útprentunar
» Fyrirspurnahornið
» Rímnasafn
Hér er fjallað um regluverk bragarins, skýrt
frá hrynjandinni í ljóðinu, taktskiptingunni
og áherslunum, rímið skýrt út, fjallað um
stuðla og höfuðstafi og hver staða þeirra er
í vísunni, þá er rætt um erindaskiptingu,
ferkvæðar, þríkvæðar og tvíkvæðar vísur og
svo eru sýnd dæmi um tuttugu algengustu
rímnahættina – með skýringum.
Ef slegið er á fyrirsögnina Bókin til út-
prentunar birtist pdf-skjal af öllum köflunum.
Það er hægt að prenta út.
Þá kemur að kafla sem inniheldur verkefni
fyrir byrjendur til að æfa sig í vísnagerð. Til
að æfa nemendur eru notaðar orðavísur þar
sem orðum hefur verið ruglað og á að raða
þeim rétt saman eftir bragreglunum. Þar er
annars vegar verkefnablað þar sem hægt er
að skrá vísuna en hins vegar er hægt að fara
inn á gagnvirka æfingu þar sem vísan er sett
upp en vantar nokkur orð inn. Þau orð eru
skráð fyrir ofan vísuna og nemandinn velur
hvaða orð hann slær inn. Þar er þó að ýmsu
að hyggja því að ekki er sama hvaða orð koma
hvar. Til að vísan sé ásættanleg bragfræði-
lega þarf að velja rétt orð í reitina. Tölvan
vakir yfir því að farið sé eftir bragreglunum
og ef það er gert launar hún með tilheyrandi
einkunnagjöf og segir: Rétt! Vel gert!
Í Svarhefti til útprentunar er hægt að finna
svör við þessum vísnaverkefnum. Þar er sýnt
hvernig hægt er að setja vísurnar upp þannig
að þær séu réttar en oftast eru fjölmargir
möguleikar sem koma til greina og engin leið
að sýna þá alla. Svarheftið gefur möguleika
á að prenta út lítið kver með öllum verkefn-
unum ásamt lausnum.
Í Fyrirspurnahorninu er gefið upp netfang
þar sem hægt er að senda inn spurningar sem
vakna viðvíkjandi bragfræðinni. Þar situr
fyrir svörum sá sem hér skrifar.
Rímnasafnið er heldur lítið að vöxtum –
enn þá. Stefnt er að því að auka það efni á
næstunni.
Það er von okkar sem stöndum að þessum
vef að hann geti orðið til leiðsagnar þeim sem
vilja vita meira um stuðlanna þrískiptu grein.
Áhugafólk um bragfræði og vísnagerð er
hvatt til að fara þarna inn og kynna sér málið
af eigin raun. RIA.
Rétt! Vel gert!
Bragfræði á Skólavefnum