Stuðlaberg - 01.11.2021, Blaðsíða 10
10 STUÐLABERG 2/2021
Þau kjörseðla settu í kassa
Dægurvísur
Dægurvísnaþátturinn að þessu sinni er
helgaður nýafstöðnum kosningum og var því
einkum beint til hagyrðinga að yrkja um taln-
inguna og úrslitin, sem að ýmsu leyti komu
á óvart. Vísnasmiðir brugðust vel við. Við
byrjum á Hannesi Sigurðssyni, afgreiðslu-
manni á Akureyri. Hann gerði limru sem
kallast Tillaga að nýju slagorði Framsóknar:
Framsókn er undirbúin best
að bæta, rétta og laga flest,
vonda siðu,
vinstri riðu
og válega hægri bráðapest.
Anton Helgi Jónsson, skáld og rithöfundur,
veltir fyrir sér talningunni og uppákomum í
því sambandi:
Tvisvar minnst ég talið hef,
tölu held á fundi:
Sæti hreppa hiklaust Ef,
Hefði sem og Mundi.
Sigrún Á. Haraldsdóttir skrifstofumaður
spyr: Hvað klikkaði hjá Sigmundi Davíð?
Hann var rökvís og reifur á flakkinu
og rudd’ úr sér kosningasnakkinu
hann fussaði á krata
og faðmaði Snata
en feilaði á ólukkans hakkinu.
Séra Hjálmar Jónsson, fyrrverandi dóm-
kirkjuprestur og þingmaður fyrir Sjálfstæðis-
flokkinn, yrkir:
Fletti blöðum, full með raus,
forðaðist röðun veika,
þjóð með glöðu geði kaus
grósku og stöðugleika.
Og Sigríður Hjálmarsdóttir er á sömu
nótum og faðir hennar:
Vinstri öflin vægðarlaust
á vetur harðan kalla.
Kjósum frekar hægra haust
með hagvöxt fyrir alla.
Sigurlín Hermannsdóttir, starfsmaður Al-
þingis, gerði limru:
Um helgina á kosningahátíð
var hamingja sumra mjög fátíð
er inn fóru’ á þing
en eftir einn hring,
var þingsetan strax orðin þátíð.
Páll Jónasson æðarbóndi yrkir Bjartsýnis-
ljóð eftir dauðann:
Við hljótum bæði góða og gamalreynda stjórn
sem getur mörgu lofað og hefur ermar víðar,
við þurfum kannski gamlingjar að færa litla fórn
en fáum bara kjarabót á himnum skömmu síðar.
Svanur Bjarki Úlfarsson tónlistarmaður
yrkir sléttubönd:
Aftur telja mæddir menn,
muna hefðir sveita.
Kraftur laga sofnar senn,
sumra stöðu breyta.
Illa gekk að telja í Borgarnesi í alþingiskosningunum í haust.