Stuðlaberg - 01.11.2021, Page 12

Stuðlaberg - 01.11.2021, Page 12
12 STUÐLABERG 2/2021 Af Erni Arnarsyni og gnýstuðlum Stuðlun með sl, sm og sn Í síðasta hefti Stuðlabergs var fjallað um stuðlun og sérstaklega rætt um gnýstuðlana sl, sm og sn. Stuðlun með þessum klösum hefur um aldir verið nokkuð á reiki vegna framburðarbreytinga. Mörg skáld tóku þá að laga stuðla sína að hinum nýja hljómi tungunnar og fundu til þess ýmsar leiðir. Sökum þess varð stuðlun nokkuð á reiki um skeið. Mest kvað að því á 19. öld. En þegar betur er að gáð kemur í ljós að vel er hægt að ná utan um regluna. Hún er ein- föld; sl stuðlar bara við sl, sm við sm og sn við sn. (Auk þess geta sl og sn stuðlað við st, það kallast sníkjuhljóðsstuðlun. Sjá Stuðlaberg 1/2021, bls. 8.) Gaman er að skoða hvernig gengnir brag- snillingar hafa notað þessi hljóð í stuðlun. Tökum dæmi úr bókinni Illgresi eftir Örn Arnarson (2. útgáfa 1942). Í kvæðinu Ljóða- bréf til Vestur-Íslendings eru þessar línur: Já, snivinn er Snæfellsjökull og snjóþungt um Grímsvötn enn. Hér er stuðlað með sn — snivinn, Snæfells- jökull og snjóþungt. Í fyrstu rímu af Oddi sterka segir: Hausa, fletja, slíta slóg, sleddu hvetja, ausa sjó, Nú er það sl í orðunum slíta, slóg og sleddu. Og í kvæðinu Óskalandið stuðlar hann enn með sl: — slétt er brautin, sláðu í Grána, slepptu honum beint á himingljána — Hér er aftur stuðlað með sl — slétt, sláðu og slepptu. Þegar betur er að gáð má sjá að þegar Örn notar s í stuðlun truflar það ekki brageyra hans þó að önnur s-pör standi í sömu línum. Í kvæðinu Stjáni blái eru þessar línur: Sló af lagi sérhvern sjó, sat við stýri, kvað og hló. Hér stuðlar hann með sé í sérhvern, sj í sjó og sa í sat. Klasinn sl í sló truflar þá stuðlun ekki, né heldur st í stýri. Í kvæðinu Grjót-Páll má lesa eftirfarandi: Situr hann þar seint og snemma sýknt og heilagt fæst við kletta, Hér er stuðlað með si í situr, sei í seint og sý í sýknt. Klasinn sn í snemma raskar greinilega ekki ró bragsnillingsins. Að lokum má minnast á það sem kallast aukaljóðstafir, þegar braglínuparið er stuðlað en auk þess koma fyrir aðrir stuðlar í sama pari. Þetta þykir ekki fallegt og Örn Arnar- son lét það aldrei henda sig. Þess vegna er athyglis vert að sjá hvernig hann notar fyrr- greinda klasa í línum til hliðar við stuðlunina. Í kvæðinu Í upphafi eru þessar línur: Hvert sandkorn, er snart hans heilaga hönd, varð heit og lýsandi sól. Hér er stuðlað með h í orðunum heilaga, hönd og heit. Í fyrri línunni standa orðin sand- korn og snart. Þarna væri aukastuðlun ef þessi hljóð stuðluðu saman, en það gera þau ein- faldlega ekki. Í þýdda kvæðinu Rósin eru þessar línur: Sveinninn sleit þá rós af rein — rósin fríð í haga. Hér er stuðlað með r í rós, rein og rósin. Í fyrstu línunni koma fyrir orðin sveinninn og sleit. Þannig hefði Örn ekki haft línuna ef þessi orð hefðu stuðlað. En samkvæmt hans næma brageyra gera þau það ekki. Örn Arnarson var snillingur í meðferð hefðbundinna ljóða. Við getum treyst því að hann gerði þetta rétt. RIA.

x

Stuðlaberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Stuðlaberg
https://timarit.is/publication/1892

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.