Stuðlaberg - 01.11.2021, Blaðsíða 34

Stuðlaberg - 01.11.2021, Blaðsíða 34
34 STUÐLABERG 2/2021 Raunar ert það þú sem leiðir mig Karl Sigurbjörnsson velur sér uppáhaldsljóð Það er erfitt að velja uppá- haldsljóð, nánast eins og að þurfa að velja milli góðra vina og samferðafólks. En ýmissa hluta vegna hefur Vöggu- ljóð vestur-íslensku skáld- konunnar Jakobínu John son (f. 1883, d. 1977) orðið mér æ hugstæðara. Hver er sterkur og hver er veikur? Hver ber og hver er borinn? Í áföllum og erf- iðleikum hefur lítil barns- hönd, sem lætt er í lófa, einatt reynst meiri huggun og styrkur en annað. Oft hefur lítið barnshöfuð í hálsakoti sefað og hug- hreyst meir en ótal orð. Það er afl umhyggjunnar, kær- leikans. Um það fjallar ljóð Jakobínu. Orðið barn merkir það sem er borið. Barnið sem borið er á ástarörmum veit að það er elskað. Sá, sem veit sig elskaðan án skilyrða, vogar að treysta, vogar að reiða sig á kær- leika og umhyggju annarra og að hætta á að mistakast og verða fyrir vonbrigðum. Hann eða hún veit að öllu er borgið. Og það er aldrei of seint að byrja að nýju. Frá móðurskauti til moldar erum við borin á örmum umhyggjunnar og við leiðarlok hvílum við í örmum Guðs. Vögguljóð Ég held um smáa hendi, því gatan hér er grýtt, þá get ég líka fundið hvort þér er nógu hlýtt. Ég veit mér skylt að ráða og rata fyrir þig, — en raunar ert það þú, sem leiðir mig. Æ, snertir þú við þyrni? — Hann fól hin fríða rós, og fögur tárin myrkva þitt skæra hvarmaljós. Mér rennur það til hjarta og reyni að gleðja þig — en raunar ert það þú, sem huggar mig. Þú spyrð um svarta skýið, sem skyggir fyrir sól, og skrælnuð mösurblöðin, er fjúka um laut og hól. Ég leitast við að ráða þær rúnir fyrir þig, — en raunar ert það þú, sem fræðir mig. Nú þreytast smáir fætur, svo faðminn þér ég býð. Ég fel þig ljúft að hjarta, og stundin sú er blíð. Þú andar hægt og rótt og þín rósemd grípur mig, — svo raunar ert það þú, sem hvílir mig.

x

Stuðlaberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Stuðlaberg
https://timarit.is/publication/1892

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.