Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 06.09.2023, Page 11

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 06.09.2023, Page 11
Framkvæmdafréttir nr. 726 4. tbl. 31. árg. 11 Frumstæðar aðstæður í Emstrum Reynsla Hrefnu úr fyrra starfi fyrir Vegagerðarflokkinn á áttunda áratugnum kom að góðum notum í fyrra þegar brúarvinnuflokkurinn gisti í skála Ferðafélags Íslands í Emstrum meðan hann vann að því að lagfæra göngubrýr við Eskifell og Kollumúla yfir Jökulsá í Lóni sem höfðu skemmst í óveðri veturinn áður. „Við vorum þar í hálfan mánuð. Ég vissi ekkert út í hvað ég var að fara og keypti því bara inn eins og venjulega. Aðstæður voru heldur fornfálegar, enginn ísskápur og enginn ofn, svo ekki gat ég bakað. Bara gashellur og grill,“ lýsir Hrefna. Þetta með ísskápsleysið bjargaðist þó giftusamlega enda kalt í veðri þó kominn væri júlí. „Þetta var öðruvísi en rosalega gaman að vera svona öll saman í skálanum.“ Heimilismatur og heimabakað bakkelsi En hvað fá nú vinnufélagarnir að borða? „Þeir segja nú, þessir yngri strákar, að ég eldi bara gamaldags mat,“ svarar Hrefna og brosir. „Og það er svo sem alveg rétt. Ég er með þennan heimilismat, kjötbollur, fisk, fiskrétti, saltkjöt og lambalæri. Ég er alltaf með steik á fimmtudögum. Þessum yngri mönnum þykir voða gott að fá hamborgara, pitsur, pítur og kjúkling, og ég er með það líka enda reyni ég eins og ég get að gera öllum til hæfis.“ Dagurinn hjá Hrefnu byrjar klukkan sex á morgnana. „Morgunkaffi er tuttugu mínútur í sjö. Um hálftíu er kaffi og svo hádegismatur klukkan tólf. Síðdegiskaffi er klukkan 15.30 og kvöldmatur klukkan sjö,“ segir Hrefna sem hefur mjög gaman af því að baka. „Ég baka ýmislegt, til dæmis vínarbrauð eins og mamma bakaði, marmaraköku, snúða, skinkuhorn, pitsusnúða og kleinur en þær finnst mér ég alltaf þurfa að eiga.“ Þegar flokkurinn er að vinna langt frá vinnubúðunum nestar Hrefna þá upp fyrir kaffið en alltaf er komið heim í hádegismat og kvöldmat. „Áður smurði ég alltaf nestið en það var dálítil matarsóun. í dag tek ég til álegg í dalla og sendi þá með brauð og álegg og smjör og stundum heimatilbúið salat. Það verður miklu drýgra og þeir fá sér það sem þá langar í. Þeir borða allir vel, sérstaklega þessir eldri. En þessir ungu menn kvarta aldrei. Nú er ég orðin elst, og sú eina sem var í flokknum árið 2006 þegar ég byrjaði, en ég næ mjög góðri tengingu við alla, enda einstakur andi í hópnum.“ Ekki var hægt að kveðja Hrefnu nema fá hjá henni uppskrift og þar var ekki komið að tómum kofanum. Hér gefur hún uppskrift að kótilettum og dýrindis peruköku. Kótilettur að hætti Hrefnu → 10 stk. kótilettur → 3 tsk. salt → 1 tsk. pipar → 6 tsk. mynta frá Pottagöldrum → 4 tsk. smjör Sósa → Soð af kótilettum → 2 teningar kjötkraftur → 2-3 tsk. mynta → 500 ml rjómi → smjörklípa → sósulitur → sósujafnari Hitið ofninn í 150 gráður. Setjið allt krydd saman í skál og blandið vel saman. Kótilettunum raðað í ofnskúffu og kryddinu stráð yfir, smjörklípur settar með. Kótiletturnar eldaðar í 1,5 klst. í ofni, snúið við einu sinni. Hellið soðinu sem myndast hefur í ofnskúffunni í pott og setjið annað innihald sósunnar saman við. Öllu hrært saman og sósujafnara bætt við að lokum eftir þörfum. Peruterta → 170 g sykur → 4 stk. egg → 60 g hveiti → 60 g kartöflumjöl → 1 tsk. lyftiduft Egg og sykur þeytt vel saman. Hveiti, kartöflumjöli og lyftidufti hrært varlega saman við. Sett í tvö botnamót. Ofnhiti 180 C í ca. 20 mín. Perurjómi → 1/2 l rjómi → 1 dós perur → 2 msk. flórsykur → 4-5 msk. Nesquik → 1 egg Rjóma, flórsykri og Nesquik þeytt saman og að lokum er eggið sett út í rjómablönduna og aðeins hrært. Það má líka setja súkkulaði í staðinn fyrir Nesquik en mér finnst þægilegra og alls ekki verra að nota Nesquik. Perurnar set ég bæði á milli og ofan á rjómakremið. Nauðsynlegt að bleyta botnana með perusafanum. ← Með barnabörnunum. ↙ Toyoto-játningin hangir á ísskápnum í eldhúsi Hrefnu.

x

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar
https://timarit.is/publication/1142

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.