Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 06.09.2023, Síða 14
14 Framkvæmdafréttir nr. 726
4. tbl. 31. árg.
Tafir vegna kuldatíðar og
afhendingu búnaðar
Verklok voru áætluð í lok september 2022 en brúin var
opnuð fyrir umferð í júní 2023.
Vegna ytri aðstæðna urðu tafir á afhendingu
búnaðar sem þurfti til brúargerðarinnar. Það varð
þess valdandi að framkvæmdum seinkaði fram á
vetur. Veturinn 2022-2023 reyndist afar kaldur með
langvarandi frostatíð sem gerði erfitt um vik að steypa
brúargólfið. Því var brugðið á það ráð að byggja yfir
brúna og tjalda yfir og niður með hliðum að jörð. Kynt
var bæði undir brúargólfið og einnig í tjaldinu yfir
brúargólfinu áður en steypt var. Þar inni var orðinn um
10°C hiti þegar steypuvinna hófst. Steypuvinna við
brúargólfið hófst að morgni þriðjudagsins 24. janúar
og lauk seinnipart miðvikudagsins 25. janúar og hafði
vinnan þá staðið yfir samfellt í 30 klukkustundir.
Brúnni forðað frá stórtjóni
Kuldatíðin hafði fleiri áhrif á framkvæmdina. Í janúar
2023 höfðu myndast klakastíflur í árfarveginum
sem voru í þann veginn í bresta. Stefndi þá í stórtjón
á brúnni sem var á viðkvæmu byggingarstigi. Við
byggingu brúarinnar hafði árfarvegurinn verið þrengdur
og verkpallar reistir yfir hann. Fyrirséð var að vatnsopið
bæri ekki stóraukið vatnsrennsli með jakaburði. Til
að bjarga málum var vegurinn að gömlu brúnni rofinn
19. janúar til að opna nýjan farveg fyrir ána og skapa
svigrúm fyrir aukið vatnsrennsli. Næsta dag, þann 20.
janúar, gerði asahláku eftir um sex vikna samfelldan
frostakafla. Mikill ís var kominn á ána og því viðbúið að
áin ryddi sig með miklu vatnsflóði og jakaburði. Þann
21. janúar, tveimur dögum eftir að vegurinn var rofinn,
ruddi áin sig fram með miklu flóði og streymdi að hluta
um hinn nýja farveg. Með stórvirkum vinnuvélum tókst
verktakanum að bægja frá ísjökum og halda rennslinu
greiðu á meðan vatnselgurinn var mestur og forða nýja
mannvirkinu frá skemmdum.
Slysatíðni
Slysatíðni við brúna gömlu yfir Stóru-Laxá er ekki há.
Fimm atvik hafa orðið frá aldamótum. Hins vegar urðu
alvarleg meiðsli á fólki í tveimur tilvikum.
←
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Jón Bjarnason, oddviti
Hrunamannahrepps, Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og
Gnúpverjahrepps og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar,
klipptu á borða til að marka formlega opnun brúarinnar.
↓
Fjöldi gesta tók þátt í hinni formlegu opnun.