Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 23.10.2023, Síða 3
Framkvæmdafréttir nr. 727
5. tbl. 31. árg.
3
„Gamla bryggjan var orðin mjög döpur og mikill
munur á ásjónu hennar nú. Ég hef fengið mjög góð
viðbrögð frá fólki í bænum sem er mjög ánægt
með nýju bryggjuna,“ segir Guðmundur sem kláraði
bryggjusmíðina í lok júlí á þessu ári.
Gamla Angróbryggjan, sem dregur nafn sitt af hinu
sögufræga Angróhúsi á Seyðisfirði, var upprunalega
reist í kringum árin 1945 til 1947. Hún var úr furu, um
50 m á lengd og 9 m á breidd með 7 m viðlegudýpt.
Angróhúsið var byggt 1880 af Otto Wathne, sem oft
er kallaður faðir Seyðisfjarðar. Það var í fyrstu kallað
Engros, sem þýðir verslun, en með tímanum þróaðist
nafn hússins í Angró. Á sínum tíma var húsið notað
undir síldarverkun, verslun og íbúð og var í raun vagga
stórveldis Wathne og nátengt fyrra síldarævintýrinu á
Íslandi.
Hafnadeild Vegagerðarinnar gerði ástandsskoðun á
bryggjunni í mars 2021 og kom þá í ljós afar bágborið
ástand hennar, sér í lagi á suðurenda bryggjunnar sem
fór illa út úr aurskriðunum í desember 2020.
Ný bryggja var boðin út 2022. Héraðsverk átti lægsta
tilboðið upp á 146 m.kr. en Guðmundur, einn þekktasti
bryggjusmiðjur á Íslandi, sá um bryggjusmíðina en
hann hefur smíðað ófáar harðviðarbryggjur í gegnum
tíðina.
„Já, ég hef smíðað gríðarlega margar. Fyrst með föður
mínum og síðar fór ég sjálfur að bjóða í verk þegar
hann var fallinn frá. Þetta hefur verið stór hluti af mínu
starfi, líklega í kringum 70 prósent af minni vinnu snýst
um bryggjusmíði,“ segir Guðmundur. Inntur eftir því
hvort margir kunni þetta verklag segir hann að þeim
fari fækkandi. „Þeim hefur fækkað sem hafa reynslu af
slíkri bryggjusmíði en það er fylgifiskur þeirrar þenslu
sem hefur verið í þjóðfélaginu og færri sem sækjast í
þessi verkefni.“
En harðviðarbryggjunar sjálfar, fer þeim fækkandi?
„Nei, alls ekki. Harðviðarbryggjur verða alltaf til staðar
enda hentar alls ekki alls staðar að vera með stálþil.“ Á
Seyðisfirði er það einmitt uppi á teningnum. Fjörðurinn
er mjög djúpur á þeim stað sem Angróbryggjan
stendur og ekki hægt að nota stálþil. Þá skipti það
einnig Múlaþing nokkru máli að halda í upprunalegt
útlit bryggjunnar enda eru þrjár aðrar trébryggjur á
svipuðum slóðum í svipuðum stíl.
↓
Við ástandsskoðun í mars 2021 kom í ljós
að bryggjan var afar illa farin.