Dagfari - 01.03.2024, Page 10
Hernaðurinn
og loftslagið
Það er gömul saga og ný og fátt
er eins skaðlegt fyrir umhverfið
og hernaður. Í átökum láta
stríðsaðilar sprengjum rigna
með tilheyrandi eyðileggingu.
Landsvæði er miskunnarlaust
spillt í þágu hernaðarmarkmiða
og hvers kyns eiturefnum hleypt
út í umhverfið. Í yfirstandandi
stríði í Úkraínu höfum við t.a.m.
horft upp stríðsaðila tefla á tvær
hættur með sprengjuárásum
á virkt kjarnorkuver sem gæti
valdið stórslysi og viðkvæmum
landsvæðum hefur verið sökkt
undir vatn með því að sprengja
uppistöðulón og valda
flóðbylgjum. Jarðsprengjur
og ósprungnir hlutar, svo sem
úr klasasprengjum, halda svo
áfram að valda tjóni á dýrum
og mönnum löngu eftir að búið
er að leiða sjálf stríðsátökin til
lykta.
Syndalisti herstjórnenda
heimsins er langur þegar kemur
að umhverfismálum, líkt og
rakið var í þemahefti Dagfara
sem kom út á árinu 2020. Þar
var einnig fjallað um annan þátt
sem skiptir ekki síður máli, þar
er hin skefjalausa olíunotkun
herja veraldar jafnt í stríði sem
á friðartímum.
Kolefnisfótpor tengt
hernaði og hermennsku er
gríðarstórt en um það er
sjaldan rætt. Á tímum þar
sem stjórnvöld gera
framleiðendum hvers kyns
varnings skylt að gera grein
fyrir vistspori niður í smæstu
einingar til að upplýsa
almenning, eru herir að mestu
leyti undanskildir slíkri
skráningarskyldu og geta falið
sig á bak við leyndar- og
öryggissjónarmið.
Upphaf þessa máls má rekja til
Kyoto-samkomulagsins frá 1997,
sem náðist í samnefndri
borg í Japan og fól í raun í sér
fyrstu alvarlegu tilraunina til að
koma böndum á hömlulausa
brennslu mannkynsins á
jarðefnaeldsneyti. Að kröfu
Bandaríkjahers var öll losun
tengd herjum undanskilin í
samkomulaginu. Á þessi skilyrði
var fallist enda flest talið til þess
vinnandi að ná Bandaríkjunum
um borð í samningunum.
Loðin tölfræði
Í Parísarsamkomulaginu árið 2015
var byrjað að vinda ofan af þessari
undanþágu, þar sem farið var gera
kröfu til ríkja að þau reyndu að
áætla losun vegna herja sinna, en
þyrftu þó ekki að birta þær tölur
sundurliðaðar heldur mætti fela
þær inni í tölfræði um aðra og
óskilgreinda losun.