Goðasteinn - 01.09.1970, Síða 80
an hnekk við slíkt. Uppflosnað þjóðlíf og alþjóðahyggja sigla því
aðeins í kjölfarið, að varnir séu veikar fyrir. Nú er það svo, að
ekkert gott né markvert vinnst, nema nokkuð sé fyrir því haft.
Á það ekki hvað sízt við um menningu og félagslegan þroska.
íslenzka þjóðfélagið er ungt að árum sem sjálfstætt og vaxandi
samfélag. Við höfum haft í mörg horn að líta við að byggja
upp og treysta þetta samfélag okkar. Og á tímum örra breytinga,
hraðfara þróunar og afnáms aldagamallar einangrunar er sízt að
undra, þótt sitthvað gangi úr skorðum. Einnig er það svo, að í
moldviðri augnabliksins og hita baráttunnar getur okkur stund-
um sézt yfir ýmis nærtæk verkefni. En samt erum við vafalaust
öll sammála um það að vilja efla athafnalíf og menningu í land-
inu. Okkur getur greint á um leiðir og gerir það ekki ósjaldan, en
það ætti ekki að koma að sök, ef markmiðið er gott og eitt og
hið sama.
Fullvíst er það, að margt hefur okkur vel tekizt, þótt sitthvað
hefði getað farið betur og ýmislegt hafi farið í súginn. Uppeldis
og menntamál eru sífellt erfið viðfangs og stöðugum breytingum
háð. Stundum getur svo virzt, að foreldrar hafi næsta lítinn tíma
til að sinna þessum verkefnum og skólar sýnast jafnvel eiga i
erfiðleikum með að bregðast rétt og viðeigandi við vandamálum
síbreytilegra tíma. Æskan er þróttmikil og vill láta að sér kveða.
Oft á tíðum finnur hún orku sinni ekki heppilegan farveg, því að
breyttir þjóðfélagshættir valda verkefnaskorti hjá ungu fólki. Það
ætti því að vera fyrsta boðorð að bæta þar úr og finna æsku
landsins heppileg verkefni til að stæla hug og hönd. Allir þurfa
að fá tækifæri til að starfa og hugsjón til að vinna fyrir. Skólar
og félagssamtök taka í æ ríkara mæli við uppeldi og mótun ung-
menna af heimilunum. Skólum er mikill vandi á höndum um val
tómstundastarfa. Margt kemur til greina og sitt sýnist hverjum. En
það sem hvað brýnast virðist þessi árin og um alla framtíð, er
að efla í fari æsku landsins þjóðlegt lífsviðhorf og vilja til að
láta gott af sér leiða í þágu landsins og samfélagsins. íslendingar
eru fáir, landið er stórt og verkefnin mörg. Það ríður því á
miklu að sérhver leggi sig fram um að vinna vel, svo að við get-
um sífellt glaðzt yfir vexti og grósku samfélags okkar. í því efni
78
Goðasteinn