Goðasteinn - 01.09.1972, Síða 58
Þorsteinssyni á Bergþórshvoli. Hef ég alltaf minnst þess dags sem
eins hins heillaríkasta í lífi mínu. Kirkjan mun hafa verið rifin
til grunna árið 1911 og brakið selt á uppboði um haustið. Mörg-
um í sókninni var illa við þetta tiltæki, sem náðist í gegn með
litlum atkvæðamun, er ýmsir sóknarbúar voru fjarverandi í veri.
Ég átti kirkjusókn að Stóra-Dal en kunni þessu þó illa. Ég hafði
oft komið að Voðmúlastöðum, frá því ég komst til vits og ára,
verið þar við kirkju, þótti staðurinn fallegur, kirkjuklukkurnar
hljómfagrar og umhverfið allt prýðilegt. Við margar jarðarfarir
var ég á Voðmúlastöðum, eftir að kirkjan var rifin, líklega nær
20, og oftast líkmaður, stundum á sólbjörtum degi en einnig í
slæmu veðri, jafnvel illviðri. Fann ég þá og skildi vel vanlíðan
viðstaddra, ekki sízt aðstandenda, er oft voru lítt búnir til að
þola veðurhörku á vetrardegi.
Urn áramótin 1942-3 fór ég að hugsa um, hvernig ég ætti að
koma því í verk, að nýtt guðshús risi upp á Voðmúlastöðum, sam-
boðið þeim fornhelga stað. Fannst mér ég sjá það í anda, og þessi
vökudraumur minn rættist. Eftir áramótin áræddi ég að skrifa
Guðjóni Guðmundssyni bónda í Austur-Voðmúlastaðahjáleigu
bréf um þetta efni. Hann hafði lcngi verið grafarmaður við jarðar-
farir á Voðmúlastöðum og þekkti allar aðstæður. Guðjón kom í
heimsókn til mín þann 23. febrúar og ræddi málið af velvilja.
Óskaði ég eftir því við hann, að Björgvin Filippusson bóndi í
Bólstað yrði fenginn til að veita þessu brautargengi, vænti þar
trausts og skilnings. Þennan dag var afráðið að fara af stað með
þetta mál í Drottins nafni. Síðar um veturinn var málið sett í
nefnd, sem átti að safna samskotum um hina fornu Voðmúlastaða-
sókn, Austur-Landeyjar og annarsstaðar, þar sem liðs væri von.
Þessu var vel tekið, flest heimili á þessu svæði létu smærri og
stærri upphæðir í té. Hjá einstaka manni varð vart nokkurrar
tregðu gagnvart kirkjubyggingu á Voðmúlastöðum, en ekki varð
það að neinu fótakefli.
Frá Kristínu Símonardóttur frá Miðey fékk ég hvatningarbréf
og 500 krónur til byggingarinnar þann 6. sept. 1944. Maður henn-
ar, Sigmundur Sveinsson, færði mér það og virtist hafa brennandi
áhuga fyrir því, að byggð yrði kapella á Voðmúlastöðum, eins og
56
Goðasteinn