Úrval - 01.02.1982, Page 3
2. hefti
41. ár
Úrval
i
Febrúar
1982'
Eflaust kunna flestir vel við að handfjatla nýju peningana, þessa sem við
fengum fyrir rúmu ári í hendurnar. Allir geta verið sammála um að það er
þægilegra að handfjatla lágar upphæðir að tölunni til heldur en háar. En verra
er þó að það er ekki einasta að þessar krónur endast ekkert betur en þær gömlu,
heldur endast þær verr. Ástæðan? Einfaldlega sú að menn átta sig ekki á því að
ein króna nú hefur sama gildi og 100 krónur um næstsíðustu áramót — eða
gróft áætlað 65 krónur nú.
— Og þó. Einhverjir hafa athugað þetta. Einhverjir þeirra sem verðleggja
vörur. Þeir hafa líka athugað að kaupendur gera sér almennt ekki grein fyrir
þessu, og þess vegna er óhætt að verðleggja vöruna hátt. Oft kemur enn út á
hana tveggja stafa tala sem kaupendum blöskrar ekki af því þeir gera sér ekki
grein fyrir hvað hún þýðir.
Kunningi minn ætlaði á dögunum að kaupa sér icebergsalat. Þessi salathaus
er á stærð við kattarhaus. Verðið, sem honum var boðið, var 32 krónur
hausinn. 3200 krónur á verðgildi peningaskiptanna, á að giska 2100 nú miðað
við rýrnun gjaldmiðils frá peningaskiptum. Er líklegt að þetta geti verið
hemjulegt verð? Ég veit ekki. Kannski er icebergsalat sú munaðarvara að þetta
sé réttlætanlegt. Grunur minn er hins vegar sá að þarna, eins og í mörgum
fleiri tilvikum, sé verið að spila á verðskyn sem búið er að eyðileggja og
peningaskyn sem búið er að brengla.
Ritstjóri
Kápumynd:
Grásteinn stendur við Grafarholt. Þegar steypti vegurinn var lagður þurfti að
flytja hann og þá gerðust margir undarlegir hlutir, eignaðir huldufólki. Þó eru
engar eldri sagnir til um huldubyggð í Grásteini. En hann er kannski nýbýli.