Lögmannablaðið - 2024, Blaðsíða 4
4 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/24
AÐ GÆTA HEIÐURS
OG SÆMDAR STÉTTAR
Í tilefni 90 ára afmælis Lögmannafélags Íslands árið 2001 var
Davíð Þór Björgvinsson fenginn til að skrifa sögu félagsins og
birtist afraksturinn í yfirgripsmikilli grein í Tímariti lögfræðinga í
desember sama ár undir heitinu „Lögmannafélag Íslands 90 ára
- söguágrip.“ Áður hafði Theodór B. Líndal gert sögu félagsins
góð skil við 25 ára og 50 ára afmæli þess.
Fram kemur meðal annars í grein Davíðs Þórs að af heimildum
megi ráða að það voru einkum tvö mál sem félagið beitti sér
fyrir í upphafi. Annars vegar að samþykkja sameiginlega
lágmarksgjaldskrá sem mun raunar hafa verið fyrsta
verkefni félagsins eftir stofnun þess, sem var löngu fyrir tíma
samkeppnisregluverks. Hins vegar að setja skorður við öflun
málflutningsréttinda sem „yfirréttarmálflutningsmenn“. Um
hið fyrrnefnda segir í grein Davíðs Þórs að með því að koma
sér saman um lágmarksgjaldskrá „… var að því stuðlað að aukin
samkeppni í millum málflutningsmanna gæti síður leitt til þess að þeir
undirbyðu hvern annan“. Um síðara atriðið segir að það „… gat
þjónað þeim tilgangi að hægja á fjölgun í stétt málflutningsmanna þótt það
hafi eflaust einnig miðað að því að bæta þjónustu þeirra með því að gera
kröfur um ákveðna starfsreynslu til viðbótar við lögfræðiprófið“.
Davíð Þór rekur í grein sinni að það megi þó jafnframt ráða að
fleira kunni að hafa búið að baki en hrein hagsmunabarátta við
stofnun félagsins. Þannig muni samvinna málflutningsmanna
hafa verið í molum, en um það segi Theodór B. Líndal í ritinu
Málflutningsmannafélag Íslands 25 ára 1911 – 11. des. – 1936 á
bls. 42:
Þeir, sem muna þá daga, er félagið hóf göngu sína, hafa skýrt svo frá, að
sá hafi verið háttur málflutningsmanna, að torvelda hver öðrum störfin
sem mest. Lítilfjörlegir formgallar, t.d. ef innsigli stefnuvotta vantaði
undir birtingarvottorð, voru notaðir til þess, að málum yrði vísað frá
dómi. Mótmæli gegn umboði þóttu sjálfsögð og ekki þótti ástæða til
að mæta í nokkrum rétti án stefnu og fyllsta stefnufrests. Ef til vill er
þetta eitthvað orðum aukið, en það mun ekki vera mikið. Sama er að
segja um orðbragðið í sóknar- og varnarskjölum. Mikill hluti þeirra
voru persónulegar meiðingar, háð og hótfyndni. Er sagt að venja þessi
í öllu orðbragði væri orðin svo rík, að almenningur hafði varla talið
mál sómasamlega flutt, nema málflutningsmennirnir væru sektaðir fyrir
meiðyrði og ósektaður málflutningsmaður átti fárra skjólstæðinga völ.
Rekur Davíð Þór að þessi samskipti muni hafa breyst til hins
betra eftir stofnun félagsins og að Lárus Fjeldsted, sem var
einn af stofnendum félagsins og síðar heiðursfélagi, segi um
félagsstofnunina í minningargrein um Svein Björnsson í Tímariti
lögfræðinga árið 1952: „Tilgangur félagsins var, að ég hygg, ekki fyrst
og fremst sá að gæta fjárhagslegra hagsmuna félagsmanna, heldur hins að
gæta heiðurs og sæmdar stéttarinnar.“
***
Það er að sjálfsögðu mikilvægt að þeir sem eru í forsvari
fyrir félagið hverju sinni sem og félagsmenn gæti heiðurs og
sæmdar stéttarinnar. Sú er sem betur fer raunin í yfirgnæfandi
meirihluta tilvika. Grunngildi félagsins, þ.e. að gæta hagsmuna
lögmannastéttarinnar, að stuðla að samheldni og góðri samvinnu
félagsmanna, að standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar,
að stuðla að framþróun réttarins og réttaröryggis og að sinna
lögboðnu eftirlits- og agavaldi, eru sem rauður þráður í allri
sögu félagsins og verða það áfram. Lögmannafélagið, og allir
félagsmenn, gegna um leið mikilvægu hlutverki við að stuðla að
framgöngu réttarríkisins og að almenningur beri virðingu fyrir
og skynbragð á mikilvægi réttarríkisins og hlutverki lögmanna
við að framfylgja því.
***
Ég vil að lokum nota tækifærið fyrir hönd félagsins og þakka
fráfarandi formanni, Sigurði Erni Hilmarssyni, og þeim sem
hafa staðið vaktina með honum, fyrir farsæl og óeigingjörn störf
í þágu félagsins undanfarin ár.
STEFÁN A. SVENSSON LÖGMAÐUR
FORMAÐUR