Lögmannablaðið - 2024, Blaðsíða 25

Lögmannablaðið - 2024, Blaðsíða 25
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/24 25 Baldur Guðlaugsson, sem hafði tekið við vinnu minni þegar ég fór í Hæstarétt, varð ráðuneytisstjóri á þessum tíma svo það vantaði lögmann í þessi sömu störf og ég hafði verið að vinna að áður en ég fór. Ég ákvað að stökkva til en þetta var mjög skemmtileg vinna, þó svo virkjunin væri umdeild, og tók mörg ár. Fyrstu þrjú árin fóru í að gera samninga vegna rafmagnssölu til álversins, endanlega við Alcoa. Svo tóku við verksamningar, einkum við ítalska fyrirtækið Impregilo sem tók að sér hættusömustu verkin, byggingu stíflunnar í Jökulsá á Brú og hin löngu jarðgöng frá lóninu þar yfir í Lagarfljót. Þetta voru erfiðir verksamningar sem ég fékk að sinna með verkfræðingnum Jóhanni heitnum Kröyer, móðurfrænda mínum frá Hrísey. Dómarastörfin áhugaverð Hvað kom til að þú yfirgafst lögmannsstarfið fyrir dómarasæti? Við Benedikt Blöndal skólabróðir minn fengum báðir þá bakteríu á 9. áratugnum að stefna á að verða dómarar í Hæstarétti. Benedikt fékk skipun á undan mér en á sama tíma vantaði dómara vegna veikinda og ég var settur dómari frá 20. febrúar til 30. júní 1988. Þegar áfram vantaði dómara tímabundið sagðist ég ekki geta verið lengur frá lögfræðistofunni og þá var Haraldur Henrýsson settur tímabundið. Hann hafði áður verið í sakadómi og stuttu síðar, þegar staða losnaði, var hann svo skipaður. Þegar Magnús Thoroddsen sagði af sér þá var ég skipaður dómari í hans stað. Það var sárt að þurfa að taka við af honum, en Gaukur Jörundsson skólabróðir okkar beggja sagði að ég yrði bara að bíta á jaxlinn. Svo þarf ég að nefna að Arnljótur B jörnsson prófessor, enn einn skólabróðir okkar, var heimavanur í Hæstarétti sem varadómari og var að lokum skipaður í réttinn skömmu á eftir mér. Þá vorum við orðnir fimm stúdentar frá MR 1954, sem urðu dómarar við Hæstarétt og hlýtur það að vera met. En við sátum þar ekki allir á sama tíma og kannski taldist það til þjóðarheilla, þó að við hefðum verið ágætir saman – ekki alltaf sammála, en með virðingu hver fyrir öðrum. Hvernig fannst þér að vera dómari í samanburði við lögmannsstörfin? Mér fundust dómarastörfin áhugaverð og ábyrgðarmikil og ég held að reynsla mín af lögmennskunni hafi haft jákvæð áhrif á störf mín. Þannig var mér auðvelt að líta á málsaðila sem skjólstæðinga, er sinna þyrfti af samviskusemi og virðingu. Meðal starfa hæstaréttardómara var að vera við innsetningar forseta Íslands. Hjörtur og Nanna Þorláksdóttir prúðbúin við síðustu innsetningu Vigdísar Finnbogadóttur 1992.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.