Lögmannablaðið - 2024, Blaðsíða 24

Lögmannablaðið - 2024, Blaðsíða 24
24 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/24 Kanadastyrkinn og sumpart var það vegna góðra meðmæla frá Ármanni Snævarr sem ég fékk hann. Skemmtilegur kennari hafði áhrif Ég var þá kominn með fjölskyldu en elsti sonur okkar Nönnu, Torfi, var fæddur og þau fóru með mér út til Toronto þar sem ég settist í endurskipulagða lagadeild háskólans. Þetta var góður tími en það var nýbúið að stofna Íslendingaklúbbinn „Toronto Icelandic Club“ sem að miklu leyti var skipaður konum sem höfðu flutt þangað með eiginmönnum sínum sem þær höfðu kynnst á stríðsárunum hér heima. Ein þeirra var Þóra Hallgrímsson Fawdry, dóttir séra Friðriks dómkirkjuprests. Hún reyndist okkur litlu fjölskyldunni afar vel og okkur þótti mjög vænt um hana. Ég fór út með það í huga að afla mér meiri þekkingar í félaga- og viðskiptarétti en svo vildi til að deildarforseti lagadeildar, Cecil B. Wright, var einn fremsti sérfræðingur Kanada í skaðabótarétti og einkar skemmtilegur kennari. Það varð til þess að ég tók skaðabótaréttinn inn í dæmið og ákvað að skrifa lokaritgerðina á því sviði. Í breskum rétti hafði dómur frá 1921 lengi verið talinn eitt helsta fordæmið um það hvaða afleiðingar slyss væru bótahæfar, en nýlega hafði House of Lords kveðið upp dóm sem gekk í gagnstæða átt. Ætlunin var að gera samanburð á þessum dómum og áhrifum þeirra, en í reynd var þetta opið verkefni sem ég fór alltof langt með. Svo var ég kominn heim í krefjandi starf og náði aldrei að ljúka við ritgerðina. Hér við bættist að Wright deildarforseti var orðinn alvarlega veikur og átti skammt ólifað. Þegar ég spurði hvernig honum litist á efnið sem ég hafði þá sent honum svaraði hann einfaldlega: „Just keep up the good work.“ Það urðu síðustu skilaboðin okkar í milli. Þú varðst löggiltur skjalaþýðandi í ensku, hvers vegna sóttir þú þér þau réttindi? Þegar ég kom heim fór ég að vinna við samninga þar sem verulegur hluti vinnunnar var að semja hliðsetta texta á ensku og íslensku og svo voru líka viðskiptaskilmálar sem þurfti að þýða á íslensku, m.a. fyrir IBM. Þessi lögfræðivinna á tveimur tungumálum varð til þess að það lá beint við að öðlast þessi réttindi og það styrkti mína stöðu. Örlagaríkt símtal Í lögmannsstörfum þínum komstu mikið að samningagerð vegna stóriðjuframkvæmda í árdaga þeirra á Íslandi, s.s. álvers ÍSALs í Straumsvík, Kísilgúrverksmiðjunnar við Mývatn og Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Hvað kom til að leitað var til þín? Þegar ég var nýkominn frá Kanada var til athugunar að stofna olíuhreinsunarstöð hér heima og Eyjólfur Konráð, yfirmaður minn, var áhugasamur um það verkefni, og jafnframt tengdist það verksviði Stóriðjunefndar, sem Jóhannes Nordal veitti forystu. Jóhannes sá að ég var vel ritfær á ensku auk þess sem námið frá Kanada nýttist vel. Í ársbyrjun 1964 hringdi Jóhannes svo í mig og spurði hvort ég gæti tekið að mér að vinna við samningsgerð um virkjun Þjórsár við Búrfell með láni frá Alþjóðabankanum og orkusölu til álvers, í framhaldi af starfi Stóriðjunefndar að því máli. Í desember 1964 var svo haldinn viðræðufundur í Zürich með forstjórum Alusuisse, sem gaf jákvæð fyrirheit. Fulltrúar Íslands þar voru Jóhannes Nordal, Eiríkur Briem forstjóri Rarik og Steingrímur Hermannsson þá framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs ríksins, og við Gunnar Sigurðsson verkfræðingur tókum þátt, til aðstoðar og fróðleiks. Jóhann Hafstein iðnaðarráðherra féllst á það eftir fundinn að samningsgrundvöllur gæti verið í sjónmáli, og skipaði hann þá þremenningana í samninganefnd, með okkur Gunnar að aðstoðarmönnum. Þetta símtal hefur markað starfsbraut þína? Jú, þetta voru umfangsmikil verkefni og urðu til þess að ég varð „utanhúss“ lögmaður Landsvirkjunar, Rarik og iðnaðar- ráðuneytisins í kjölfarið. Heildarlega urðu áhrifin þau að starfstími minn fór meira í samningsgerð og ýmsa aðstoð við skjólstæðinga en í málflutning fyrir dómstólum. Ég á margar góðar minningar um fólk og fyrirtæki sem leituðu til mín, en einnig fékk ég tækifæri til að flytja áhugaverð dómsmál, stór og smá. Þú varst lögfræðilegur ráðunautur Landsvirkjunar í áratugi. Hvað kom til að þú tókst aftur við þeim störfum þegar þú hættir í Hæstarétti? Þegar ég hætti dómarastörfum vildi þannig til að Landsvirkjun var að byrja undirbúning Kárahnjúkavirkjunar og í gangi voru viðræður við Norsk Hydro um að byggja álver fyrir austan. Feðgar í framkvæmdum. Hjörtur með föður sínum, Torfa Hjartarsyni, við sumarbústað fjölskyldunnar á Ísafirði á fjórða áratugnum.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.