Lögmannablaðið - 2024, Blaðsíða 6

Lögmannablaðið - 2024, Blaðsíða 6
6 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/24 SÓLARFÁRVIÐRI – SÓLARSAMVISKUBIT Það var fastur liður í æsku minni að ömmusystir mín, mikil garðyrkjukona, lýsti því yfir einhvern tímann um miðbik júnímánuðar að blómin í garðinum væru byrjað að fella blöð og það væri komið haust. Yfirlýsingunni fylgdi jafnframt langar lýsingar á heimskautaveðurfari reykvísks sumars sem færi ekki vel í viðkvæman evrópskan garðagróður. Svona þegar betur var að gáð var þetta ástand í garðinum ekki sérlega skrýtið þar sem þessi frænka mín hélt aðallega upp á vorlauka sem blómguðust í sumarbyrjun en minna var af gróðri sem blómstraði síðsumars. Mér verður stundum hugsað til þessarar góðu frænku minnar þegar júnímánuður er sólsnauður eins og oft vill verða hér á suðvesturhorninu. Það er nánast fastur liður eins og dauðinn og skattarnir sem og umræðan sem skapast í samfélaginu um að það sé óbyggilegt á þessu útskeri. Í sjálfu sér skiptir þetta okkur sem sinnum innivinnu minna máli en aðra. Það er nefnilega þannig á Íslandi þessa fáu daga þegar sólin skín og það er virkilega gott veður að yfir okkur hellist risastórt FOMO eða sólarsamviskubit að vera ekki úti að njóta góða veðursins. Enda er Ísland líklegast eitt fárra landa í heiminum þar sem atvinnurekendur gefa stundum sólarfrí og loka snemma á sumrin ef veðrið er sérstaklega gott. Sólleysi í júní ætti því ekki að skipta okkur lögmenn höfuðmáli þegar tekið er til og lokið ýmsum verkefnum fyrir réttarhlé og áður en sumarleyfi hefst. Hér á síðum Lögmannablaðsins fjöllum við um ýmis sameiginleg málefni lögmannastéttarinnar og vinnuaðstæður þ.m.t. kannanir sem gerðar eru á vegum félagsins þar um. Flestar eiga þær sammerkt að lögmenn telja álag í starfi vera of mikið og starfið sé ekki bara unnið á dagvinnutíma. Þegar betur er gáð eru þessir þættir starfsins ákveðinn kostur þessa örfáu daga sumars þegar á brestur með sólarfárviðri. Kostur lögmennsku er sá að það er skilafrestur verkefnisins sem almennt stjórnar störfum okkar en ekki á hvaða tíma eða hvar verkið er unnið. Meðan ekki eru fyrirtökur í dómi, fundir eða skilafrestir er því oft hægt á sumrin að hnika til vinnutíma til þess að skjótast einn golfhring, í sund, eða sitja á kaffihúsi og finnast um skamma hríð maður vera staddur einhvers staðar sunnar á jarðarkúlunni en hér. Í því felst ákveðinn sveigjanleiki sem er innbyggður í störf lögmanna. Kannski eru lögmenn því minna þjakaðir af sólarsamviskubiti en aðrar starfstéttir sem verða að sinna störfum sínum á staðnum og hafa ekki þennan sveigjanleika? Með það í huga óskum við í ritstjórn Lögmannablaðsins ykkur öllum gleðilegs og ekki síður sólríks sumars. ARI KARLSSON RITSTJÓRI

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.