Goðasteinn - 01.09.2003, Síða 52
Goðasteinn 2003
Fjárkaupaferð til Vestfjarða haustið 1953
Haustið 1953 fóru átta menn undan Eyjafjöllum til fjárkaupa á Vestfjörðum
vegna fjárskiptanna, tveir þeirra fóru frá Reykjavík með skipi vestur og keyptu
svo lömb í Hólshreppi og Súgandafirði. Það voru þeir Einar Jónsson í Moldnúpi
og Einar Oddgeirsson í Eyvindarholti, Einar í Moldnúpi fór síðan með lömbin
sem þeir keyptu á skipi til Stykkishólms en þaðan voru þau flutt á bílum austur.
Ætlunin hafði verið að fara með þau til Reykjavíkur en vegna þess hversu
sjóveður var slæmt þótti það ekki fært, enda voru þau í slæmu ástandi þegar þau
voru sett á land í Stykkishólmi. Hinir sex fóru á bílum vestur að ísafjarðardjúpi,
það voru Björn Gissurarson Drangshlíð, Eyjólfur Þorsteinsson Hrútafelli, Árni
Jónasson Ytri-Skógum, Leifur Einarsson Nýjabæ, Kjartan Ólafsson Eyvindarholti
og sá er þetta ritar, Guðjón Ólafsson Syðstu-Mörk.
Kaupin fóru fram seinni hluta september á þeim tíma sem fyrstu réttir voru
haldnar. Réttirnar voru viku seinna sumstaðar á svæðinu, þess vegna tóku kaupin
og flutningarnir lengri tíma en annars hefði þurft að vera, hefði alls staðar verið
smalað og réttað á sama tíma.
Við ókum vestur laugardaginn 19. september á tveimur Willisjeppum, ég ók
öðrum en Árni í Skógum hinum. Við fórum um Þingvelli, Uxahryggi, Bröttu-
brekku, Gilsfjörð og Þorskafjarðarheiði. Vegir voru víða slæmir, ekki síst á
Þorskafjarðarheiðinni og því seinfarið, það var nú raunar varla hægt að segja að
þar væri vegur heldur grýttir troðningar. Við komum að Arngerðareyri um
dimmumótin, lengra varð ekki komist á bílunum. Að vísu var þá orðið bílfært að
Eyri við ísafjörð en það var bara úrleiðis að fara þangað þó að þar byrjaði nú samt
svæðið sem við máttum kaupa lömbin á.
Á Arngerðareyri fengum við gistingu og biðum þar, þar til síðari hluta næsta
dags en þá kom Páll í Þúfum þangað á mótorbát sem hann hafði fengið leigðan
frá Isafirði til þess að flytja okkur þangað sem við áttum að byrja að kaupa eða
réttara sagt í námunda við þá staði. Þaðan urðum við svo að ganga þangað sem
fjákaupin skyldu byrja.
Arngerðareyri var á þessum tíma einskonar samgöngumiðstöð fyrir Inndjúpið
og þá sem fóru með bifreiðum frá Djúpinu til annarra landshluta. Þaðan voru
áætlunarferðir rútubíla til Reykjavíkur sem voru í tengslum við áætlunarferðir
Djúpbátsins, þar var bryggja og þar hafði verið verslunarútibú frá verslun á
Isafirði, bóndi á Arngerðareyri var Halldór Jónsson.
Meðan við biðum eftir Páli og bátnum ræddum við um hvernig heppilegast
væri að standa að kaupunum, ekki síst hrútakaupunum. Við vissum að féð var
misjafnlega vel ræktað á svæðinu. Þarna var búið að kaupa líflömb áður í nokkur
-50-