Goðasteinn - 01.09.2003, Page 142
Goðasteinn 2003
Snorra í Skáldskaparmálum Eddu, og í málfræðiritgerðunum. Verk þeirra hafa því
verið stúderuð í skólum.
Snorri var ungur settur í fóstur í Odda. Fóstur á þeim dögum virðist merkja það
sama og vera settur í nokkurs konar heimavistarskóla. Má nefna fóstur Sturlu
Sighvatssonar og Arons Hjörleifssonar í Hítardal hjá Þorláki Ketilssyni, lærðum
manni;[12] fóstur sona Þorgils Oddasonar hjá lærðum mönnum, m.a. hjá Sæmundi
Sigfússyni í Odda.|I3] Fóstri jafngildir oft kennara; eins og fóstri Ara fróða og
Guðmundar góða. Menntun var fjárfesting til framtíðar, svo notuð séu orð okkar
daga, og þannig var því háttað á miðöldum. Vegna þess að menntun var aðeins á
færi fárra, varð hún enn dýrmætari og umbreyttist í nokkurs konar stöðutákn,
aðgreindi yfirstéttarmenn og klerka frá alþýðu manna. Vert er að geta þess að þó
að menn hafi lært í skólum og þar með lært að lesa, er ekki þar með sagt að þeir
hafi lært að skrifa. Skriftarkunnátta og bókagerð var sérstök íþrótt og þeir sem
sömdu bækur eða settu þær saman úr ýmsum áttum, eins og sagt er að Snorri hafi
gert í Uppsalahandriti Snorra Eddu, sátu ekki endilega sjálfir við skriftirnar.
Eins og áður er vikið að var aðalnámsgreinin í skólunum grammatica. A henni
byggðist allt frekara nám. Námsmennirnir numu hið latneska mál og síðan mál-
skrúðsfræði í ljósi dróttkvæðanna og þar með lærðu þeir að yrkja. Snorri hefur því
orðið skáld í Odda, lært undirstöðuatriði íþróttarinnar. Þannig urðu fleiri skáld til.
Svo var alveg fram á nítjándu öld, að stúdentar í skólum lærðu að binda orð í
hætti kveðskapar, jafnvel þó að þeir kæmust ekki á listrænt flug. En þeir lærðu
handverkið. Svo var einnig á miðöldum. Það er því rökrétt að upp spretti ný
tegund af skáldum á íslandi á tólftu og þrettándu öld, en það voru skólaskáldin,
höfðingjarnir sjálfir. í Sturlungu er ekki einasta vitnað í kvæði eftir skáld úr næsta
hópi höfðingjanna, heldur til höfðingjanna sjálfra. Sumir þessara manna eru
hirðskáld, eins og Gissur Þorvaldsson og Snorri sjálfur, en aðrir yrkja einungis
heima á Islandi.
Jafnvel þó að við gerurn okkur grein fyrir þessum sérstöku aðstæðum í menn-
ingunni er ekki þar með sagt að skáld hafi ekki orðið til utan skólanna. Raunar er
hægt að gera ráð fyrir því að skáldskapurinn hafi áfram gengið mann fram af
manni, eins og verið hafði í munnlegu samfélagi. Um þetta vantar vitaskuld heim-
ildir, eins og svo margt annað. Þrátt fyrir að skólar séu stofnaðir, eru aðeins fáir
útvaldir teknir þar inn, hin munnlega mennt er því áfrarn lifandi í samfélaginu. En
nýjar aðstæður skapast á tólftu öld, dróttkvæðin eru tekin í þjónustu skólanna og
þar með þeirra sem búa við forréttindi í samfélaginu. Dróttkvæðin höfðu frá önd-
verðu verið miðill hirðarinnar, eins og nafnið gefur til kynna, en á miðöldum
víkkar sviðið og Islendingar taka að yrkja kvæði fyrir sig sjálfa. Glæsilegasta
dæmið varð til í Odda á dögum Jóns Loftssonar, kvæðið Noregskonungatal, ein-
mitt á þeim tíma sem Snorri dvaldi á staðnum.
-140-