Goðasteinn - 01.09.2003, Blaðsíða 192
Látnir 2002
Goðasteinn 2003
slysförum 10 ára gamall árið 1968, og Reynir er búsettur í Brekkugerði, kvæntur Jónu
Maríu Eiríksdóttur. Oddur hlaut í vöggugjöf létta lund og lífsgleði senr einkenndi hann til
hinstu stundar. Hann ólst upp við ástríki foreldra og systkina, sem hann mat afar mikils
alla tíð, tápmikill, fríður sýnum, bjartur og broshýr löngum, og lífgaði upp á umhverfi sitt
með góðri návist sinni. Hann ólst upp við venjubundin bústörfin og tengdist æsku-
stöðvum sínum á Heiði sterkum tilfinningaböndum sem aldrei rofnuðu.
Oddur lærði bifvélavirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík og lauk sveinsprófi 1980. Hann
kvæntist hinn 28. júní það ár Lovísu Björk Sigurðardóttur, dóttur Sigrúnar Ólafsdóttur og
Sigurðar Óskarssonar á Hellu. Þau tóku við búi af foreldrum hans á Heiði 1981 og
bjuggu þar næstu níu árin í góðu samfélagi við Svövu og Þorstein. Þau afréðu að bregða
búi 1990 og fluttust þá að Hellu. Þau vistaskipti féllu Oddi vel, og næstu árin stundaði
hann ýmis störf, vann við bílaviðgerðir, var síðar verkstjóri í sláturhúsi og kjötvinnslu
Þríhyrnings í Þykkvabæ, var skálavörður sumartíma í Hvanngili og síðast hjá Flutninga-
þjónustunni á Hellu. Dætur Odds og Lovísu eru þrjár; hinar tvær eldri uppkomnar;
Hjördís Rún sem búsett er í Reykjavík og í sambúð með Arnari Gústafssyni, Anna María
sem á heima á Hellu, og yngst Kolbrún Eva, 6 ára. Oddur og Lovísa skildu árið 1999, en
héldu áfram gagnkvæmu vináttusambandi, sem var Oddi mikill styrkur í veikindum hans,
en þetta sama ár veiktist hann af krabbameini og gekkst undir erfiða skurðaðgerð og
lyfjameðferð í kjölfarið. Hann náði allgóðum bata og komst til starfa á ný, dyggilega
studdur af fjölskyldu sinni og góðum vinum, sem styrktu hann einnig með fjársöfnun og
héldu honum fertugsafmæli sem varð honum ógleymanlegt, sem og líka allur sá
stuðningur sem honum féll í skaut, jafnt frá skyldum sem vandalausum, er færði honum
mikinn andlegan styrk. En aldamótaárið færði Oddi líka fleira en fertugsafmælið og
góðar batahorfur, því það sumar lágu saman leiðir þeirra Ingibjargar Guðmundsdóttur,
dóttur Þórunnar Sigurðardóttur frá Kastalabrekku og Guðmundar Agústssonar frá
Stórahofi. Þau fylgdust að síðan, og þegar heilsu Odds tók að hraka á ný um mitt ár 2001,
reyndist Ingibjörg honum ómetanleg stoð, líknargjafi og huggari. Þau gengu í hjónaband
6. apríl 2002 á 42ja ára afmæli Odds og síðasta spölinn gekk Ingibjörg með honum uns
yfir lauk. Börnum Ingibjargar af fyrra hjónabandi, þeim Evu Ýri, Eyrúnu Ösp og Aroni
Frey sýndi Oddur föðurlega umhyggju og kærleika. Oddur var mikið náttúrubarn að
eðlisfari og félagsvera. Einvera lét honum illa en að sama skapi naut hann sín vel í hópi
góðra vina á fjöllum uppi. Hann gekk ungur til liðs við Flugbjörgunarsveitina á Hellu og
var ötull liðsmaður hennar í mörg ár, vakinn og sofinn yfir bættri aðstöðu, búnaði og
tækjum. Hann sat í stjórn sveitarinnar 1991-2000, gegndi þar öllum trúnaðarstörfum og
formennsku síðasta árið.
Oddi var frá unga aldri sýnt um að láta gott af sér leiða. Fengu margir vinir hans og
vandamenn að reyna hann að umhyggu og hjálpsemi, og hvarvetna ávann hann sér traust
og vinsældir samstarfsfólks síns. Hann var tryggur vinum sínum og frændrækinn, og
sterk taugin er dró hann til föðurtúnanna, þótt hann hyrfi á sínum tíma frá búskap þar.
Þeim mun meiri rækt lagði hann við sumarhúsið sitt í Heiðarlandi sem hann nefndi
Myllubæ. Þar áttu þeir Sigurður tengdafaðir hans ófá handtökin við byggingu þess, sem
-190-