Goðasteinn - 01.09.2011, Page 64
62
Goðasteinn 2011
Á bakaleiðinni skall á hellirigning og svartaþoka svo að ekki sá út úr augum en
Holland segir að þeir hafi þrátt fyrir það verið öruggir í umsjón leiðsögumanns
síns Brandssonar og verið komnir aftur í Næfurholt um miðnætti.
ferðalangarnir gengu svo á Heklu næsta dag í sól og blíðskaparveðri en áður
en þeir náðu upp á syðsta hnjúkinn lentu þeir í skýjaþykkni sem var að safnast
að fjallinu og dró úr útsýninu. Í dagbókinn segir: „Þokan tafði mjög ferð okkar,
einkum vegna þess, að leiðsögumaður okkar hafði aldrei gengið á fjallið og var
því algerlega ókunnugur leiðinni.“ (Holland 1960, 236-237) Hann sagði þeim
þó ekki frá því fyrr en þeir settust niður til að kasta mæðinni áður en þeir klifu
tindinn. fjallkóngurinn hafði sem sagt aldrei farið alla leið upp þótt hann væri
þaulvanur að ferðast um óbyggðirnar, en allt gekk þetta vel og þeir sneru til
baka heilu og höldnu. Þó brást ratvísi hans í þokunni í Hekluhlíðum á leiðinni
niður. Þeir fundu ekki leiðina sem þeir höfðu komið og þurftu í staðinn að
klöngrast yfir úfið hraun.
Það er gaman að velta því fyrir sér hvers vegna Jón þekkti sig ekki betur
þarna uppi. Var það vegna þess að fólki stóð stuggur af fjallinu, eða var það
einfaldlega vegna þess að hann hafði aldrei átt neitt erindi þangað fyrr, þar sem
ekki þurfti að smala hraunið ofan til í Heklu?
Af því hér hefur verið fjallað um trú á drauga og útilegumenn er athyglisvert
að daginn fyrir Heklugönguna, þegar ferðamennirnir voru inni við tungnaá,
benti Jón inn á Sprengisand og sagðist aldrei hafa farið lengra í þá átt. Af
dagbókinni má ráða að hann hafi útskýrt að margt hamlaði ferðum þangað,
einkum þó skortur á bithögum fyrir hross en í framhaldi af því segir Holland
að auðvelt sé að skilja hjátrú fólks þegar horft sé inn á auðnina, jafnvel úr svo
mikilli fjarlægð. Greinilegt er að þarna hefur verið talað um útilegumenn en
ekki er ljóst hvað Jón hefur beinlínis sagt. Mackenzie segir (1811, 253) að
svæðið milli Heklu og Kröflu sé óþekkt eyðimörk sem enginn komist yfir og
að fólk trúi enn þeirri fáránlegu sögu að á svæðinu sé samfélag ræningja. Hann
veltir því fyrir sér hvort slíkt fólk hafi einhvern tíma verið þarna og hvort það
hafi gert sér grein fyrir óttanum sem það olli og hvers vegna það hafi ekki
fundið sér þægilegri heimkynni en í dagbókina hefur Holland skrifað:
Þessi víðáttumiklu öræfi í miðhálendi Íslands eru landsmönnum
sjálfum ókunn með öllu. Þó er það almennur orðrómur, að þar búi
fólk, sem sé mjög ólíkt byggðafólkinu. Þessum sögnum er trúað
af grandvörum og gáfuðum mönnum, enda þótt öll atvik í þeim
séu hin ósennilegustu. Sagnirnar snúast einkum um það, að ofan
úr öræfunum hafi komið menn, annaðhvort til að forvitnast um