Goðasteinn - 01.09.2011, Page 213
211
Goðasteinn 2011
Árið 1954 fluttist hún til Eyrarbakka, vann um skeið í frystihúsinu og réði
sig síðan sem ráðskonu til einars Kristins Jónassonar rafvirkja og þúsundþjala-
smiðs í Garðshúsum. Þau kynni leiddu til hjónabands og var sambúð þeirra afar
farsæl. Kristinn var fæddur 21. júní 1897 en andaðist þann 31. mars 1973.
Eftir að Kristinn andaðist fluttist Þórunn aftur austur og keypti hér hús að
Hvolsvegi 14 á Hvolsvelli og hóf störf á Saumastofunni Sunnu og vann þar,
uns hún lét af störfum fyrir aldurs sakir. Sú vinna átti vel við Þórunni enda
var hún sérlega vel að sér gjör í höndum og vandvirk, hreint og beint listfeng, -
fatasaumur og hannyrðir hvers konar voru hennar áhugamál, dúkar, hanskar og
vettlingar, hvert plagg listaverk, - allt svo fínlegt og vandað að hvergi sá hnökra
á. Þannig voru líka jólakortin hennar. Þau voru ekki aðeins einfaldar kveðjur,
heldur heilu sendibréfin, skrifuð með hennar fallegu rithönd.
Þó Þórunn ætti enga afkomendur sjálf, þá átti hún stóra fjölskyldu og skip-
aði mikilvægan sess innan hennar sem hún „tóta frænka“. Hún átti hvert bein
í systkinabörnum sínum og fólkinu sínu, og þau öll í henni. Hún laðaði að, var
vinamörg og vinaföst og hlúði að og nærði vina- og fjölskyldubönd.
Hún var alltaf vel klædd og vel til fara, örlát og gjafmild við aðra. Og kunni
þá list -að njóta stundarinnar. Jólaboðin hennar á árum áður hafa greipst í minn-
ingu fjölskyldunnar allrar. Hún hafði ákaflega gaman af að ferðast og naut þess
að ferðast bæði innanlands og á erlendri grundu og kynnast framandi þjóð-
um og menningarsiðum og átti margar góðar minningar úr eftirminnilegum
feðalögum í góðra manna hópi. Þórunn fylgdist vel með í dagsins önn og allri
þjóðmálaumræðu, var ljóðelsk bókelsk og minnug og með á nótunum til hinstu
stundar.
Hún var ein af þremur fyrstu sem fluttu að Kirkjuhvoli þegar hann reis árið
1986. Þá hafði hún gefið Kirkjuhvoli húsið sitt til að leggja sitt að mörkum til að
þetta heimili aldraðra á Hvolsvelli yrði að veruleika. Og þar bjó hún til æviloka,
fyrst í góðri íbúð þar sem hún gat haft alla sína hentisemi, síðan fluttist hún nær
hjúkrunarrýminu eftir því sem aldurinn færðist yfir og þrótturinn þvarr. Þar
andaðist hún þann 7. febrúar 2010. Útför hennar fór fram frá Breiðabólsstað-
arkirkju 13. febrúar 2010.
Sr. Önundur S. Björnsson