Goðasteinn - 01.09.2010, Page 136
134
Goðasteinn 2010
skugga um, hvort öruggt væri að hann ætlaði að sækja um Odda og fór því heim
til hans, en þegar ég kvaddi þar dyra var hann ekki heima. Konan hans kom til
dyra og ég sagði henni erindið. Hún svaraði mér því, að Emil ætlaði að sækja
um Akranes. Ég varð ekki undrandi á því. Emil hafði hlotið hæstu einkunn í
predikun á prófinu, 15 stig af 16 mögulegum. Ég lét þess getið við frúna, að ég
hefði ekki ætlað mér að sækja um Odda á móti Emil. Hún taldi þá, að ég hefði
ekki þurft að draga mig í hlé vegna Emils, hann hefði bara náð kosningu, eins
og hún orðaði það. Ég fór ánægður af fundi hennar. Ég var þá samstundis viss
um, hvað ég ætlaði að gera. Ég sótti um Odda. Aðrir, sem það gerðu, voru þeir
sr. Yngvi Þórir Árnason, sem þá var prestur í Árnesi á Ströndum, og sr. Valgeir
Helgason, prestur á Ásum í Skaftártungu.
Nú kom að því að ég þyrfti að sýna mig þar eystra. Hvítasunnuhátíðin fór í
hönd snemma í júní. Ég ætlaði mér að fara norður til Akureyrar og heimsækja
foreldra mína og vera þar um hátíðina, en fá að predika í kirkjunum þar eystra á
trinitatis. Til þess að þetta gæti gengið eftir þurfti ég að tala við biskupinn, Hr.
Sigurgeir Sigurðsson, og arkaði því dag nokkurn, vestur á Öldugötu, um nón-
leytið þar, sem heimili og biskupsstofa voru þá í húsi, sem heitir Vesturhlíð.
Ég gekk þar upp á stigapall við útidyr og hringdi dyrabjöllu. Ég beið lengi á
pallinum eftir því að dyrum yrði lokið upp. Ég var í þann veginn að hringja öðru
sinni, þegar kona gekk inn um garðshliðið við húsið. Hún var fremur lág vexti
og af léttasta skeiði, vel klædd, í bláleitri kápu, með hatt á höfði. Hún gekk
rösklega upp stigaþrepin og upp á pallinn þar, sem ég stóð, en í sama mund og
hún kom var dyrum lokið upp, og hún gekk rakleitt inn á undan mér. Hún átti
erindi við biskupinn, og ég hlaut því að bíða, þar til hún lyki erindinu.
Að því kom, að mér væri vísað til stofu biskupsins. Ég bar þar upp erindi
mitt að fá að predika á kirkjum Oddaprestakalls á trinitatis og sagði ástæðu
þess, að ég hafði valið svo.
Biskupinn sagði þá að svo gæti ekki orðið, því að hann hefði verið að láta
þann dag í hendur sr. Yngva Þóris. Móðir hans hefði verið að ganga frá því, svo
að ég yrði að predika á hvítasunnuhátíðinni. Ég varð auðvitað að taka því.
Næst lá leiðin til sr. Erlends, þar sem hann vann á skrifstofu ríkisskattstjóra.
Erindið var að biðja hann um leiðbeiningu um það, hvar hugsanlegt væri, að ég
gæti fengið gistingu þar eystra, þegar ég færi til að skoða mig um og predika.
Hann benti mér á að hringja að Efrahvoli í Hvolhreppi og beiðast þar gistingar
hjá Páli Björgvinssyni og konu hans, Ingunni Ósk Sigurðardóttur. Þetta gerði
ég og fór strax þangað austur og var þar mjög vel tekið. Þetta var sennilega 10
dögum fyrir hvítasunnu. Þegar þangað var komið fór Páll að leggja mér til lífs-
reglur og vildi senda mig á sérstaka bæi. Hann útvegaði mér bíl og bílstjóra, en