Bændablaðið - 10.10.2024, Side 7
7Bændablaðið | Fimmtudagur 10. október 2024
Vígalegir nemendur, eða þeir Jakob Kristinsson (t.v.) og
Mikael Máni Oddsson, en allir nemendur voru gallaðir upp í
síðustu heimsókninni, sem var í Ártanga, til að koma í veg
fyrir að eitthvað krossbærist á milli stöðvanna. Nemendur
fengu líka skóhlífar.
Vísnahornið
Í tilefni þess að ritari varð 70
ára um daginn, barst frá Pétri
lækni á Akureyri þessi vísa.
Gakktu í elli gæfustig,
gerjist hjá þér eðallandinn
og aldrei geðdeyfð angri þig,
eða getuleysisfjandinn.
Reynir Hjartarson sendi
þessa:
Sjötugum sendist þér kveðja
seggurinn orðs og ljóða.
Megi þig gæðingar gleðja
og góðvinir ölföng bjóða.
Gylfi Þorkelsson sendi einnig
kveðju.
Ennþá er dágóður dugurinn
og drengslega vakandi hugurinn
Yrkir og temur.
Óvænt svo kemur
áttundi áratugurinn.
Til ritara barst lítill bæklingur
frá því 1930, en sá ber titilinn
Stuðlar. Höfundur er Kári S.
Sólmundarson.
Hér er þjóð á Fróni fróð,
fædd af góðu kyni.
Mín því bjóða mun ég ljóð
mörgum óðar vini.
Mælt við Símon Dalaskáld:
Símon fljóðum hýrum hjá
hróðrar fróðleik styður,
talinn slóðum ísa á
afbragðs ljóðasmiður.
Pálmi Frímannsson frá
Garðshorni á Þelamörk var
læknir, en lést um aldur
fram. Hann orti þessa ágætu
landbúnaðarvísu sem allir skilja:
Margur hefur Fróða hveitis farið
hryggur án,
sem fátækur af gulli til mín leitar,
en ormabeðjufurum er mér ljúft
að veita lán
úr lífsins banka, tjóðurhæli geitar.
Pálmi lék með kunnar hendingar
til gamans og prjónaði við.
Frakkir þingmenn fóru á stjá,
fyrir nokkrum dögum.
„Sá er jafnan endir á,
Íslendingasögum.“
En þótt mig vanti völdu og auð
vera ætti í lagi
„að sækja bæði sykur og brauð,
sitt af hvoru tagi.“
Vinur minn Eiríkur Jónsson lét
fljóta til Vísnahorns nokkrar frá
hagyrðingakvöldi í Skagafirði.
Spurt var um eiginleika sem
góðir hestamenn væru gæddir.
Pálmi Runólfs í Hjarðarhaga
svaraði:
Hann skal kunna á taumi taka,
týna aldrei vegi,
geta stigið beint á bak,
bæði á nóttu og degi.
Sigurður Hansen sagði:
Enga lesti iðka kann,
er í flestu glaður.
Sæmir best ef söngvum ann
sannur hestamaður.
Sr. Hjálmar Jónsson svaraði.
Fyrir herðar, háls og bóg,
höfuð, bak og lendar,
varla eru níu nóg,
náist saman endar.
Umsjón: Magnús Halldórsson
mhalldorsson0610@gmail.com
Matreiðslunemar heimsóttu
garðyrkjubændur
Sölufélag garðyrkjumanna bauð matreiðslu-
nemendum í Menntaskólanum í Kópavogi í
heimsókn til garðyrkjubænda á Suðurlandi á
dögunum.
„Tilgangur ferðarinnar var að kokkanemar fengju
að kynnast ræktuninni frá fyrstu hendi, það er
að segja að fá fróðleik og kynningu frá okkar
garðyrkjubændum, sem eru virkilega ánægðir
að fá nemendur í heimsókn. Það var svo gaman
að finna hvað nemendurnir voru áhugasamir um
það sem fyrir augu þeirra bar. Þar sem þau eru í
kokkanámi hafa þau mikinn áhuga á mat og allt sem
tengist honum. Vilja smakka á öllu og læra meira,“
segir Kristín Linda Sveinsdóttir, markaðsstjóri hjá
sölufélaginu.
Hópurinn heimsótti sjö garðyrkjustöðvar en
farið var í Garðyrkjustöðina Kinn í Hveragerði,
Garðyrkjustöðina Heiðmörk í Laugarási,
Flúðasveppi og einnig í útigarða Jörfa við
Hvítárholt, Friðheima í Reykholti og svo var
endað á Garðyrkjustöðinni Ártanga í Grímsnesi.
Kristín Linda segir að það hafi verið mikil
ánægja með ferðina.
„Það kom þeim á óvart hversu umfangsmikil
íslensk grænmetisræktun er og hversu flókið
það getur verið að rækta grænmeti til að geta
fengið góða og mikla uppskeru. Það er okkur
mikil ánægja að eiga svona gott samstarf við
skólann og geta átt kost á að fræða og kynna
okkar starfsemi fyrir nemendur.“ /mhh
Vilberg Darri Gunnarsson (t.v.) og Tómas Andri Jörgensson voru ánægðir með nýuppteknu gulræturnar.
Nemendur Menntaskólans í Kópavogi saman komnir í grænmetisgarði með ferskt og fallegt grænmeti,
alsælir með heimsóknir sínar til garðyrkjubænda. Myndir / Aðsendar
Nemendur fengu að taka upp grænmeti í útigarðinum í Hvítárholti hjá
Jörfa í Hrunamannahreppi.
Hlynur Sigurbergsson hjá Garðyrkjustöðinni Kinn í Hveragerði er hér að fræða
nemendur um starfsemi stöðvarinnar.
Margrét Lilja Jónsdóttir og Kristján Ragnar Waagfjörð Stefánsson með fullt fangið af nýjum íslenskum gulrótum.
Nemendur fengu að taka með sér fullan
kassa af útiræktuðu grænmeti frá Jörfa til
að prófa að matreiða með. Flúðasveppir eru vinsælt fyrirtæki, sem alltaf er
gaman að heimsækja og fræðast um starfsemina
og það klikkaði ekki í heimsókn nemendanna.