Bændablaðið - 10.10.2024, Síða 16
16 Fréttir Bændablaðið | Fimmtudagur 10. október 2024
Strandir:
Bændur byggja rétt
– Allir sem vettlingi gátu valdið lögðu hönd á plóg
Heimafólk smíðaði nýja rétt í Kollafirði og var hún vígð með fyrstu réttum síðla september. Réttin stóðst væntingar
og gott betur. Mynd / Sveinn Ingimundur Pálsson
Bændur í Steinadal á Ströndum stóðu að byggingu
nýrrar réttar í Kollafirði og var réttað í henni í fyrsta
sinn 22. september sl.
Kollafjarðarrétt stendur í landi Litla-Fjarðarhorns. Í
upphafi var, að sögn Þorgeirs Pálssonar, sveitarstjóra í
Strandabyggð, leitað eftir ábendingum bænda á svæðinu
varðandi staðsetningu og fyrirkomulag nýrrar réttar.
Komið hafi góðar ábendingar frá bændum í Miðhúsum
og Stóra-Fjarðarhorni, meðal annars um staðsetningu
réttarinnar í landi Litla-Fjarðarhorns, ekki langt frá
þjóðveginum. Var því leitað til landeigenda þar, sem
veittu góðfúslega leyfi fyrir réttarsmíðinni.
Steinadalsbændur tóku verkefnið
Þegar ákveðið hafði verið að byggja rétt var auglýst eftir
einhverjum sem vildi taka slíkt að sér en ekki bárust
raunhæf tilboð, að sögn Þorgeirs.
Þá buðust Steinar Þór Guðgeirsson og Ástríður
Hjördísar Gísladóttir, bændur í Steinadal, til að taka
verkefnið að sér og var tíminn þá orðinn nokkuð naumur
fyrir komandi réttir. Þau fengu vaskan hóp fólks í lið með
sér og studdust við sömu teikningu og rétt í Staðardal
er gerð eftir. Um gerð púðans undir réttina sáu einnig
bændur í sveitarfélaginu.
Segir Þorgeir Orkubúið hafa lagt til rafmagnsstaura
og krakkar í grunnskólanum fengu það hlutverk að mála
skilti með nafni réttarinnar. Starfsmenn sveitarfélagsins
komu að því að saga niður staurana, ferja efni út í
Kollafjörð og setja upp skiltið góða.
Unnið í kapp við tímann
Smíði réttarinnar var á köflum svolítið kapp við tímann
að sögn Þorgeirs, en með jákvæðni og mikilli vinnu
hafðist það. Gott hafi verið að finna þá samstöðu og
jákvæðni sem verði til þegar menn vilja sjá nauðsynleg
verkefni verða að veruleika. Það eigi sannarlega við í
þessu tilfelli.
Á fallegum haustdegi seint í september var svo réttað í
fyrsta sinn í hinni nýju rétt og var Steinar Þór réttarstjóri.
Segir hann réttarhaldið hafa gengið mjög vel og réttin
virðist standast allar væntingar. Ástríður tekur undir það
og bætir við að þau hjónin séu nýgræðingar í búskap og
hafi þarna verið í fyrsta sinn að fara í réttir og gengið
ljómandi vel.
Sveitarfélagið hefur staðið að byggingu þriggja
rétta undanfarið: Staðardalsréttar, Krossárréttar og nú
Kollafjarðarréttar. Öll þessi verkefni voru auglýst en
á endanum voru það bændur á svæðinu sem tóku gerð
réttanna að sér. /sá
Kollafjörður er stuttur fjörður á Ströndum. Næsti fjörður
norðan við er Steingrímsfjörður en sunnan við er
Bitrufjörður. Kort / Wikipedia
Ásahreppur:
Fyrirhuguð risaframkvæmd
Um 220 herbergja hótel, baðlón
og 165 smáhýsi er fyrirhugað að
rísi í Ásahreppi.
Fyrirtækið Steinar Resort
ehf. stefnir að því að byggja upp
fjölbreytta ferðaþjónustu á jörðinni
Ásmúlaseli, Ásmúla 1B og Ásmúla
1C skammt frá þéttbýli Hellu í
Rangárþingi ytra.
Sveitarstjórn Ásahrepps
bauð til opins kynningarfundar
fimmtudagskvöldið 3. október þar
sem fjölmargir íbúar mættu til að
hlusta á kynningu á verkefninu.
Mikil andstaða kom fram við
hugmyndina á fundinum og ekki
síst höfðu íbúar miklar áhyggjur
af mikilli umferð í kringum
starfsemina á sama tíma og
fjölmörg hrossaræktarbú eru í
næsta nágrenni við fyrirhugaða
uppbyggingu
Gert er ráð fyrir áfangaskiptri
uppbyggingu og að uppbygging
hefjist sumarið 2026. Borað verður
eftir vatni innan svæðisins. Um
áttatíu starfsmenn munu verða
ráðnir til að sinna rekstrinum
og er gert ráð fyrir allt að 55
starfsmannaíbúðum innan
svæðisins, þar sem föst búseta
verður heimiluð.
Steinar Resort ehf. vinnur
að sambærilegu verkefni undir
Eyjafjöllum á bænum Steinar 1.
Þar er gert ráð fyrir uppbyggingu
á svipaðri ferðamannaaðstöðu
þar sem gert er ráð fyrir um 200
herbergja hóteli við þjóðveginn.
Ekki kom fram á fundinum hver
kostnaður við verkefnið er. /mhh
Ein af myndunum sem var sýnd á íbúafundinum en á henni sést skipu-
lagssvæðið og hvernig það skiptist niður eftir eðli starfseminnar. Mynd / mhh
Alþingi:
Enn reynt að fá leyfi til
veiða á ágangsfuglum
Fimm þingmenn Framsóknar-
flokks og Sjálfstæðisflokks hafa
lagt fram þingsályktunartillögu
um leyfi til veiða á álft, grágæs,
heiðagæs og helsingja utan
hefðbundins veiðitíma.
Tillögur af þessu tagi hafa
verið lagðar fram á fimm síðustu
löggjafarþingum en ekki hlotið
brautargengi. Tillagan nú felur
í sér að umhverfis-, orku- og
loftslagsráðherra útbúi tillögur um
heimild til tímabundinna og skilyrtra
veiða fuglanna á kornökrum og
túnum á tilteknu tímabilum.
Veruleg fjölgun fugla
„Leyfin verði veitt á þeim
svæðum þar sem þörf er talin á
aðgerðum vegna verulegs ágangs
fugla á tún og kornakra“, segir
í þingsályktunartillögunni en í
henni felst einnig að ráðherra geri
stjórnunar- og verndaráætlun fyrir
álftir og gæsastofna á Íslandi.
Í greinargerð er sagt að álftir,
grágæsir, heiðagæsir og helsingjar
valdi miklu tjóni á túnum og
kornökrum. Álftin hefur verið friðuð
frá árinu 1913 en frá þeim tíma hefur
stofninn stækkað verulega. Um 1960
var hann um 3.000–5.000 fuglar en
núna er stofnstærð talin 34.000. Þá
sé stofnstærð heiðagæsar í sögulegu
hámarki, um 500.000 fuglar,
grágæsir um 60.000 og helsingjum
fer verulega fjölgandi.
Engar fyrirbyggjandi
aðgerðir fyrir hendi
Í fréttaskýringu Bændablaðsins frá
2023 um málefnið er vandræðum
bænda lýst sem vaxandi vandamáli.
Þeir bændur sem lenda í miklum
ágangi geta orðið fyrir talsverðu
tjóni; heymagn minnkar og verður
jafnvel ólystugt vegna mengunar,
kornbændur verða af uppskeru sem
vega þarf þá upp á móti með auknum
kaupum á innfluttu fóðri.
Þar kemur fram að þeir bændur
sem vilja afstýra tjóni vegna ágangs
fugla þurfi að gera það á sinn
kostnað. Ekkert kerfi styðji við
fyrirbyggjandi aðgerðir. Það eina
sem í boði sé er að tilkynna þegar
tjón hefur átt sér stað og sækja um
bætur en þær tjónagreiðslur skili
engum árangri.
Frá árinu 2019 hafa bændur
getað fengið greidda styrki vegna
tjóns vegna ágangs álfta og gæsa á
nýrækt, við endurræktun á túnum og
kornrækt og rækt annarra fóðurjurta
að undangengnu tjónamati sem í ár
þarf að skila til matvælaráðuneytisins
fyrir 20. október. /ghp
Stofnstærð heiðargæsar er í sögu-
legu hámarki. Mynd / Natalia Shiel
Bændablaðið kemur næst út
24. október