Bændablaðið - 10.10.2024, Side 21
21FréttaskýringBændablaðið | Fimmtudagur 10. október 2024
Ferli frávika
Þegar eftirlitsmaður Mast verður var
við frávik í skoðun sinni kemur hann
því á framfæri við umráðamann og
í skýrslu. Öll inngrip stofnunarinnar
í framhaldi verða að miða við
meðalhófsreglu stjórnarfarsréttar en
það felur í sér að stofnunin verður
alltaf að beita vægasta úrræði til að
ná fram úrbótum.
Þetta þýðir að áður en stofnunin
tekur ákvörðun um þvingunarúrræði
verður hún að hafa gengið úr skugga
um að ekki verði náð því fram með
vægara móti. „Öll okkar aðkoma að
bónda sem uppfyllir ekki kröfur fer
því stigvaxandi,“ segir Hrönn og
tekur almennt dæmi.
„Í eftirlitsskýrslu fær
umráðamaður dýra skráð frávik, ekki
alvarlegt. Honum er gefinn tiltekinn
tímafrestur til að lagfæra frávikið, en
sá frestur fer eftir alvarleika atviksins.
Þegar frestinum er lokið kemur
eftirlitsaðili aftur. Ef ekki er búið að
bæta úr er atriðið skráð sem alvarlegt
frávik og fær þá umráðamaðurinn
styttri frest til úrbóta. Ef viðkomandi
aðili sinnir ekki tilmælum í annað
sinn, þá förum við að beita þeim
þvingunarúrræðum sem við höfum.“
Á þessu stigi getur Matvælastofnun
látið framkvæma úrbætur á kostnað
eiganda, sem er stundum gert að sögn
Hrannar og nefnir hún dæmi um
klaufklippingar. Önnur leið væri að
beita dagsektum á umráðamanninn,
sem eru innheimtar á tveggja vikna
fresti þar til úrbótum er náð. Ef
umráðamaður sinnir því ekki hefur
Matvælastofnun leyfi til að beita
frekari þvingunum og refsingum.
„Það þarf því ýmislegt að hafa
gengið á áður en við förum að beita
þeim þvingunarverkfærum sem við
höfum. Því er það alls ekki þannig
að eftirlitsmaður geti labbað inn á
býli, séð brotna fjöl og farið að beita
dagsektum.“
Vanþekking algeng orsök
Í ársskýrslu MAST 2023 má finna
töflu sem sýnir hlutfall þeirra
eftirlitsatriða sem skoðuð eru sem
voru í lagi, ekki í lagi og fengu
því skráð frávik og svo hlutfall
alvarlegra og endurtekinna frávika.
Í langflestum tilfellum var niðurstaða
eftirlitsheimsóknar athugasemdalaus.
Alvarleg frávik voru skráð í 4,2
prósent tilfella í eftirliti með
nautgripabúum, 2,7 prósent atvika á
starfsstöðvum með hross, 2,5 prósent
hjá sauðfjárbúum og það sama hjá
alifuglum. Alvarleg frávik voru
skráð í minna en 1 prósent tilvika
á starfsstöðvum með svín og geitur.
Bændablaðið bað um upplýsingar
um hvers eðlis algeng frávik í
hverri búgrein væru. Í svari frá
Matvælastofnun segir að helstu
frávik sem skráð eru í eftirliti með
nautgripum snúa að þéttleika,
hreinleika gripa og legusvæða,
hópaskiptingu, klaufskurði, viðhaldi
á innréttingum og einstöku sinnum
hefur frávik verið skráð vegna
holdafars.
„Hófsperra vegna efnaskipta
sjúkdóma (of feit hross) og gömul
hross sem þrífast illa vegna veikinda/
elli eru algengustu alvarlegu frávikin.
Við rekumst oft á vanþekkingu
eigenda sem skilja ekki alvarleika
þessara mála og bregðast því illa
við,“ segir í svarinu. Þar segir einnig
að frávik í sauðfjárrækt snúi oftast að
holdafari, hópaskiptingu, klaufskurði
og rúningi.
Hjá alifuglum er algengasta frávik
um það að úrbætur hafi ekki verið
gerðar frá síðasta eftirliti. Einnig
hafi komið upp frávik vegna þess
að leyfilegur hámarksþéttleiki sé
ekki virtur í kjúklingaeldi. „Þess
vegna var á þessu ári endurskoðað
verklag um eftirlit með þéttleika í
kjúklingaeldi í sátt og samstarfi við
kjúklingabændur. Nýja verklagið
hefst að öllu óbreyttu í október,“
segir í svari Mast.
Ábyrgðin liggur hjá dýraeigendum
Hrönn Ólína segir meiri og breytt
umræða um dýravelferð og þar með
meiri meðvitund samfélagsins kalla
á áherslubreytingar á málefnasviðinu.
„Þetta sýnir kannski líka hörkuna
sem manni finnst vera í samfélaginu.
Við finnum fyrir því í umræðunni að
oft er farið miklu meira í manninn
en málefnið. Ég átta mig ekki á af
hverju, þetta á ekki eingöngu við
um landbúnað. Vissulega hafa verið
skrifaðar greinar á samfélagsmiðlum
um einstaka starfsmenn okkar en við
viljum reyna að draga einstaklingana
okkar út úr myndinni og koma fram
sem stofnun,“ segir Hrönn.
Enda er starfsfólk Mast að sinna
sínum lögbundnu verkefnum sem
fela í sér að ganga úr skugga um
að búfjáreigendur og umráðamenn
fari að lögum um dýravelferð. Í
því felst að aðbúnaður og lífsgæði
dýra standist lágmarkskröfur sem
tilteknar eru í skoðunarhandbókum
og reglugerðum.
Umráðamaður dýra ber ábyrgð
á að annast sé um þau í samræmi
við lög um velferð dýra. Öll meðferð
dýra er óheimil samkvæmt lögunum.
Í sömu lögum kemur fram að hver
sá sem hefur dýr í umsjá sinni skuli
búa yfir og afla sér grunnþekkingar
á þörfum og umönnun viðkomandi
dýrategundar og skal enn fremur
búa yfir nægjanlegri getu til að
annast dýrið í samræmi við lög.
Rekstraraðili leyfisskylds dýrahalds
skal sjá til þess að starfsfólk sem
sér um umönnun dýra búi yfir
nægjanlegri hæfni og þekkingu á
viðkomandi sviði.
Fræðsla en ekki ráðgjöf
Í eftirlitshandbók er farið yfir
framkvæmd skoðunar. Þar segir meðal
annars: „Skýringar á frávikum skal
skrá við viðeigandi skoðunaratriði.
Skrá skal hvað er athugavert en ekki
tillögur að lausnum.“ Hrönn segir að
eftirlitsaðilar geti sagt eftirlitsþegum
hverjar lágmarkskröfurnar eru en það
hvernig úrbæturnar eru framkvæmdar
sé utan verksviðs þeirra.
„Við eigum að stunda fræðslu
en ekki ráðgjöf og það er örlítill
eðlismunur þar á. Við segjum aldrei
hvernig eigi að bæta frávikin, því þá
erum við farin að stunda ráðgjöf. Við
megum vissulega leiðbeina, með því
að segja hvað þurfi að uppfylla. En
hvernig eigi að uppfylla kröfurnar
verður eftirlitsþeginn að finna út
sjálfur, enda vita þeir oft miklu betri
leiðir en við til að ná fram úrbótum.
Þannig að við megum segja hvað
þurfi að gera, en ekki hvernig.“
Hún bendir á að ef umráðamaður
vill fá aðstoð við úrbætur þá geti
hann beint slíkum fyrirspurnum til
aðila eins og Ráðgjafarmiðstöðvar
landbúnaðarins. Hins vegar hafi
eftirlitsmenn leyfi til að miðla því
hvernig aðrir hafa leyst úr málum.
Reynir á samskiptahæfni
„Eftirlit Matvælastofnunar með
fagmennsku bænda er bæði
sjálfsagt og nauðsynlegt,“ segir
Trausti Hjálmarsson, formaður
Bændasamtaka Íslands. „Í þeim
efnum megum við engan afslátt
gefa en auðvitað er líka mikilvægt
að fagmennskan af hálfu Mast sé
óaðfinnanleg og að þar sé bæði gætt
að jafnræði og meðalhófi.“
Trausti segir að vegna
eðli eftirlitsins reyni bæði á
samskiptahæfni eftirlitsaðila og
bænda. „Ég geri mér grein fyrir því að
nándin er mikil og viðkvæm í svona
eftirliti. Fyrirtæki bóndans er um
leið heimili hans og fjölskyldunnar
allrar og eftirlitið nær óhjákvæmilega
til fleiri þátta en þeirra einna sem
snerta bústörfin. Þess vegna reynir
á tillitssemi og samskiptahæfni og á
þeim sviðum eru menn væntanlega
jafnmisjafnir og þeir eru margir.“
Eftirlitið hafi margþætt og þarft
hlutverk. Aðbúnaður og velferð
dýranna leikur þar stórt hlutverk en
fleiri mikilvægir þættir komi til.
„Það á einnig að tryggja
heilnæmi framleiðslunnar og gæði
afurðanna. Á meðan eftirlitið sér til
þess að kröfum um aðbúnað sé mætt
er það á ábyrgð okkar bændanna
að uppfylla þessi skilyrði og það
eigum við auðvitað að gera með
stolti og ánægju,“ segir Trausti.
Hann telur bændur meðvitaða
um þær kröfur sem gerðar eru til
þeirra. „Ég er sannfærður um að
bændur séu í hvívetna að reyna að
hámarka framleiðslugetu sína. Til
þess þarf fyrsta flokks aðbúnað,
vandaða fóðurgjöf og metnað á ótal
öðrum sviðum sem saman leggja
grunn að framleiðslugetunni og um
leið framlegðinni.“
Bændur séu almennt vel
upplýstir og sinni búrekstri af
vandvirkni. „Það eru hins vegar
eflaust til undantekningar frá þeirri
reglu eins og öðrum. Þá skiptir
miklu máli að eftirlitið sé ekki
síður til leiðbeiningar en refsingar.
Þá reynir aftur á samskiptin,
markmið eftirlitsins og leiðbeinandi
hvatningu til úrbóta,“ segir Trausti.
Skýra þarf leiðbeiningarskyldu
Undir það tekur Katrín Pétursdóttir,
lögfræðingur Bændasamtakanna.
„Eftirlit þýðir ekki að Mast beri
ábyrgð á því að lagaleg skilyrði
séu uppfyllt. Umráðamaður
dýra ber ábyrgð á því. Mast er
að framfylgja lögum og því er
gríðarlega mikilvægt að bæði þau
og reglugerðir þeim tengdar séu
skýr. En það er því miður ekkert
alltaf þannig enda eflaust hægara
um að tala en í að komast. Þess
vegna er svo mikilvægt að gæta að
jafnræði eins og frekast er unnt, að
hafa samræmt eftirlit um allt land
þannig að einn bóndi sé ekki að fá
úrskurð um frávik út af einhverju
atriði sem annar bóndi fær enga
athugasemd við.“
Katrín segir ríka leiðbeiningar
skyldu hvíla á Mast samkvæmt
stjórnsýslulögum en henni sé ekki
alltaf sinnt sem skyldi. „Í upphafi
þriðja kafla stjórnsýslulaga
nr. 37/1993 segir einfaldlega:
„Stjórnvald skal veita þeim sem
til þess leita nauðsynlega aðstoð
og leiðbeiningar varðandi þau
mál sem snerta starfssvið þess.“
Þessi leiðbeiningarskylda á ekki
eingöngu við um frávik. Mast hefur
skýrar skyldur í þessum efnum og
það er mikilvægt að stofnunin hafi
haldgóða þekkingu á markmiðum og
lögbundnum tilgangi eftirlitsins. Það
dugar því ekki að Mast setji frávik
á eitthvert atriði án þess að útskýra
hvernig úr megi bæta,“ segir Katrín.
Meiri umræða jafnar
mögulegan ágreining
Inntur eftir því hvernig
Bændasamtökin og búgreinadeildir
þess hafa unnið í þágu dýravelferðar
segir Trausti að kafla um dýravelferð
megi finna í stefnumörkun
samtakanna. „Markmiðin eru
metnaðarfull en Bændasamtökin
hafa í sjálfu sér ekki eftirlitshlutverk
hvað þetta varðar. Fyrir ímynd
íslenska landbúnaðarins er
það afar mikilvægt að bændur
standi sem einn maður saman
um fyrirmyndarbúskaparhætti.
Engin keðja er sterkari en veikasti
hlekkurinn og það er sjálfsagt að
hvetja bændur stöðugt, og ef til vill
meira en gert hefur verið, til þess að
halda vöku sinni gagnvart velferð
dýranna,“ segir Trausti.
Hann segir að hægt sé að jafna
mögulegan ágreining á milli bænda
og eftirlitsaðila með meiri umræðu
um verklagið. „Bændur eiga auðvitað
að leggja sig fram um að samskipti
þeirra við eftirlitið séu vinsamleg
og í þeim efnum er auðvitað góð
byrjun að hafa bústjórnina alla í lagi.
Á sama hátt er agað og samræmt
vinnulag eftirlitsins forsenda þess að
viðhorf til hins lögbundna hlutverks
þess sé jákvæð.
Hver einasti bóndi er hluti
af samfélagi framleiðenda á
úrvalsafurðum fyrir íslenskan
markað. Þess vegna ættu snurðulaus
samskipti við faglegan og einsleitan
eftirlitsiðnað ekki að vera draumsýn
eingöngu heldur sjálfsagður hluti af
okkar daglega starfi. En það þarf tvo
til að dansa tangó og eflaust geta
bæði liðin samhæft sig enn betur á
dansgólfinu með góðu samtali og
þrotlausum æfingum,“ segir Trausti.
Eftirlitsheimsóknir á 1.000 bú á ári
Mast var stofnað árið 2008 þegar Landbúnaðarstofnun, matvælasvið
Umhverfisstofnunar og matvælasvið Fiskistofu voru sameinuð undir einum
hatti. Stofnunin starfar undir yfirstjórn matvælaráðuneytisins. Árið 2014 var
búfjáreftirlit fært frá sveitarfélögum til Mast samhliða endurskipulagningu á
eftirliti með dýravelferð en það sama ár tóku ný lög um málaflokkinn gildi.
Hlutverk Mast er, samkvæmt lögum um Matvælastofnun, meðal annars að fara
með stjórnsýslu og eftirlit í samræmi við lög varðandi matvæli, dýraheilbrigði,
dýravelferð, jarðrækt, fóður, sóttvarnir og viðbragðsáætlanir, fiskeldi, kjötmat,
inn- og útflutningseftirlit.
Mast hefur eftirlit með um 5.700 starfsstöðvum í búfjárhaldi en um 85 prósent
lögbýla lúta eftirliti með dýravelferð. Ár hvert fer Mast í eftirlit á yfir 1.000 bú.
Árið 2023 fór stofnunin 492 sinnum í eftirlit á sauðfjárbú, 465 sinnum
á nautgripabú og 23 sinnum á geitabú. Mast ber að heimsækja allar
starfsstöðvar með fyrrnefndu búfé þriðja hvert ár. Stofnunin fór 384 sinnum á
hrossabú en starfsstöðvarnar eru alls 2.540 talsins og ber stofnuninni að líta
eftir þeim öllum fjórða hvert ár. Blóðmerabú lúta þó stífari gæslu.
Eftirlit með alifuglum þarf að fara fram að minnsta kosti annað hvert ár en
57 sinnum fór stofnunin í eftirlitsheimsókn á slíkar starfsstöðvar árið 2023.
Þær eru þó eingöngu 55 talsins. Þá ber stofnuninni að fara að minnsta kosti
einu sinni á ári á öll svínabú og fóru eftirlitsaðilar 29 sinnum á þær átján
starfsstöðvar árið 2023.
Trausti Hjálmarsson. Katrín Pétursdóttir.