Bændablaðið - 10.10.2024, Síða 34

Bændablaðið - 10.10.2024, Síða 34
34 Erlendar fréttir Bændablaðið | Fimmtudagur 10. október 2024 Bandaríkin: Eilífðarefni í ræktarlandi – PFAS berst í matvæli vegna mengaðs áburðar Hátt hlutfall eilífðarefna hefur fundist í landbúnaðarafurðum í Bandaríkjunum. Það er rakið til notkunar skólps sem áburð á ræktarlönd sem hófst fyrir áratugum síðan. Bandarísk stjórnvöld hafa um áratugaskeið hvatt bændur til að nýta hreinsað skólp frá sveitarfélögum sem áburð. Seyran er uppfull af næringarefnum og með þessu er komist hjá urðun. Nýjar rannsóknir benda til þess að skólpið, sem kemur bæði frá heimilum og iðnaði, getur innihaldið PFAS. Þessi eilífðarefni hafa nú fundist í miklu magni í ræktarlandi í ríkjum eins og Texas, Maine, Michigan, New York og Tennessee. The New York Times greinir frá. Þessi þrávirku eilífðarefni, sem eru oft kölluð PFAS, safnast upp í vistkerfum og geta borist í menn meðal annars í gegnum fæðu. Fjölmörg efni sem eru notuð í allt frá útivistarfatnaði, viðloðunarfríum steikarpönnum og ýmsu sem viðkemur iðnaði eru nefnd PFAS. Neikvæð áhrif þeirra á heilsu manna og dýra hafa komið í ljós á undanförnum áratugum. Lífræn bú hafa ekki sloppið PFAS efnin berast úr ræktarlandinu í fóður, þaðan sem það safnast upp í búfénaði og hefur það greinst í mjólk og kjöti. Bú þar sem er stunduð lífræn ræktun hafa ekki sloppið, en PFAS getur varðveist í jarðvegi í áratugi og haldið áfram að valda skaða löngu eftir að notkun mengaðs skólps er hætt. Yfirvöld í Michigan voru meðal þeirra fyrstu sem fóru að kanna eilífðarefni í skólpi sem er notað til áburðar. Þar hefur öll landbúnaðarframleiðsla um ókomin ár frá einu býli verið stöðvuð vegna sérlega hás hlutfalls PFAS í jarðveginum. Ekki hefur verið lagst út í víðtæka könnun á PFAS í ræktarlandi í ríkinu þar sem óttast er að það valdi víðtækum efnahagslegum skaða innan landbúnaðargeirans. Árið 2022 voru yfirvöld í Maine þau fyrstu í Bandaríkjunum til að banna notkun skólps til áburðar. Það er jafnframt eina ríkið sem hefur lagst í markvissa könnun á magni PFAS í ræktarjörð. Hingað til hefur mengun mælst á 68 af meira en hundrað bújörðum sem hafa verið skoðaðar, en til stendur að kanna meira en þúsund. Málsókn bænda í Texas Í Texas hafa nokkrir bændur hafið málsókn þar sem búfénaður hefur drepist í miklu magni. Annars vegar gegn Synagro, sem er fyrirtækið sem útvegaði skólpáburð, og hins vegar gegn Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (EPA), þar sem stofnunin var ekki með nógu öflugt regluverk yfir notkun skólps. EPA hefur fylgst með sýklum og þungmálmum en ekki PFAS, þrátt fyrir stöðugt auknar vísbendingar um slæm áhrif eilífðarefna á heilsuna. Bændurnir tengja veikindi búfénaðarins við notkun mengaðs skólps á nágrannajörð sem barst í grunnvatnið. Í málsókn þeirra kemur fram að ein tegund af PFAS hafi mælst í grunnvatni í hlutföllunum 1.300 hlutar á móti trilljón og innihélt lifur dauðfædds kálfs sambærilegt PFAS efni í hlutföllunum 610.000 hlutar á móti trilljón. Þó það sé ekki fullkomlega samanburðarhæft hefur EPA mælst til þess að í drykkjarvatni séu tvær tilteknar tegundir PFAS efna ekki yfir 4 hlutum á móti trilljón. Ein trilljón samsvarar milljón billjónum. Notkun á skólpi sem áburð hófst eftir að bann var lagt við að losa það í ár og vötn árið 1972. Bent hefur verið á að bann við notkun skólpáburðar sé ekki endilega lausnin, því eftir að Maine tók fyrir slíka notkun hefur þurft að flytja það í nágrannaríki þar sem urðunarstaðir geta ekki tekið við því. Lausnin felist frekar í því að banna notkun PFAS í vörur og fara fram á að iðnfyrirtæki hreinsi affallið frá sér áður en það er sent í skólphreinsistöðvar. /ál Búfénaður hefur drepist og fólk hefur veikst vegna PFAS-mengunar í ræktarlandi í Bandaríkjunum. Mynd / Kristyn Lapp Frakkland: Stjórnvöld vilja uppræta vínekrur Stjórnvöld í Frakklandi vilja verja 120 milljónum evra til að rífa upp vínvið af allt að þrjátíu þúsund hekturum lands. Ástæðan er offramboð. Í Frakklandi eru um átta hundrað þúsund hektarar af vínekrum. Franska landbúnaðarráðuneytið áformar nú að borga bændum, einkum í Bordeaux-héraði, fyrir að uppræta hluta vínviðar síns til að draga saman framboð á þrúgum til víngerðar. Alþjóðleg vínframleiðsla var rúmlega 10% meiri en eftirspurn árið 2023 samkvæmt tölum frá Alþjóðlegu vínstofnuninni (OIV) og vilja frönsk stjórnvöld hemja offramboð. Er talið að verkefnið muni kosta um 120 milljónir evra og markmiðið að koma í veg fyrir framleiðslu vínþrúgna af um 30 þúsund hekturum lands. Franska víntímaritið Decanter greinir frá. Fá 600 þúsund á hektara Til stendur að uppræta hátt í níu prósent af vínekrum Bordeaux- héraðsins. Bændur gætu fengið allt að fjögur þúsund evrur, um 600 þúsund kr., á hektara fyrir að heimila stjórnvöldum að uppræta vínvið. Jafnframt þyrftu þeir að undirgangast bann við gróðursetningu vínviðar á landi sínu fram til ársins 2029. Offramboð hefur lækkað verð á vínum og hefur áhrif á afkomu vínbændanna. Sömuleiðis hefur orðið markaðskreppa m.a. vegna innrásarstríðs Rússa í Úkraínu. Vínneysla fer minnkandi Vínneysla er að breytast víða um heim. T.d. dróst vínsala í frönskum matvöruverslunum saman um 5 prósent milli ára og er einkum um að ræða rauðvín og rósavín. Meðal-Frakkinn neytti á árum áður að meðaltali 120 lítra víns á ári en það magn er nú komið niður í 40 lítra. Franskur vínútflutningur dróst saman um 9,4 prósent á síðasta ári og hefur ekki verið minni síðan árið 2007. /sá Uppræta á hátt í 9% af vínekrum Bordeaux-héraðsins vegna offramboðs. Mynd / Pixabay England: Bændur orðnir langþreyttir Hjálparbeiðnir frá bændum í Lincolnshire í Englandi hafa margfaldast frá því sem var. Forsvarsmenn hjálparsíma bænda í Lincolnshire í Englandi, Lincolnshire Rural Support Network (LRSN), hafa greint frá því að 96% aukning hafi orðið í símtölum frá bændum undanfarin tvö ár. The Scottish Farmer greinir frá. Hjálparlínan er rekin af góðgerðarsamtökum á svæðinu og segja þau að rekja megi aukninguna til fjölbreyttra og erfiðra áskorana sem bændur hafi staðið frammi fyrir undanfarið, ekki síst vegna mikillar rigningartíðar í sumar sem leið. Fjöldi bænda varð fyrir tjóni í storminum Henk fyrr á þessu ári, sem og í óveðrinu Babet í fyrra. Segja LRSN að þegar lífsviðurværi bænda velti mjög á hlutum sem þeir hafi enga stjórn á geti það verið þeim mjög erfitt. Þá reki hver áskorunin aðra og fólk sé hreinlega uppgefið. Samkvæmt LRSN fékk hjálparlínan 174 símtöl árið 2023 og veitti 348 manns svokallaðan einstaklingsstuðning. Símaþjónustan er mönnuð af sjálfboðaliðum og hefur verið rekin í tuttugu og fimm ár. Bændur á svæðinu segjast enn bíða eftir fjárhagslegum stuðningi sem ríkisstjórnin lofaði þeim en sérstakur sjóður, The Farm Recovery Fund, hafði verið stofnaður í þágu bænda sem verða fyrir skemmdum á landi. Sumarið þetta árið bætti ekki úr skák og kvarta bændur sáran undan því að bleytutíðin hafi komið í veg fyrir að uppskeran þroskaðist á tilsettum tíma þannig að mæta mætti eftirspurn eftir afurðum. Hjálparlína bænda í Lincolnshire býst þannig enn við stigvaxandi fjölda símtala þar sem bændur geta orðað vandkvæði sín, fengið hvatningu og aðstoð. /sá Mikið hefur rignt í Englandi undan- farinmisseriogbændureruvíðaí vandræðum. Mynd / Gosia K.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.