Bændablaðið - 10.10.2024, Side 58
58 Líf & starf Bændablaðið | Fimmtudagur 10. október 2024
Kjói er lítill ránfugl af skúmsætt. Eini ættingi hans hér er sjálfur skúmurinn sem er allur miklu stærri og þreknari. Kjóinn er aftur á móti minni og allur fíngerðari. Tvö
litbrigði eru af kjóa, dökkt og ljóst. Dökkur kjói er aldökkur og að mestu móbrúnn en fuglinn sem er á myndinni er dæmi um ljósan kjóa. Eitt af helstu einkennum hans
eru langar, oddhvassar miðfjaðrir í stélinu sem sjást vel á myndinni. Kjói er með langa vængi, rennilegan búk og er afar flugfimur. Hann hefur lært að nýta sér þessa
flugfimi til að ræna æti frá öðrum fuglum. Hann eltir uppi kríur, ritur, lunda og fýl og þreytir þá þangað til þeir neyðast til að sleppa ætinu sem þeir hafa. Kjóinn nær þá
að grípa ætið, jafnvel á flugi. Kjói er útbreiddur um allt land frá fjöru til fjalls og inn á hálendi. Varpsvæði hans eru því nokkuð fjölbreytt. Þótt hreiðrið sjálft sé lítilfjörlegt
– dæld í jörðinni – þá verpa þeir í votlendi, móum, söndum og hálendisvinjum. Hér á Íslandi er hann farfugl en varpheimkynni hans eru ekki bara á Íslandi heldur allt
umhverfis norðurheimskautið og Norður-Atlantshafið. Þegar haustar færir hann sig síðan sunnan megin við miðbaug þar sem hann dvelur á Suður-Atlantshafinu.
Mynd og texti / Óskar Andri Víðisson
Stjörnuspá
Vatnsberinn þarf að taka aðeins í hnakka-
drambið á sjálfum sér og setja í framkvæmd
það sem hann hefur ætlað sér frá því í janúar.
Lífið mun taka stökk fram á við ef hann lýkur
þessum verkefnum og honum að óvörum lendir
hann í svolitlu ástarævintýri. Framvinda þess
kemur einnig á óvart, en ekki á þann hátt sem
vatnsberinn telur sig vita. Happatölur 4, 15, 6.
Fiskurinn á aldeilis eftir að hafa tækifæri
til að gefa af sér á næstunni. Hann lendir í
aðstæðum þar sem orðum hans er viðsnúið og
gleður viðstadda öfugt við það sem hann lagði
upp með. Fiskurinn þarf því að taka stöðuna
innra með sér, ætlar hann að samgleðjast og
leyfa hlutunum að fara þá leið, eða leiðrétta
hlutina og mögulega koma af stað illindum?
Happatölur 82, 61, 8.
Hrúturinn hringsnýst innra með sér um
þessar mundir og á erfitt með að festa reiður á
lífi sínu. Honum þykir verkefnafjöldinn heldur
mikill og áreiti almennt auk þess sem ástar- og
tilfinningamálin eru ekki enn upp á sitt besta.
Hugleiðsla og gönguferðir gætu orðið honum til
góðs við að leysa úr helstu tilfinningaflækjum.
Ekki gefast upp. Happatölur 6, 11, 98.
Nautið á von á peningum núna á dögunum
og skal ekki hika við að eyða hluta þeirra beint
í sjálft sig. Nautið er eitt þeirra merkja sem lætur
þarfir annarra framar sínum eigin en þarf að
æfa sig í hinu gagnstæða. Bjart er yfir nautinu,
jafnvægi ríkir nú meir en oft áður og því um
að gera að njóta lífsins. Happatölur 8, 24, 13.
Tvíburinn kemur ágætlega undan sumrinu og
þarf að setja í forgang að halda því jafnvægi.
Ósætti eru nefnilega í loftinu og þar skal halda
yfirvegun og ró eftir bestu getu svo málin
leysist sem fyrst. Tvíburinn þarf að æfa sig í að
halda stillingu og þarna gefst honum einstakt
tækifæri. Happatölur 5, 78, 44.
Frjósemi er í loftinu hjá krabbanum og getur
storkurinn áætlað mætingu á svæðið alveg
óboðinn. Því skal taka með ró og muna að
engin ákvörðun er slæm. Krabbinn þarf að
gæta að heilsunni og vera meðvitaður um að
sofa sína tíu tíma ef vel á að fara næstu vikur.
Happatölur 30, 56, 40.
Ljónið á að sleppa tökunum á því sem er að
angra það. Sjá hlutina frá fleiri sjónarhornum
en sínu eigin með opnum huga og ekki láta
neitt hræða sig. Það er þarna millivegur sem
þarf að ferðast um og vera sáttur með, og ef
sú ganga gengur vel verður hugarangrið leitt
til lykta. Happatölur 13, 6, 12.
Meyjan tiplar heldur mikið á tánum nú í byrjun
október, stígur varlega niður því hún er smeyk
um að móðga nánasta umhverfi. Þarna er um
misskilning að ræða sem ætti að komast til
botns í sem fyrst því hún má vel taka sér pláss
og þramma um. Meyjan þarf að tileinka sér að
breyta hugarfarinu aðeins og taka meira pláss
en áður, ekki síst í kringum þá sem eru henni
næstir. Happatölur 89, 15, 75.
Of mikið hefur verið um að vera hjá voginni
sem virðist engan endi taka. Hvíld, næring og
opin samskipti eru því mikilvæg svo hún haldi
dampi þar til hægist um. Félagslífið er í blóma
og hún kynnist ýmsu fólki sem mun verða henni
til halds og trausts næstu árin, jafnvel lengur.
Eitthvað kviknar í ástarmálunum og rétt að hafa
í huga að litlum blossa getur fylgt mikið bál.
Happatölur 58, 5, 52.
Sporðdrekinn verður fyrir óhappi – sem
verður honum til happs. Þetta kann að hljóma
sérkennilega en þó kemur fyrir að maður þurfi
að reka sig á til þess að geta staldrað við og þá
haldið förinni áfram. Sporðdrekinn á eftir að
kynnast ýmsum hliðum á lífinu sem annars
hefðu farið fram hjá honum. Mun prísa sig sælan
að hafa lent í ógöngum. Happatölur 2, 24, 69.
Bogmaðurinn hlakkar til jólanna. Eða jafnvel
áramótanna! Það er einhver fiðringur í honum
sem hann á erfitt með að hafa hemil á og hann
veit ekki alveg hvert hann á að stýra þessari auka
orku. Þessi orka er reyndar hluti þess sem kallað
er segulorka og virkar best þegar henni er stýrt
yfirvegað. Með segulorku má kalla til sín það
sem hugann girnist og nú þarf bogmaðurinn
að velja vel. Happatölur 23, 58, 8.
Steingeitin er að hefja nýjan lífshring. Nú
þarf hún að einblína á innri ró og kærleika þar
sem hún dæmir ekki aðra heldur hugsar sig um
hvernig hún vilji hafa næstu sjö ár, hverjir leika
þar hlutverk og að hverju hún stefnir. Steingeitin
er eitt þrjóskasta merkið en ætti að æfa sig í að
biðjast afsökunar. Nú er um að gera að setjast
niður og spá aðeins í þetta. Happatölur 4, 40, 53.
Nú með haustinu eru hlébarða-
munstraðar flíkur enn og aftur í
tísku, enda klassík sem allir ættu
að eiga í skápnum.
En hvers vegna eru skinn annarra
dýrategunda svona aðlaðandi? Við
klæddumst loðfeldum annarra dýra
í upphafi til þess að halda á okkur
hita og fæla dýr frá því að ráðast á
okkur. Dýrahamir voru einnig merki
um þor og dug veiðimanna, sýndu
öðrum hversu slungnir veiðimenn
þeir voru og hversu hátt þeir sátu í
virðingarstiganum.
Sú hugsun helst að nokkru í hendur
við okkur nútímafólkið sem kýs að
klæðast loðfeldum eða skinnum dýra
sem á einn eða annan hátt eru fágæt
eða hættuleg. Við viljum sýna hversu
mikil völd eða auðæfi tilheyra okkur
með því að klæðast fágætum varningi
sem ekki er á allra færi.
Staða dýrsins sem slíks virðist
einnig áhrifavaldur, t.d. hafa
kanínupelsar verið vinsælir gegnum
tíðina enda kanínur mjúkar og sætar.
Minkar og minkapelsar eru vinsælir
sömuleiðis enda getur enska orðið
minx þýtt unga og aðlaðandi konu
sem er aðeins of spennandi … og hver
man ekki eftir tískuhryllingi fyrri ára
þegar konur vöfðu heilum úrbeinuðum
dauðum dýrum um hálsinn? Hvað svo
sem það átti að þýða.
Rándýrt leður ...
Skó má fá úr leðri mannætuhákarla og
krókódíla, en hið síðarnefnda er eitt
dýrasta í heimi. Verðlagið má rekja til
þess hve krókódílaleður er fágætt, en
einungis er unnið leður af einni tegund
krókódíla í heiminum og leðrið sjálft
tæplega 1% af leðuriðnaði heimsins.
Vanda þarf til verka við vinnslu þess,
enda viðkvæmt og á heimsvísu eru fáir
staðir sem bjóða upp á sútunaraðstöðu
við hæfi í nágrenni dýranna. Virði
þessarar lúxusvöru felst svo í því
hversu vel skinnið er unnið, hvort ör
eða annar skaði á húð sé sjáanlegur.
Áætlað er að um 800 milljónir
krókódíla séu aldir á krókódílabúum
árlega, einungis vegna húðarinnar.
Þetta eru svakalegar tölur, en til að
mynda er krókódílarækt í Louisana-
ríki Bandaríkjanna einu saman í
kringum 70 milljón dollara iðnaður.
Slík ræktun gæti þótt galin, en
þó vilja sumir risar tískuiðnaðarins
endilega taka þátt. Til að mynda hóf
tískuveldi Hermès að byggja einn
stærsta krókódílabúgarð Ástralíu þar
sem rækta á yfir 50.000 dýr og húð
þeirra notuð í lúxusvörur á borð við
handtöskur og skó.
Dýraverndunarsamtök mótmæla
slíkum hugmyndum harðlega og hefur
PETA m.a. hvatt Hermès til að íhuga
stefnu sína auk þess sem áströlsk
stjórnvöld hafa hlotið töluverða
gagnrýni fyrir þau skilaboð að þeim
hugnist eldi villtra dýra og viðskipti
með afurðir þeirra.
Loðfeldir
Eitt verðmætasta skinn veraldar
er feldur marðartegundar sem ber
nafnið safali. Feldurinn hefur verið
mjög eftirsóttur allt frá miðöldum en
hann er bæði ofurmjúkur, þykkur og
glansandi. Í dag eru dýrin ræktuð til
pelsgerðar, en búa annars friðsamlega
í barrskógabelti Asíu.
Önnur verðmætasta tegund
skinna er af gaupu sem tilheyrir
kattarættinni og hefur búsetu víða á
norðurhveli jarðar. Á meðan feldur
gaupunnar er fallega flekkóttur þykir
feldur af magasvæði dýrsins hvað
eftirsóttastur – skjannahvítur með
kolsvörtum flekkjum.
Eitt skinn til viðbótar verður að
telja alveg rándýrt og kemur af suður-
ameríska nagdýrinu Chinchilla sem
hefur á íslenskunni m.a. verið nefnt
silkikanína þótt það sé í raun ekki
kanína. Feldur dýrsins hefur verið
eftirsóttur allt frá 19. öld, en í kringum
árið 1918 var chincillan komin í
útrýmingarhættu. Þeirri þróun var
snúið við með nokkru átaki og í
dag býr þetta friðsæla nagdýr á
friðuðum svæðum um heiminn,
nú eða í ræktunarstöðvum þar sem
það endar sem loðkápa.
Heimur sátta og samlyndis
Notkun skinna annarra dýra okkur til
þægingar hefur löngum verið hitamál.
Hvers vegna að drepa þegar engin
þörf er á? Þurfum við í alvöru að eiga
nagdýrapels og krókódílahandtösku
frá Hermès? Ef löngunin er mikil
ætti að vera hægt að versla notaðan
varning í stað þess að fjárfesta í nýjum
og taka þar með eitt lítið skref í átt að
heimsmynd þar sem allir búa í sátt og
samlyndi, dýr og menn.
Svo verður að athuga að þótt skinn
og leður dýraríkisins séu æ fágætari
kostur í tískuiðnaðnum hafa vistvænni
valkostir skotið upp kollinum í
auknum mæli.
Fjölmörg hátískumerki hafa
þegar skuldbundið sig til að hætta
framleiðslu varnings úr dýraskinnum
alfarið á meðan sum, á borð við
Chanel og Diane von Furstenberg,
hafa kosið að hætta einungis notkun
fágætra skinna.
Hraðtískurisinn H&M hefur svo
framleitt fjölda nýrra vara með því
að nota veganleður úr vínúrgangi auk
þess sem Adidas, Kering, Lululemon
og Stella McCartney hafa öll verið í
samstarfi við líftækniframleiðandann
Bolt Threads varðandi vinnslu með
sveppaleðri. Eins og áður hefur komið
fram á síðum tískunnar reyndar. En
þetta er vert til umhugsunar. /sp
Tíska:
Sjarmi dýrahama
Safali og kápa úr safalafeldi.
Krókódílaleðurstaska Hermès.
Frá eldisstöð krókódíla í eign
sama tískuveldis að ofan.