Ársrit Skógræktarfélags Íslands - 15.12.1946, Blaðsíða 38
36
Þegar hinir fyrstu bændur settust að í Matanuskadal
um og eftir 1916, fluttu sumir þeirra með sér sauðfé. Sakir
hinnar miklu víðáttu lands og skóga, treystu þeir sér ekki
til að sleppa fé þessu lausu að sumarlagi, en þeir girtu
dálítið fell af, sem stendur utarlega í dalnum. Þar var
skógur ruddur að mestu og fénu síðan beitt á landið. Fellið
er um 100 metra á hæð, rúma tvo km á annan veginn, en
einn á hinn veginn. Fjöldi fjárins hefir aldrei verið mjög
mikill í fellinu, en hins vegar má ganga að því vísu, að féð
hefir verið látið ganga þarna eins lengi og tíð leyfði á
hverju ári. Enda er nú svo komið, að fellið er alls staðar
bert og blásið ofan á klöpp, og gróður er hvergi nema í
dýpstu skorningum og neðst í hlíðum. Fellið lítur út eins
og flest öll íslenzk fjöll og fell. En önnur fell í dalnum
eru öll skógi vaxin, svo að hvergi sést í grjót. Hvað sem
mönnum kann að finnast um þetta, þá vakti það undrun
mína, hversu jarðvegar- og gróðureyðingin hafði verið
ör á þessum stað. Ég hafði aldrei haldið að þrjátíu ára
beit gæti haft jafn stórkostlegar skemmdir í för með sér.
Ég óskaði þess með sjálfum mér, að allir þeir, sem blind-
astir eru á örtröðina á íslandi, og eins þeir, sem loka aug-
unum fyrir henni, ætti þess kost að líta þetta fell augum,
því að þeir mundu áreiðanlega verða heilskyggnir á eftir,
Er við Pat White höfðum skoðað þetta tvennt gaum-
gæfilega, fórum við nokkuð víða um dalinn til þess að sjá,
hvort lössjarðvegurinn næði ekki yfir vítt svæði, en það
er skemmst frá að segja, að hann var hvar sem við kom-
um. Þarna óx hvítgreni og birki hvað innan um annað, og
var eigi sýnilegt, að hvítgrenið yxi nokkuru verr en björk-
in. Gat ég ekki annað séð, en að kenningin um, að barrtré
geti ekki þrifizt í lössjarðvegi, hefði enga stoð í veruleik-
anum. Og ég átti eftir að sjá það síðar suður á Kenaiskaga,
að bæði sitkagreni og marþöll uxu jafnvel og hvítgrenið í
lössjarðvegi.