Ársrit Skógræktarfélags Íslands - 15.12.1946, Page 65
63
En það er undantekningarlaus regla, að hvarvetna, þar
sem friðunar hefir notið um skeið, hefir gróðri landsins
fleygt fram, og það virðist oft og tíðum sem mestar og
örastar framfarir verði á skóglendinu, þar sem kjarrið er
lágvaxnast og verst farið. Einkum hefir verið bæði
skemmtilegt og fróðlegt að fylgjast með því, hvernig
gamalt og upp urið skóglendi hefir á fáum árum breytzt
í fagran ungskóg. Á Eiðum á Héraði og á Vöglum á Þela-
mörk leyndust eldgamlar birkirætur í jörðu um tugi ára,
og bryddi svo lítið á þeim, að engum mun hafa til hugar
komið, að þar mundi nokkuð vaxa upp. Samt sem áður
hefir snotrasti ungskógur vaxið upp af þeim á 15—20
árum. Hæsta tréð á Eiðum er orðið 3 metrar, en samfellt
skóglendi er nú orðið um mikinn hluta girðingarinnar.
Fyrir 7 árum var girðingin á Eiðum stækkuð mjög. Hafði
ég farið um hið fyrirhugaða skóglendi í hálfan dag og
leitað að ungviði innan um lyng og gras áður en setja átti
girðinguna upp. Kom ég aðeins auga á tvær birkikrækl-
ur og var því að vonum vondaufur með árangur af frið-
un landsins. En undirbúningi að girðingu var svo langt
komið, að ekki varð aftur snúið. Fimm árum síðar fór ég
víðs vegar um svæðið, og þá sá ég mér til mikillar gleði,
að alls staðar um allt landið var nýgræðing að finna, og
sums staðar var hann svo þéttur, að þar mun vaxa upp
samfelldur skógur.
Ekki getur það leikið á tveim tungum, að æskilegt væri
að friða og girða megnið af skóglendi landsins. Flatarmál
þess er allt að 100 þús. hektarar. Á þeim 45 árum, sem
unnið hefir verið að skógrækt hér á landi, hefir þrítug-
asti hluti þess verið tekinn til friðunar. Greinilegt er, að
langtum meira fé þurfi að verja í framtíðinni til skóga-
friðunar, því að með sama áframhaldi og hingað til mundi
það taka nærri 1500 ár að friða allt skóglendið.