Ársrit Skógræktarfélags Íslands - 15.12.1946, Page 103
101
bannið síðan endurnýjað af Þórarni sýslumanni Öfjörd
með bréfi, 6. dag septembermánaðar 1823 . . . (Sjá nán-
ara um þetta í grein Vigfúsar fræðimanns Guðmunds-
sonar: „Eyðing og verndun skóga“ í Ársriti Skógræktar-
félags íslands 1945, [bls. 42.]).
Hins vegar virðast Næfurholtsskógar eigi hafa notið
neinnar verndar af hálfu hins opinbera. A. m. k. finnst
ekkert um slíkar ráðstafanir í bréfabókum Rangárvalla-
sýslu frá þeim árum.
Þar kom þó að lokum, að mönnum hefir þótt nóg að-
gert um yrkingu kjarrleifanna í Næfurholtslandi, og gert
sér ljóst, að þeim mundi engu síður þörf á vernd, en í
Þórsmörk. Á útmánuðum 1840 skipaði Eiríkur sýslumað-
ur Sverrisson í Kollabæ [1837—1843] tvo menn, þá Loft
hreppstjóra Loftsson á Kaldbak og Jón bónda Jónsson í
Stóra-Klofa, til þess að athuga skógarítökin í Næfurholts-
landi og semja skýrslu um þau. Sú skýrsla, eða skoðunar-
gerð, þó að fáorð sé, bregður upp fyrir oss ömurlegri
mynd: blásið land með strjálum kjarrrunnum og kalöng-
um, gleymdri sögu og glötuðum örnefnum . . . örfoka
land, sem aðeins er svipur hjá sjón frá því er það var í
öndverðu, þegar menn tóku sér þar fyrst bólfestu.
SKOÐUNARGERÐIN FRÁ 18U0,
sem að ofan getur, verður tekin hér orðrétt upp og er
hún svo hljóðandi:
,,Árið 1840, þann 20. maí var af undirskrifuðum sam-
kvæmt skriflegri skikkun viðkomandi yfirvalds af 26.
marz s. á. álitin og yfirskoðuð skógarstöðuplátz ítakanna
í Næfurholtslandi, hver að eru eftir þeirra uppteiknan í
Næfurholtsskóga skipta skikkunarbréfi frá sýslumanni,
Þorsteini sál. Magnússyni, dateruðu 29. maí 1765, samt
skógaskiptabréfi af 7. júní s. á., sem fylgir:“ . . . Og
kemur síðan skráin, sem birt er hér að framan (sjá bls.
94, en við hana er skoðunargerðin miðuð og er hún á
þessa lund: